Hvað finnst ykkur um þetta?

2 1/2 árs og 11 mánaða gömul börn Svanhildar Jensen, 23 ára einstæðrar móður frá Kvænangen í Noregi, voru tekin af henni vegna þess að hún var talin vera með of lága greindarvísitölu til að geta sinnt þeim almennilega. Svanhild var talin vera vægt þroskaskert í framhaldi af þessu greindarvísitöluprófi Í greinargerð barnaverndarnefndar kom fram að þau sáu ekkert að aðbúnaði barnanna eins og hann var, en höfðu áhyggjur af að móðirin gæti ekki hjálpað þeim með lærdóminn í framtíðinni og að lág greindarvísitala hennar myndi virka þroskahemjandi á börnin. Á þessum forsendum voru börnin tekin af móður sinni og komið fyrir á fósturheimili.

Barnaverndarnefnd hefur verið gagnrýnd harkalega fyrir hvernig staðið var að mati í máli Svabhildar og sérstaklega fyrir hvernig staðið var að fyrra greindarvísitöluprófinu.Þegar Svanhild tók það próf var hún kasólétt og veik, auk þess sem hún var með eldra barnið sitt með sér. Einnig var henni ekki gert grein fyrir hversu mikilvægt þetta próf væri varðandi mat á henni sem móður. Svanhild er nú búin að taka nýtt greindarvísitölupróf sem sýnir að hún hafi fullkomlega eðlilega greindarvísitölu og ekkert bendir til að hún sé þroskaskert. Einnig hefur verið gert sálfræðimat á henni sem segir að Svanhild hafi góða umönnunarhæfileika og sé fullfær um að sinna börnum sínum.

Svanhild ætlar að berjast áfram fyrir því að fá börnin sín aftur og kommúnan í heimabyggð hennar stendur með henni í þessu máli. Allir sem þekkja til Svanhild segja að hún sé vel fær um að ala upp börn sín og finnst ótrúlegt að svona skuli vera hægt í nútímaþjóðfélagi. Svanhild bíður nú eftir að áfrýjun hennar verði tekin upp.

Ég er svo yfir mig hneyksluð á að svona skuli geta viðgengist í dag. Þessi kona hefur ekki misþyrmt börnunum sínum og ekki voru þau vanhirt. Barnaverndarnefnd viðurkennir meira að segja að þau hafi ekkert séð að aðbúnaði barnanna hjá Svanhild. Að börn skuli vera tekin af móður á þeim forsendum að hún geti kannski ekki hjálpað þeim með lærdóminn í framtíðinni finnst mér alveg út í hött. Hversu margir foreldrar ætli geti ekki eða hafi ekki tíma í að sinna heimalærdómi barna sinna? Og burtséð frá því, hefði ekki verið nær að útnefna einhvern aðila til að fylgjast með Svanhild og börnum hennar og þá ef þörf þætti að aðstoða börnin með heimalærdóminn í framtíðinni?

Auk þess finnst mér bæði fáránlegt að byggja eitthvað mat á tölum úr greindarvísitöluprófi, frekar væri nær að skoða aðstæður og fylgjast með hvort móðirin er fær um að sinna börnum sínum.
Kveðja,