Margir hafa þá skoðun að unglingar séu kærulaus hópur fólks sem gerir sér ekki grein fyrir því að þeirra bíður framtíð sem felur í sér mikið erfiðara líf. En er þetta rétt? Auðvitað hef ég enga reynslu af því að vera fullorðin, þar sem ég er aðeins 17 ára, en ég veit hvað það er að vera unglingur. Að vísu erum við flest laus við að þurfa að hugsa um rafmagns- eða hitaveitureikninga, og ekki þurfum við að versla inn matinn fyrir fjölskylduna, að minnsta kosti ekki við sem búum enn heima hjá mömmu og pabba.
En það er margt annað sem flækir tilveru okkar.
Menntun er lykillinn að góðri framtíð, og það gerir okkur að mikilvægum persónum í þjóðfélaginu þar sem við erum flest námsmenn. Fólk talar líka um það hversu mikilvægt félagslíf okkar er, þar sem í framtíðinni verðum við líklega bundin við fjölskyldu og heimili. Auk þess sem við erum bara ung einu sinni. En allt kostar þetta pening. Við erum talin nógu gömul til að bjarga okkur í þeim málum, enda færu foreldrar okkar fljótlega á hausinn ef þau þyrftu að borga allar skemmtanir og allt sem við tökum okkur fyrir hendur. En til að þetta gangi upp, að við getum skemmt okkur án þess að foreldrar okkar þurfi að hafa áhyggjur af peningaútlátum, þurfum við vinnu, og þar er stærsta vandamálið. Flestir vinnuveitendur taka ekki fólk í vinnu sem er yngra en 18 ára, fyrir utan það að það er erfitt að vera í skóla og þurfa svo að vinna líka. Margir geta fengið vinnu út á klíkuskap, en við hin sem þekkjum engan sem getur reddað okkur ágætis vinnu, verðum að reyna að bjarga okkur sjálf En hvað er eftir handa okkur? Það eru eingöngu leiðinlegustu og verst borguðu störfin. Svo er það auðvitað líka bæjar- eða unglingavinnan, þar sem bæjarfélagið skaffar vinnu fyrir unglingana. En út á hvað gengur þessi vinna? Jú, það get ég sagt ykkur, hún gengur út á það að slá gras, liggja tímunum saman í blómabeðum að tína arfa, tína rusl og gróðursetja til að fegra bæinn. Auðvitað þarf að gera þetta, og ég myndi sætta mig við það ef launin væru ágæt, sem þau eru ekki. Að vísu held ég að bæjarvinnan sem er fyrir unglinga sem eru búnir með grunnskóla borgi sæmilega, en unglungavinnan borgar ömurlega. Tökum sem dæmi krakka sem voru að klára 8. bekk. Í mínum bæ fá þau ekki að vinna nema 4-6 vikur, og fá eitthvað á milli 25-30 þúsund fyrir sem á kanski að duga þeim allan veturinn. Kanski finnst mörgum að þessir krakkar hafi ekkert við meiri pening að gera, en það finnst mér ekki. Það er álíka nauðsynlegt fyrir þessa krakka að skemmta sér eins og að vera í skóla, þau eru að stíga sín fyrstu spor í skemmtanalífinu og árshátíð skólanna er ein stærsta upplifun margra. Margar kvikmyndir eru gerðar til að laða að þennan tiltekna aldurshóp, og tónleikar og annað heillar alveg ótrúlega. Auk þess gera unglingar miklar kröfur til útlits, og þeir sem til dæmis ganga ekki í réttu fötunum, falla hvergi inn í hópinn.
En eins og ég sagði áðan, er ég 17 ára. Ég geng í skóla þar sem borga þarf skólagjöld auk bóka fyrir hverja önn. Fyrir utan það er ég að taka bílpróf, sem kostar um 100.000kr, og auðvitað reyni ég að skemmta mér líka með vinum mínum og sinna mínum áhugamálum. Til þess að þetta gangi allt upp, verð ég að vinna með skólanum. Því miður er ég ekki í sérlega góðri vinnu, og það kemur fyrir að hún bitnar á heimanáminu. Og þar sem ég er stundum lengi í skólanum, get ég ekki unnið mjög oft, og telst heppin ef ég fæ 5000kr útborgað á mánuðu á veturna. Þetta nægir engan vegin fyrir helmingnum af því sem mig langar til að gera. En maður verður alltaf að fórna enhverju ekki satt?
En margir hafa alls enga vinnu, jafnvel ekki yfir sumarið, og hvernig fara þeir að? Margir taka uppá því að hætta í skóla og freista þess að fá frekar vinnu þá, en þeir fá þess vegna aldrei vel borgaða vinnu.
Þegar kemur að prófum í skólunum, kemur stressið upp. Krakkar fara að hugsa um það afhverju þau fylgdust ekki betur með í tímum á önninni og að þau muni aldrei ná prófunum. En það er ekki auðvelt að halda athyglinni við alla önnina, hvað þá ef maður lendir á leiðinlegum kennurum. Þess vegna er mikilvægt að lesa vel fyrir öll prófin, og það er ekki svo einfalt, sérstaklega ekki á vorönn. Það er ömurlegt að þurfa að sitja inni allan daginn og lesa einhverjar ömurlegar skólabækur, þegar sólin skín inn um gluggann. Daginn eftir mætir maður í próf, og finnst maður vel undirbúinn, en falla þá á prófinu með 4 en þurfa ekki nema 4,5.
Það síðasta sem mig langar að segja frá, og ég vona að þið séuð ekki orðin dauðþreytt á þessu rugli í mér, er framtíðin. Flest eigum við okkur stóra drauma um þessa framtíð sem bíður okkar. Við ætlum okkur að fá vel launuð störf, eins og að verða læknar eð a lögfræðingar, verða rík og stöfna fjölskyldu. Einnig ætlast fjölskylda og vinir til mikils af okkur og okkur dauðlangar að standast undir væntingum, en innst inni erum við dauðhrædd um að þetta takist ekki hjá okkur. Við erum hrædd um að geta ekki klárað skólann, fá í kjölfarið enga vinnu og geta ekki borgað það sem við þurfum að borga, hvað þá gert eitthvað sem okkur langar til.
Oft gera foreldrar ósjálfrátt meiri kröfur til elsta barnsins heldur en þeirra yngri. Það gerir það að verkim að þetta elsta barn verður jafnvel enn hræddara við að standast kröfur lífsins. Auk þess sem þau yngri hafa fyrirmynd og geta hugsað til dæmis ,,Stóra systir gat það svo ég get það líka” þetta hafa þau eldri ekki.

Ég vona að ykkur finnist þetta ekki alltof mikið bull. Kanski er ég bara sértök, en þetta er einfaldlega það sem mér finnst.
Kveðja,