Ég er Akureyringur og aldist upp við Öskudaginn sem eina af mestu karnivalhátíðum ársins. Í dag er ég hins vegar límdur við tölvuskjá í Hafnarfirði og hneykslan mín er óendanleg í dag, Öskudag.
Hingað kemur hver hópurinn á fætur öðrum og biður um að fá að syngja fyrir nammi. Gott og vel. Þetta gerði ég líka sem barn en nú er reginmunur á. Það lá allavegana svolítil vinna á bak við það sem við vorum að gera. Það voru a.m.k 10-20 söngæfingar þar sem við lærðum lög og texta. Lög eins og Hafið bláa, hafið, Nú er frost á fróni og fleiri falleg íslensk lög sem foreldrar mínir og þeirra sem voru með mér í öskudagsliðum kenndu okkur. Það var líka alltaf metnaður fyrir því að liðið “væri eitthvað.” Það var náttúrlega mjög vinsælt að vera kúrekar og indjánar, bófagengi, eða konungshirð. Búningarnir voru aldrei dýrir eða íburðarmiklir, búnir til úr allskyns dóti og stundum var mamma dugleg og saumaði nýjan búning. Þetta var sannkölluð hátíð.
Krakkarnir sem hafa komið hingað í dag eru ekki í búningum og kunna hvorki lög né texta. Call me old fashion en þetta er dæmi um hnignun íslenskrar menningar hér fyrir sunnan. Vilji fólk hér fyrir sunnan taka þennan norðlenska sið upp verðum við foreldrar að sjá sóma okkar í því að hjálpa börnunum okkar til þess að læra þetta og gera þetta þannig að sómi sé að. Annars breytist þessi skemmtilega hátíð í frekjulegt betl.