Dicykloverinhydroklorid er, að mér finnst, oft notað við ungbarnakveisu heima á Íslandi og ég er svona að velta fyrir mér hvort þetta sé ekki svolítið ofnotað. Víðast erlendis er þetta lyf nefninlega alveg bannað fyrir börn yngri en 6 mánaða, t.d. í Bretlandi og Bandaríkjunum. Ástæðan er að þetta lyf getur haft mjög slæmar aukaverkanir í för með sér og börnum og öldruðum er hættara við þeim en öðrum aldurshópum. Börnum yngri en 6 mánaða og sérstaklega börnum yngri en 7 vikna er enn hættara við að fá aukaverkanir. Vissulega eru aukaverkanirnar frekar sjaldgæfar, en þar sem ungbarnakveisa er ekki hættulegt ástand (vissulega þreytandi, en ekki hættulegt) og hún eldist alltaf af börnum þá eru margir sérsfræðingar á þeirri skoðun að það sé ekki réttlætanlegt að nota þetta lyf fyrir ung börn vegna hættu á þessum alvarlegu aukaverkunum. Framleiðandi mælir ekki með notkun lyfsins vegna ungbarnakveisu og meðferðin er því alfarið á ábyrgð læknisins sem ávísar lyfinu í slíkum tilgangi.
Aukaverkanir af þessu lyfi eru m.a. þurrkur, þreyta, sljóleiki, uppköst, krampar, flogaköst, yfirlið, hjartsláttaróreglur, öndunarerfiðleikar, öndunarstopp, dá og jafnvel dauði.
Mig langar líka til að forvitnast um hvort foreldrar sem hafa fengið þetta lyf fyrir börnin sín hafi fengið góðar upplýsingar um þessar aukaverkanir og hversu mikilvægt það er að fylgja nákvæmlega réttum skammtastærðum og alls ekki gefa barninu meira en læknirinn mælir með.
Ég geri mér fulla grein fyrir að ungbarnakveisa getur verið rosalega erfitt ástand og mér finnst persónulega réttlætanlegt að nota þetta lyf í langverstu tilfellunum þegar búið er að reyna allt annað og foreldrar og barn eru gjörsamlega að fríka út (ef svo má segja). Það er mjög mikilvægt að búið sé að útiloka aðra kvilla en ungbarnakveisu. barn getur sýnt svipuð einkenni ef það er með eyrnabólgu, þvagfærasýkingu, bakflæði o.fl. Eins finnst mér rosalega mikilvægt að búið sé að reyna öll önnur ráð áður en gripið er til þess að nota Dicykloverinhydroklorid.
Eru íslenskir læknar aðeins of duglegir að ávísa þessu lyfi, eða hvað?
Kveðja,