Það sem börnin sjá.... Ég á alveg einstakan son.
Hann er 9 ára heimspekingur og hugsjónamaður.
Hann getur endalaust komið mér á óvart með hugmyndum sínum og athugasemdum um heima og geima og getur jafnvel komið mér í klípu með erfiðum siðferðislegum spurningum eins og þegar hann spurði mig fyrir 2 árum hvað ég myndi gera ef það væri brjálað veður úti og betlari myndi banka upp á og biðja um húsaskjól, hvort ég myndi nú ekki auðvitað leifa honum að gista !
Því á sama tíma og ég vill kenna honum að maður eigi auðvitað að hjálpa fólki og vera góður í hvert sinn sem mður getur, þá vil ég ekki að hann lendi í klípu í sakleysi sínu og vill því kenna honum að maður getur ekki treyst ókunnugum, því maður viti ekki fyrirfram hvort þeir eru góðir eða vondir.


Eitt af því sem mér finnst frábærast við hann er hvernig hann sér fólk.
Hann horfir á andlit fólks og sér eitthvað þar sem við fullorðna fólkið sjáum ekki.
Allavegana ekki fyrr en hann bendir okkur á það.

Ég hef 3 dæmi um þetta sem sem mér finnst alveg einstök því fyrst þegar hann sagði þetta allt þá bara gat ég ekki verið meira ósammála, en aðeins nokkrum sekúndum seinna þá sá ég hvað hann átti við og hreinlega gapti.

Fyrsta dæmið kom upp þegar við vorum að horfa á myndina LOTR –Two towers og stúlkan sem leikur prinsessuna, þessa ljóshærðu sem er hrifin af Aragon birtist á skjáinn, þá hrópaði hann upp yfir sig… “Hún er alveg eins og Edda frænka”.
Nú er Edda frænka ekki þessi dæmigerða fegurðardís heldur er hún er svona þybbin skvetta. En þegar sonur minn var búinn að segja þetta þá sá ég Eddu fyrir mér og ég gat svo svarið fyrir það að þær hefðu getað verið systur. Augun, munnurinn, hárið….
Þetta var með ólíkindum.

Svo hefur þetta endurtekið sig nokkrum sinnum.
Einhverntíman spurði hann mig hvort þetta væri ekki George Cloney í sjónvarpinu en það var þá leikarinn sem leikur í Chicago Hope og í þættinu með talandi barnið á Skjá 1.
(Þessi sem er eins og George Cloney bara feitari, minni, og ekki jafn fallegur )
Mér fannst þetta fáránlegt til að byrja með að rugla þeim saman, en eftir smá umhugsun þá var það kanski ekkert svo fáránlegt – þeir eru báðir svona ítalalegir, með vingjarnlegt bros og dökk augu og svo auðvitað kallar á sama aldri. Þeir gætu alveg verið bræður.

Síðasta dæmið fannst mér samt frábærast.
Það var bara núna síðasta föstudag. Við vorum að horfa á American Idol og þar er ein keppandinn, Kimberly, svört, lítil og þybbin en rosalega sæt.
Og hann sagði allt í einu : Hei hún er alveg eins og Lana í Súpermanþáttunum (sem er meira svona asísk í útliti, lítil og nett og algjör dúlla)
Og ég bara sá það strax… mér hafði alls ekki dottið það í hug fyrr en eftir að hann sagði það þá bara finnst mér þær renna saman í eitt. Ef þær væru jafn þungar þá væru þær rosalega líkar.

Hann semsagt sér og dæmir innfyrir það sem við hin erum vön að taka eftir og dæma.
Hann gerir ekki greinarmun á því að einhver sé hallærislegur og þybbinn eða töff og grannur. Hann sér fólkið eins þrátt fyrir þetta yfirborð, sem við fullorðna fólkið höfum vanið okkur á að stoppa við, og gleymum að kíkja lengra inn….

Ég hugsa að við fullorðna fólkið mættum stundum taka börnin okkur til fyrirmyndar og reyna að sjá heiminn með þeirra augum.