Vísir, Fös. 12. jan. 13:54
Dæmd fyrir að myrða átta ára stúlku
Kona og sambýlismaður hennar hafa verið dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir óhugnanlegt morð á átta ára stúlku sem dvaldi hjá þeim. Málið er sagt vera eitt versta tilfelli barnamisþyrmingar í breskri réttarsögu.

Stúlkan lést af vannæringu og áverkum sem hún hafði hlotið vegna langvinna misþyrminga. Hún var barin með hjólakeðjum og herðatrjám, bundin niður sólarhringum saman, látin sofa í ísköldu baðkari og ekki gefinn annar matur en það sem fólkið leifði sjálft. Lögregla og félagsmálayfirvöld komust á slóðir um þær misþyrmingar sem stúlkan hafði þurft að þola en náðu þó ekki að bjarga lífi hennar. Hún lést á sjúkrahúsi af völdum vannæringar og áverka sem henni höfðu verið veittir. Í lokin er sagt að stúlkan hafi gengið bogin í baki eins og gömul kona langþjáð af vannæringu og misþyrmingum. Lögregla leitar nú upplýsinga um tvö börn, dreng og stúlku, sem talið er að konan hafi tekið í fóstur.

Konan sem var dæmd er frænka stúlkunnar. Fátækir foreldrar stúlkunnar sem búa á Fílabeinsströndinni höfðu fengið konuna til að taka frænku sína í fóstur í von um að það yrði til að bæta möguleika hennar til frekari menntunar og betra lífs. Sambýlismaður konunnar viðurkenndi að hafa barið stúlkuna og sagði, “þú gast barið hana og hún grét ekkert. Hún gat tekið öllum barsmíðum og ekki látið bera á sársauka”.