Gríptu karfann!
Barnsfæðing
Alls staðar þar sem fjallað er um fæðingu barns er hún útmáluð sem yndislegur hlutur og talað um hversu falleg hún sé og þar fram eftir götunum. Ég varð þess heiðurs og ánægju aðnjótandi að verða faðir fyrr á þessu ári. Ég held að ég geti með fullri vissu sagt að ekkert hefur glatt mig meira enda var ég búinn að bíða þessarar stundar síðan ég hélt fyrst á ungabarni 13-14 ára gamall. Ég elska son minn meira en orð fá lýst en fæðing hans er eitthvað það versta sem ég hef upplifað. Konan mín lá þarna og kvaldist og rembdist í fleiri klukkutíma en ekkert gerðist. Á endanum áttaði læknirinn sig á því að barnið var lítið eitt skakkt og eðlileg fæðing því ómöguleg og keisaraskurður var niðurstaðan. Það að þurfa að horfa upp á einhvern sem maður elskar kveljast svona verður aldrei fallegt í mínum augum. Það að hafa barn inn á heimilinu og í lífi sínu almennt er frábært en fæðingin sjálf er í mínum huga hræðileg.