Mér hefur fundist lítil virkni í þessu áhugamáli, og í stað þess að nöldra yfir því hvað aðrir eru óvirkir hef ég ákveðið að segja frá reynslu minni í sambandi við fæðingarþunglyndi.
Ég greindist mjög ung með þunglyndi og versnaði það með árunum. Þegar ég komst að því að ég væri ólétt vissi ég ekki hvað ég ætti að gera. Ég gat ekki ákveðið hvort ég ætti að eiga barnið eða ekki, og hef lengi pælt í því hvað það var sem fékk mig til að hætta við fóstureyðinguna. Ég gerði lítið annað en að gráta fyrstu vikuna eftir að hafa komist að þessu, og eina huggunin sem ég hafði var yndislegur stuðningur frá kærastanum mínum.
Eins og ég minntist á hér fyrir ofan, hef ég lengi pælt í því hvað það var sem fékk mig til að eiga barnið, og er ég nokkurnvegin viss um ég gerði það vegna kærastans míns. Honum langaði svo til að eignast barn, og hann hafði oft sagt mér það áður, því hjá okkur báðum voru litlar líkur á því að getnaður gæti átt sér stað. Hann var alveg himinlifandi, og alla meðgönguna sagðist ég vera sátt, en var það í raun ekki. Ég vissi ekki einu sinni hvernig mér leið. Ég vissi bara að mér leið mjög illa, því ég hafði ekki hugmynd um hvað ég hafði komið mér í. En innst inni hafði ég mjög djúpstæðar tilfinningar til barnsins sem ég bar undir belti, en ég hafði bara ekki gert mér grein fyrir því ennþá að þetta væri dýrmætasta gjöf sem ég hafði nokkurntímann fengið.
Þann 31. maí sl. kl. 11:10 um morguninn ákvað sonur okkar svo loks að heiðra okkur með nærveru sinni. Fæðíngin gekk vel, fyrir utan andlega vanlíðan hjá mér. Ég fékk strákinn minn strax uppá magann, hann var svo vakandi, grét ekki neitt og unaði sér greinilega mjög vel við að skoða allt fólkið í kringum sig. Þótt mér hafi liðið illa, gleymdi ég sársaukanum sem fylgdi fæðingunni og meðgöngunni um leið og ég fékk hann í fangið, og sá þennan fagurskapaða og fullkomna litla líkama sem ÉG hafði búið til.
En þrátt fyrir allt þetta, þá var ég ekki glöð. Ég gat ekki brosað, ég gat ekki hlegið, mig langaði aðeins óstjórnlega mikið að gráta.
Ég var fimm daga á sængurkvennaganginum, og það var ekki fyrr en á þriðja degi sem ég gat horft á litla strákinn minn og séð hversu yndislegur hann var. Þá fyrst grét ég, því mér fannst hann svo fullkominn, en ég grét líka því mér fannst ég strax vera ömurleg móðir fyrir að elska hann ekki eins og móðir ætti að elska barnið sitt. Mér fannst eins og barnið mitt hataði mig og það besta sem ég gæti gert fyrir hann væri að gefa hann frá mér. Ég vildi ekki halda á honum, því ég var svo hrædd um að meiða hann. Ég gat engan veginn haldið á honum og komið honum fyrir, eða hjálpað honum að ná taki af brjóstinu á mér til að næra sig. Ég gat ekki einu sinni staðið upp til að skipta á honum.
Í stuttu máli sagt, lét ég alltaf kærastann minn sjá um barnið.
Ég gat ekki gefið barninu brjóst, því í hvert skipti sem ég hafði hann þar, langaði mig til að öskra. Kvíðaólgan óx innra með mér, og ég var hrædd um að barninu færi einfaldlega að líða illa útaf því að mér leið hræðilega. Það endaði með því að ég varð að gefa brjóstagjöfina uppá bátinn, vegna þess að ég var of þungt haldin. Ég var sett beint á lyf.
Þegar af spítalanum var komið, fórum ég og kærastinn minn með nýfæddan strákinn okkar suður til Grindavíkur til foreldra minna. Mamma mín hafði tekið sér sumarfrí í vinnunni til þess að kynnast nýja barnabarninu sínu og var þetta því kjörið tækifæri fyrir mig til þess að fá hjálp, því ég treysti mér engan vegin ein með barninu. Ég hafði aldrei á ævi minni umgengist börn, haldið á barni eða neitt slíkt. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig ætti að sjá um svona lítið kríli. Ég var í Grindavík í þrjár vikur, og var strákurinn mest hjá móðir minni og kærastanum mínum.
Í sjálfsvorkunnarvíti, grét ég á hverjum degi því mér fannst ég vera svo ömurleg að geta ekki sinnt barninu mínu. Mér leið bara það illa að ég gat engan veginn komið mér í það að sinna honum. Mig langaði helst bara að skríða undir sæng og hverfa.
