Sonur minn er nú rúmlega tveggja og hálfs árs gamall. Ég varð ólétt áður en tækifæri gafst til að gera mér grein fyrir því hvort ég ætti einhverja framtíð með barnsföður mínum eða ekki. Eftir vandlega íhugun var það sameiginleg niðurstaða okkar að í fyrsta lagi treystum við okkur fullkomlega, hvernig sem sambandið okkar færi, til að vera foreldrar saman alla ævi, og í öðru lagi fannst mér fóstureyðing ekki koma til greina á meðan ég vissi sjálf að ég hafði upp á eitthvað að bjóða fyrir barn og var í aðstöðu til að eignast það og ala það upp. Þess vegna ættum við einfaldlega að taka ábyrgð á eigin kæruleysi.
En svo urðum við bara mjög ástfangin og sambandið gekk vel. Meðgangan gekk því miður ekki eins vel því barnið dó eftir u.þ.b. hálfa meðgöngu eða 19 vikur. Í kjölfarið fylgdi slíkt þunglyndi að fyrstu tvo mánuðina eftir fæðinguna missti ég 15 kíló. Við stóðum þó saman í þessu öllu og mér fannst a.m.k. þá að áfallið hefði styrkt sambandið okkar. Þótt við gerðum okkur fulla grein fyrir því að eitt barn getur aldrei komið í staðinn fyrir annað, þá varð ég fljótt ófrísk aftur, í þetta skiptið í gegnum töluvert meðvitaðra kæruleysi. Við tók tími sem var að mestu leyti dásamlegur en þegar ég lít til baka finnst mér það hafa verið um þetta leyti sem fóru að koma brestir í sambandið. Kynlífið fór versnandi, hann hreinlega missti áhugann. Það olli honum a.m.k. jafnmiklu hugarangri og mér og við náðum okkur í öllu falli aldrei á strik hvað það varðaði.
Á þessum tíma, þegar ég var nýorðin ófrísk í seinna skiptið, hugsa ég að hafi farið að koma upp ágreiningsefni sem héldu áfram út allt sambandið okkar. Ágreiningsefnin okkar voru í sjálfu sér ekkert mjög alvarleg, snerust ekki um grundvallarreglur uppeldisins eða að annað okkar beitti hitt ofbeldi, heldur voru þetta allt almennir hlutir sem vörðuðu kröfur okkar hvors til annars og þarfir okkar í sambandinu. Sem dæmi má nefna að ég þarf mikið á því að halda að heyra og finna að ég sé elskuð og að ég sé falleg og að hann njóti þess að vera með mér. Þetta gat hann ekki uppfyllt. Ég hafði líka fullt af göllum sem pirruðu hann og þannig var það að þegar við rifumst, sem gerðist ca. jafnoft og við sváfum saman (kannski einu sinni í mánuði!) þá rifumst við alltaf um sömu hlutina. Hvorugt okkar var tilbúið til að slaka á kröfunum og þegar barnið var tæplega tveggja ára og við fórum að búa saman utan foreldrahúsa, þá lagði ég mig alla fram við að breyta hlutunum sem pirruðu hann. Það gekk mjög vel hjá mér en því miður fékk ég ekkert í staðinn.
Núna síðastliðið haust fórum við að ræða stöðu sambandsins mjög alvarlega og með tilliti til framtíðarinnar. Niðurstaðan var sú að við myndum aldrei geta eytt lífinu saman. Það var ekkert ósætti eða rifrildi en heldur engin gleði, rómantík eða kynlíf. Og þegar við höfðum ákveðið að eyða ekki lífinu saman, þá var tvennt í stöðunni: 1) að hanga saman þangað til eitthvað kæmi upp á milli okkar eða við hreinlega dræpum hvort annað úr leiðindum eða 2) að hætta strax á meðan við værum enn fær um að gera það í góðu og til þess að koma í veg fyrir að við færum að hætta saman þegar barnið væri komið á viðkvæmari aldur og yrði fyrir áfalli við okkar skilnað. Svo við hættum saman. Barnið eyðir annarri hvorri viku hjá mér og annarri hvorri viku hjá pabba sínum. Hann á tvö heimili þar sem allt er í toppstandi og honum líður vel á báðum stöðum.
Einn daginn í miðri pabbaviku um daginn fékk ég að sækja hann á leikskólann og hafa hann hjá mér eina nótt, ég var farin að sakna hans agalega. Daginn eftir fór hann ekki á leikskólann fyrr en um hádegi og allan þann dag var hann ómögulegur. Hann trylltist af sorg þegar ég ætlaði að kveðja hann og grét allan daginn, m.a.s. í svefni. Einhverja mömmuvikuna fyrir stuttu var mikið að gera hjá mér og mínum manni fannst hann ekki fá næga athygli. Þá tók hann upp á því að neita að borða og sofa, neita að fara á koppinn, pissaði í sig um leið og ég var búin að setja hann í hrein föt, kastaði sér í gólfið á Smáralindinni og öskraði, og svo framvegis. Með öðrum orðum leggur sonur minn ekki í vana sinn að leyna því þegar honum er misboðið.
Samt sem áður eru skyndilega að hellast yfir mig áhyggjur og samviskubit. Mér finnst ég hafa tekið óábyrga ákvörðun um að eignast hann án þess að vera með það á hreinu að ég vildi eyða lífinu með pabba hans. Mér finnst ég skyndilega ekki eins gott foreldri og ég hafði talið sjálfri mér trú um og mér finnst ég hreinlega hafa brugðist skyldu minni sem móðir. Ég fékk tár í augun þegar ég var að kveðja hann á leikskólanum í gærmorgun og hann sagði ,,Hver kemur að sækja mig í dag mamma?" Ég er allt í einu að springa úr samviskubiti yfir rótinu á þessu litla kríli sem þarfnast einskis í heiminum annars en festu, öryggis og ástar. Hvað ef ég er búin að svipta hann örygginu og festunni? Hvernig á ég þá að lifa með sjálfri mér? Ég reyni heilan helling. Ég sýni honum alla mína athygli þegar hann er hjá mér, jafnframt því að sýna honum aga, það líður aldrei sú pabbavika sem ég kíki ekki í heimsókn eða sæki hann á leikskólann og hafi hann í kannski tvo tíma.
En það er alltaf að læðast að mér sú tilfinning að ég sé ekki að gera það sem er barninu fyrir bestu. Að það hafi verið óábyrgt að eignast hann og eigingjarnt að slíta sambandinu við pabba hans. Það var ekki eins og það væri ríkjandi eitthvert óbærilegt ástand á heimilinu sem væri að bitna á barninu. Þetta var bara ákvörðun byggð á þeirri sannfæringu okkar beggja að við gætum verið í samböndum sem uppfylltu kröfur okkar og myndu gera okkur hamingjusamari. Ég veit orðið ekkert hverju ég trúi sjálf og leita því til ykkar um skynsamleg orð og skæting ef þið eruð í þannig skapi ;o)
Takk og bless.