Fannst ég verða að setja þetta einhversstaðar, veit ekki hvað ykkur finnst um að velja þennan stað, en þetta er allavega tilbreyting frá greinum um börn með gemsa eða í g-strengjum og vonda pabba eða stjúpforeldra ;)
1. Á hverjum degi, stundum oft á dag, er ég orðlaus af undrun og yfirkomin af gleði yfir því að ég skuli fá að vera móðir. Á hverjum degi hellist yfir mig þakklæti til náttúrunnar fyrir að hafa veitt mér þessi forréttindi. Allt frá því augnabliki sem ég fékk staðfestingu á því að ég væri ófrísk. Ég gekk út af stofu læknisins míns með fiðring í lífinu sem hafði kviknað í mér. Það er erfitt að koma orðum að því sem ég fann. Það var einhver óhrekjanleg vissa um að ég bæri eitthvað innra með mér sem enginn gæti snert, enginn fengi að deila með mér. Ekki ósvipað því að eiga sér leyndarmál, bara svo miklu sterkara. Í dag er liðið eitt ár og fjórir mánuðir síðan litli líflausi líkaminn þinn yfirgaf bústaðinn sinn og var færður í fang grátandi móður sinnar. Elsku litla barnið mitt. Sá dagur var líklega sá allra versti í lífi mínu. Samt mun ég alltaf varðveita minninguna um hann. Hann verður alltaf dagurinn sem ég fékk að sjá þig með mínum eigin augum, halda á þér í fanginu og snerta þig með fingurgómunum. Hann verður líka alltaf sá dagur sem ég myndi vilja upplifa aftur ef ég fengi tækifæri til. Mamma spurði mig einu sinni hvort ég hugsaði oft um þig. Ég geri það ekki. Það er sjaldan sem ég sest niður í einrúmi, hugsa um þig, rifja allt upp, skrifa til þín og græt. Ég finn sjaldan fyrir þörf fyrir það núorðið. En ég hugsa til þín. Á hverjum degi hugsa ég til þín og brosi við minningunni og óska þess eins að tíminn þinn hér hefi verið eins ánægjulegur og hægt var. Að þér hafi liðið vel þessa fáu mánuði sem þú fékkst að lifa í líkama mínum.
2. Elsku litla barn. Það eru brátt liðin þrjú ár síðan ég fékk að halda á litla líflausa líkamanum þínum í fanginu. Þrjú heil ár. Ég vildi að þú vissir að það líður ekki sú vika eða jafnvel sá dagur að ég rifji ekki upp þá stund. Stundina sem var svo stutt en rúmaði samt allan heimsins sársauka. Það er fyrst núna sem ég finn í alvöru fyrir því að hún rúmaði ekki bara allan sársauka heimsins – heldur líka alla gleðina. Ég mun aldrei sætta mig við að þú skulir ekki hafa fengið að lifa, eins og þú áttir skilið, en eins eigingjarnt og það kann að virðast –og er kannski- þá er ég innst inni glöð yfir því að þetta skyldi allt gerast. Einkennilega glöð. Ef þú hefðir aldrei orðið til, þá hefði ég heldur aldrei fengið að elska þig og halda á þér og án þess væri ég svo miklu miklu fátækari. Minningin um litlu stundina okkar saman, angurværustu stund heimsins, er allt sem skiptir máli héðan af. Enginn getur tekið hana frá mér. Hún er það eina sem ég á eftir af þér og hún er mér dýrmætari en nokkur orð fá lýst. Sofðu rótt elsku litli drengurinn minn. Þín mamma.