Ég hef sögu að segja. Hún er ekki merkilegri en sögur annarra, allir hafa jú eitthvað, en í minni er vonandi eitthvað sem getur hjálpað þeim sem eru í svipaðri stöðu eða eru aðstandendur einhverra sem hafa svipaðar sögur að segja. Það fór margt úrskeiðis hjá mér og öðrum á því tímabili sem sagan mín nær yfir og vonandi getur einhver lært af minni reynslu.
Sagan mín hefst um vor fyrir tæpum fjórum og hálfu ári síðan. Ég og besti vinur minn ákváðum að láta reyna á að vera saman og það gekk svona líka rosalega vel. Ég varð ólétt, nær samstundis og okkur fannst við hreinlega hafa himin höndum gripið. Vorið og sumarið liðu í dásamlegri sæluvímu og við biðum spennt komu barnsins sem ég var þegar farin að elska óstjórnlega mikið. Í byrjun september, þegar meðgangan var u.þ.b. hálfnuð, fékk ég flensu og hafði litla matarlyst í smá tíma. Á þessum tíma hætti ég að finna hreyfingar í litlu kúlunni minni og léttist um nokkur kíló, einmitt þegar ég átti að vera að byrja að þyngjast.
Ég fór til læknis í ómskoðun. Hann sagði mér að hann fyndi engan hjartslátt, höfuðið væri fallið saman og allt útlit fyrir að barnið væri búið að vera dáið í einhvern tíma. Hann sagði mér að hann þyrfti að senda mig í sónar á Landspítalann til að fá second opinion, en það væri bara formsatriði, hann vissi alveg hvað hann væri að segja. Ég fékk tíma á spítalanum morguninn eftir, fór heim með lífið mitt í þúsund molum og hafði enga hugmynd um hvað ég ætti að gera. Ég man að ég fór í langt bað um kvöldið með litlu kúlunni minni og kvaddi. Ég man líka hvað það var óraunveruleg tilfinning að barnið sem væri inni í mér væri hreinlega dáið. Ég átti bara erfitt með að trúa því.
Morguninn eftir fór ég í sónarinn með kærastanum mínum. Mamma fylgdi okkur og fyrir utan sónarinn hékk plakat frá Tóbaksvarnarnefnd þar sem stóð að reykingar á meðgöngu (ég hafði reykt á meðgöngunni) gætu valdið fósturláti. Mamma gerði sér lítið fyrir og kippti þessu niður af veggnum. Þegar við vorum búin að fá staðfestingu á því að barnið væri dáið og við vorum á leiðinni út sagði hún einhverri konu sem fylgdi okkur fram að hún hefði tekið þetta niður. Konan sagði (fyrir framan mig sem hafði verið að missa barnið mitt, 18 ára gömul) að þetta héngi þarna af því að þetta væri alveg satt. Mamma sagði að það væri aukaatriði, þar sem svona hlutir ala á sjálfsásökunum sem fólk í minni stöðu þarf ekki á að halda og á einmitt að reyna að forðast. Konan reif aðeins meiri kjaft og hengdi rammann aftur upp. Ég dró mömmu út, hafði ekki orku í að standa í þessu. Var samt þakklát.
Ég var lögð inn í hádeginu, fékk dripp til að koma fæðingunni af stað og svo kom eitthvað fólk og útskýrði fyrir okkur hvernig dagurinn myndi ganga fyrir sig. Okkur var sagt að við þyrftum að ákveða hvort við vildum fá að sjá barnið eða ekki og ef við vildum það yrðum við að vera undir það búin að það væri illa farið. Ég var hrædd um að mér myndi hreinlega bjóða við líkinu af mínu eigin barni og myndi hafa samviskubit yfir því alla mína ævi. En eftir smáumhugsun áttaði ég mig á því að líkurnar á því að ég myndi sjá eftir því að hafa séð það væru hverfandi miðað við líkurnar á því að ég myndi sjá eftir því að hafa ekki fengið að sjá það. Dagurinn er meira og minna í móðu. Ég man einstaka atburði eins og þeir hafi gerst í gær en aðra man ég alls ekki.
Á einhverjum punkti var mér boðið að tala við prest. Ég afþakkaði það, án þess að gefa upp ástæðuna sem var í raun og veru einfaldlega sú að hann var prestur. Mér var samt sagt að hann þyrfti ekkert endilega að tala um guð, ég hugsaði að það skipti engu máli hvort hann talaði um guð eða sorgarviðbrögð eða skíði, þegar allt kæmi til alls værum við ósammála um það hvort barnið mitt væri lifandi eða ekki. Ég hélt líka að mér yrði boðin áfallahjálp eða viðtal við sálfræðing, félagsráðgjafa, geðlækni eða einhvern annan en prest, en nei. Það er kannski ekki nógu mikið af þeim á Landspítalanum. Eða þá að það var talið vera algjör óþarfi, ég væri nú einu sinni bara krakki að missa fóstur.
Þarna á spítalanum, á meðan við biðum eftir fæðingunni, var okkur líka gert að taka ákvörðun um það hvað við vildum gera við líkið. Okkur var sagt að þau væru venjulega krufin og brennd og askan grafin í sérstökum duftreit í Fossvogskirkjugarði. (Ég er nú reyndar farin að halda að öskunni sé dreift þar, ég hef aldrei séð ummerki um að það hafi verið grafið í hann, upplýsingar um það eru vel þegnar.) Okkur var reyndar líka sagt að reitnum væri skipt niður í tímabil, það er hreinasta bull. Okkur var ekki sagt hvernig það yrði að koma heim, reyna að sofa, fara aftur í skólann, segja frá þessu, borða, gráta, syrgja, græða, minnast, halda áfram. Enginn nefndi nokkuð slíkt.
