Halló.
Ég hef aldrei skrifað grein inná þessu áhugamáli fyrr því ég á engin börn sjálf en mér er eiginlega nóg boðið.

Þannig er mál með vexti að ég var að vinna á vídeóleigu hér í bæ og mér sýnist á öllu að fólki sé nákvæmlega sama hvað börnin þeirra eru að horfa á. Ég veit ekki hvað oft ég hringdi í foreldra kannski 9-10 ára barna sem komu inn og vildu taka spólur sem voru bannaðar innan sextán ára. Og ég er ekkert að tala um eitthvað léttmeti heldur eitthvað sem ég myndi ekki þora að horfa á.
Foreldrarnir sögðu já leyfðu þeim bara að taka þetta. Ekkert mál, skiptir engu!
Mér finnst þetta bara sálarskemmandi fyrir börnin! Enda sá maður þessi sömu börn á flækingi alla daga útí sjoppu með lykla um hálsinn og einhverja hundraðkalla til að kaupa sér mat. Oft voru þessi börn að koma inn dag eftir dag að kaupa sér samlokur og annað í kvöldmatinn frekar en að það væri eldað heima hjá þeim. Og ég sá líka þessi sömu börn, nokkrum árum eldri, sem voru byrjuð að drekka 12-13 ára og farin að vinna skemmdarverk og annað.
Hvernig í ósköpunum dettur fólki í hug að fara svona með börnin sín? Hvað varð um það að reyna að halda heimili fyrir þau og reyna að gera þau að ábyrgum, sjálfstæðum og góðum einstaklingum?

Stundum finnst mér eins og það ætti að halda námskeið fyrir fólk sem það yrði að standast áður en það gæti átt börn. Þetta þjóðfélag er að fara til fjandans af því fólk getur ekki alið börnin sín almennilega upp lengur. Þau fá bara að gera nákvæmlega það sem þau vilja og hafa engan aga. Ég er ekki að segja að maður eigi alltaf að vera með vöndinn á lofti. Ég er bara að tala um að fólk ali börnin sín upp og sé ekki að skemma sakleysi þeirra með ofbeldismyndum og klámvæðingu!!! Er ég að biðja um of mikið?
Kv Cat Lady
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.