Þegar við komum aftur hingað heim, fór kærastinn minn út að vinna aftur. Ég var stanslaust hringjandi í hann og biðjandi hann um að koma heim, því ég gat ekki verið ein heima. Barnið var oft með magakveisu og grét mikið og sáran, og mér fannst svo sárt að sjá það að ég fór bara að gráta sjálf. Það endaði alltaf með því að kærastinn minn kom heim aftur til þess að hugsa um bæði mig og barnið. Næstu vikur á eftir þessu fór strákurinn oft í pössun, því ég var eins og taugahrúga og kærastinn alveg dauðþreyttur frá því að vera útivinnandi og heimavinnandi, því ég kom svoleiðis engu í verk.
Smátt og smátt fór ég samt að reyna að byggja mig upp. Ég tók lyfin mín, reyndi að sinna sjálfri mér betur til þess að líða betur. Og með tímanum fór ég að geta verið meira ein með barninu. Samt voru ferðir mínar til Grindavíkur tíðar, til þess að fá hjálp frá móður minni. Ég var ennþá ekki komin með miklar tilfinningar til barnsins, heldur því litla sem ég sinnti því var af skyldurækni. Ég var ennþá svo hrædd um að skaða barnið mitt, því að hræðslan og kvíðinn sem kom upp í hvert skipti sem barnið vaknaði var svo ofsafenginn. Þegar ég hafði gefið barninu að borða, og hann var sofnaður í rúminu sínu, sat ég og lét mig kvíða fyrir því að hann vaknaði aftur.
Það mátti ekkert segja við mig, og ekkert koma fyrir því þá langaði mig bara mest til að gefast upp aftur. Mér fannst ég sæta gagnrýni allsstaðar frá, og var því oft stutt í grátinn.
En ég hélt samt áfram að reyna, og reyndi eftir bestu getu að tala um vandamálin við þriðja aðilann. Ég og kærastinn rifumst mikið, en það hefur skánað mikið eftir að við fórum að tala við þriðja aðilann og fá ráðgjöf. Ég tók lyfin mín áfram, og rak sjálfa mig áfram í því að sinna barninu. Manaði mig hálfpartinn í verkið.
En það sem bræddi mig alveg var þegar strákurinn minn brosti í fyrsta skipti fyrir alvöru… Ég vaknaði við hann eftir að kærastinn minn var farinn til vinnu, og ég fór á fætur til þess að sinna stráknum. Hann var argur og var greinilega orðinn svangur og vildi þurra bleyju. Ég stóð upp, og horfði ofan í rúmið hans, og uppúr því ljómaði fallegasta bros sem ég hef á ævi minni séð. Það fyrsta sem kom uppí hugann á mér var “hann þekkir mig..” og ég varð voðalega ánægð.
Ég veit að tengingin á milli móður og barns er alveg gríðarleg. Og því ef barnið veit að móðirin er pirruð eða líður illa, þá grætur það frekar. Alltaf þegar barnið mitt grét, hélt ég það vera vegna þess að það hataði mig, og vildi ekki vera hjá mér. En það var bara vegna þess að mér leið illa. Hver ranghugmyndin á fætur annarri flæddi uppí höfuðið á mér og mér tókst að sannfæra sjálfa mig um ótrúlegustu hluti. T.d. eins og að barnið hataði mig.
En hægt og hægt hef ég lært að elska barnið mitt meira og meira með hverjum deginum. Brosið hans, blíða hjalið hans og yndislegur hláturinn. Þetta fallega hringlótta andlit, og spékopparnir sex. Og hvað hann er sætur þegar hann brosir, eins og hann fari hjá sér. Maður sér gleðitilfinninguna og kitlið sem hann fær í magann þegar hann brosir, líkt og ég man eftir að hafa fengið þegar ég var lítil stelpa.
Ég get með sanni sagt, að þótt þetta hafi verið, og sé erfitt, að þá get ég ekki ímyndað mér lífið án Axel Þórs, litla drengsins míns. Mér finnst þetta fallegasta barn á jarðríki, og það besta sem ég veit er að þegar ég tek hann upp að þá réttir hann úr vinstri hendi og tekur í hárið á mér og strýkur hálsinn á mér. Ég elska þegar hann kúrir sig í hálsakotið á manni, og sýgur bolinn minn til að sofna. Ég elska allt í fari hans. Mér finnst hann hreinlega fullkominn. Og mér finnst svo ótrúlegt að ég skuli hafa lokað fyrir allar þessar tilfinningar, og ekki hleypt þeim út.
Þess vegna langar mig að hvetja þær konur áfram sem eru þunglyndar eftir fæðingu. Að þótt að þið finnið ekki tilfinningarnar til barnsins strax, að þá koma þær. Innst inni elskið þið barnið ykkar meira en allt annað í þessum heimi, og innst inni VITIÐ þið að þið myndum fórna lífi og limum fyrir þessar elskur. Ég veit að það þýðir lítið að segja svona við þunglynda manneskju, en ekki gefast upp. Að halda áfram að reyna, aftur og aftur og aftur, er svo innilega þess virði þegar maður er kominn með svona yndislega litla manneskju sem maður sjálfur bjó til.
Axelma.