Að lifa
er að hafa fæðst

að lifa
er svo efinn

hvort maður sé
í raun sá
sem maður er

og uggur yfir því
hvert maður fer

að lifa
og svo deyja
án þess að vilja það.

Allir menn sem fæðast inn í þennan heim, kljást við svona hugsanir og tilfinningar. Þetta hver er ég? Hvaðan kom ég? Hvert fer ég? Er sífellt að angra menn, jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því.
Í rauninni er maðurinn einn í þessum heimi og verður því að lifa sjálfum sér og deyja sjálfum sér. Því að enginn fer með manni yfir landamæri lífs og dauða.Né getur tekið þátt í manns hjartans málum. Þannig er ástandið hjá okkur.
Þessu fylgir friðleysi og óöryggi og gerir það að verkum, að við reynum að lifa sjálfum okkur án þess að takast á við þennan sannleika. Við látum því eins og ekkert sé út á við. En innra vitum við betur. Því þar sjáum við eins og í skuggsjá, í ráðgátu. En er einhver lausn til á þessum vanda? ER til einhver sannleikur, sem segir okkur allt um okkur? Hver við erum? Hvaðan við komum og hvert við förum? Já, Guði sé lof, sá sannleikur er til. Þann sannleika má allan finna í Biblíunni Og þar segir Jesús Kristur: “Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.” Og á öðrum stað: “Leitið sannleikans og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.” Og við þá sem trúa þessu segir hann: “Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist…Ég mun gefa yður líf, líf í fullri gnægð.”
Við þurfum því ekki að lifa sjálfum okkur í blindu efans. Heldur í ljósi sannleikans með Guði.Tökum því fram Biblíuna og lesum!