Eitt svona dæmi er þegar fólk segir að ungabörn brosi ekki…þetta sé bara vindgangur!!! Ok, þetta hljómar kannski rökrétt, því við getum jú ekki spurt börnin hvort þau séu að brosa af því þeim líður vel…þau skilja nefnilega ekki mælt mál, og þau hafa enga leið til að tjá tilfinningar með því t.d. að faðma mann því þessi grey hafa enga stjórn á útlimunum.
Skoðum þetta aðeins nánar. Allar mæður (eða flestar allavega) VITA það að þegar börnin þeirra brosa þá er það BROS, en ekki gretta út af vindgangi. Hvernig getum við fært rök fyrir því að þetta sé rétt en ekki einhver ímyndum í nýbökuðum mæðrum eða jafnvel óskhyggja. Kíkjum á það sem vitað er um ungbörn:
Þegar barn fæðist þá hefur það aðeins einn hæfileika til mannlegra samskipta. Þetta er auðvitað gráturinn. Hvort sem barnið er þreytt, svangt, of kalt, of heitt eða hrædd (t.d. við hávaða) þá grætur það. Þeim mun hærra sem það grætur því fyrr og ákafar bregðast foreldrarnir við (gefið að allar kringumstæður séu eðlilegar).
Nýfætt barn hefur tiltölulega vel þroskað lyktarskyn og þroskaða heyrn…hins vegar sjá þau illa, eða ekki nema um 20-30 cm frá sér, sem er akkúrat fjarlægðin frá andliti barnsins að andliti foreldris sem heldur á því í fanginu. Fyrstu dagana í lífi barnsins hefur það enga stjórn á augnvöðvunum; augun flökta því um allt á meðan greyið krílið reynir að festa augun á einhverju í umhverfinu. Samkvæmt rannsóknum leitast börnin við að festa augun á einmitt augum foreldra sinna (eða þeim sem heldur á því í það skiptið). Ekki á nefinu eða einhverjum hlut…heldur augunum. Þetta er annað merki um samskipti, eða öllu heldur hér er lagður grunnur að samskiptum.
Nýfædd börn geifla sig heil ósköp. Hver svo sem ástæðan er fyrir ALLRA FYRSTA brosinu (tilviljum, eðlishvöt eða annað), þá bregst foreldrið við með því að brosa til baka og kjá framan í barnið. Þarna tekur barnið eftir því að ef það brosir, þá fær það meiri athygli; því er eðlislægt að sækjast eftir sem mestri athygli, það er einfaldlega lífsnauðsynlegt í orðins fyllstu merkingu. Því prófar barnið að brosa aftur og kannski aðeins breiðar í þetta skipti. Það verður til þess að foreldrið verður enn uppveðraðra og kallar á hitt foreldrið sem kemur væntanlega hlaupandi til að verða vitni að þessu kraftaverki (eðlishvöt líka…við foreldrar erum fullir af hormónum sem sjá til þess að við látum svona…). Barnið fær þarna 100% aukningu í athygli og heldur áfram að brosa, beinlínis til að tryggja sína lífsafkomu. Það sem er hér á ferðinni er því jákvæð styrking og á þessum tíma myndast fyrstu böndin sem tengja saman foreldra og barn fyrir fullt og allt.
Hvað finnst ykkur…eruð þið sannfærð?
I´m a daydreamer and a daydream believer