Ég man nánast ekkert eftir fæðingunni. Ég man að þau fóru beint með hann fram og komu svo með hann aftur, fallega vafinn í hvítt lín. Ég fékk líka myndir af honum og lítið spjald með hand- og fótsporinu hans. Ég hélt á honum í fanginu. Lengi að því að mér skilst, mér finnst það varla hafa verið mínúta. Svo þurfti ég að skila honum og ég gleymi því aldrei aldrei hvernig mér leið þegar ég horfði á eftir einhverri konu sem tók við honum labba með hann úr lífi mínu. Mig langaði svo að öskra á hana, mig langaði svo að banna henni að fara með hann, eða grátbiðja hana að leyfa mér að hafa hann aðeins lengur. Ég gat ekkert nema grátið. Svo var mér sagt að dánarorsökin hefði verið slys, hann hefði snúið sér í hringi þangað til hann var búinn að stífla naflastrenginn og gat því ekki fengið neina næringu. Hann hafði ekki stækkað í tvær vikur.
Ég man ekki eftir frekari samskiptum við starfsfólk deildarinnar meðan ég lá þar. Einhver læknir kom morguninn eftir og útskrifaði mig. Ég fór inn á vaktina til að láta vita að ég væri að fara. Engin þeirra a.m.k. 5 starfskvenna sem þar stóðu óskaði mér svo mikið sem góðs gengis eða brosti. Ein þeirra leit við og sagði „já, bless“ og þar með var það búið. Má ég minna á það að ég var átján ára.
Eftir heimkomuna varð ég vör við skrítna verki í fótleggjunum. Þeir voru líkir krampakenndum harðsperrum, en voru þó greinilega eitthvað annað. Ég var að sjálfsögðu mjög máttfarin, bæði á sál og líkama, en þetta með fótleggina skildi ég aldrei. Ég nærðist ekki og svaf ekki, bara grét nokkuð viðstöðulaust. Áður en ég áttaði mig sjálf á því hvað var að mér í fótunum, fór ég til læknis á Landspítalanum. Hann skoðaði legið til að athuga hvort eitthvað hefði orðið eftir af fylgjunni sem væri hugsanlega farið að valda sýkingu. Hann fann næstum því ekkert en sendi mig þó í útskröpun til öryggis. Mín tilfinning er reyndar sú að hann hafi ekki haft nokkra trú á því að eitthvað væri að mér og hafi bara viljað friða mig. Svo að viku eftir að ég fæddi barnið mitt, var ég send í þessa aðgerð, með svæfingu og öllu tilheyrandi. Á meðan ég lá inni kom ungur læknir til mín. Hún ræddi við mig hvernig mér liði (sem orsakaðist reyndar af því að pabbi minn sleppti sér við starfsfólkið og neyddi það til að láta einhvern tala við mig) og ýjaði í lok samtals okkar að því að ég ætti nú kannski bara að læra af reynslunni, eða að fósturlátið hefði átt að sýna mér að þetta væri ekki rétti tíminn til að eignast börn (lesist: Þú ert of ung og ekki búin að mennta þig). Þessum orðum gleymi ég seint.
Ekkert lagaðist í fótleggjunum eftir aðgerðina, en svo fór ég að rekast á það að konur sem ég þekkti könnuðust við verkina sem ég var að lýsa sem túrverki, en þeir voru aðallega í innan verðum lærunum og urðu stundum svo miklir að ég kiknaði í hnjánum og datt niður. Þá setti ég verkina sjálf í samband við samdrætti í leginu og þar með samdráttarlyf sem ég hafði verið sett á, hætti á þeim og steinhætti að finna til í fótunum. Það er að sjálfsögðu alþekkt fyrirbæri meðal lækna að samdráttarverkir geta komið fram hvar sem er í líkamanum. En ég hafði það á tilfinningunni, sama við hvern ég talaði á spítalanum, að enginn hefði nokkra trú á því að verkirnir tengdust fæðingunni og mér fannst oft vera gefið í skyn við mig að ég ætti bara að drífa mig heim og sjá hvort þetta liði ekki bara hjá.
Ég varð kannski of fljótt ólétt aftur, en kannski var það líka það eina sem gat rifið mig upp úr þunglyndinu. Eitt barn kemur ekki í staðinn fyrir annað og við hættum aldrei að syrgja barnið okkar. En það, að komast að því að við ættum von á öðru barni, sem gerðist um 3 mánuðum eftir fæðinguna, ýtti okkur af stað aftur og við (eða allavega ég) þurftum svo sannarlega á því að halda.
Það tók mig langan tíma að jafna mig. Ég missti fimmtán kíló, þjáðist af mikilli kvíðaröskun og leið almennt ömurlega. Að mörgu leyti vil ég kenna heilbrigðisstéttinni um það hversu mikið áfallið var. Ég fékk engan stuðning frá starfsfólki deildarinnar. Engan! Það þarf enginn að segja mér að heilbrigðismálum hér á landi sé ekki verulega ábótavant, og það er von mín að einhver sem er núna í sporum starfsfólksins á þessari deild fyrir fjórum árum, lesi þessa sögu og læri af mistökum annarra.