Hafið þið einhvern tímann hlustað á textann “Fram á nótt” með Ný Dönsk, það er ekki erfitt að skilja hvað Björn Jörundur er að segja og að hann þekkir það af eigin reynslu…..
Ég var lagður í einelti öll mín ár í grunnskóla, ég reyndi allt sem ég mér datt í hug til að koma í veg fyrir það, ég barði á móti, ég barði ekki á móti, ég klagaði og að lokum varði ég mig bara með kaldhæðni.
Það virkaði illa fyrir mig að berja á móti, viðbrögð skólans við því voru að senda mig til sálfræðings, þá hætti ég að berja á móti.
Síðustu árin var eineltið mest andlegt, ég man sérstaklega eftir einu sem kom fyrir þegar ég var í fermingarferðalagi og það var sýnt myndband frá kirkjunni um strák sem var lagður í einelti. Í myndinni þá finnur strákurinn miða sem er boð í partý en það er tekið fram að það eigi ekki að láta hann vita af partýinu, þegar þetta atriði kom þá heyrist einhver í salnum segja "þetta er bara eins og Haraldur Óli [ég]“. Ég veit ekki hvað mikinn viljastyrk ég þurfti að nota til þess að falla ekki algerlega saman á staðnum. Í myndinni þá endaði strákurinn á því að fara í messu og varð ofsalega ánægður en ég þurfti að þola þetta í tvö ár í viðbót og satt að segja þá finn ég ennþá fyrir því að fólk er gegn mér.
Kennarar komu ekki að neinu gagni, einn kennari sérstaklega tók þátt í eineltinu og íþróttakennarar náðu líka að hjálpa til við að brjóta niður sjálfsmynd mína.
Fyrir tveimur árum þá hitti ég strák á myndbandaleigu sem kom upp að mér og fór að segja ”hæ mannstu eftir mér, ég var alltaf að leggja þig í einelti" og fór síðan að svívirða mig meira, hvað ætli ég hafi notað mikinnn viljastyrk til þess að ráðast ekki á þann helvítis aumingja, ég var 19 ára þá, ég hef reyndar líka lent í því að hafa verið beðinn afsökunnar á eineltinu.
Ég á langt eftir í það að jafna mig algerlega á þessu, í mörg ár þá tók ég ósjálfrátt og lét hendurnar í varnarstöðu þegar fólk var með snöggar hreyfingar nálægt mér.
Verst þótti mér samt þegar ég komst að því fyrir svona ári að lítill frændi minn varð að hætta í skólanum sínum út af einelti, að vísu er það kannski gott að það var talað um það, það var eitthvað gert í því en inni mér þá langaði mig til þess að fara og lúberja þessa krakka sem höfðu verið að berja hann, mig langaði líka að fara til foreldra þeirra og lesa yfir hausnum á þeim, en ég gerði það ekki, passið börnin ykkar, bæði að þau verði ekki fyrir einelti og líka að þau verði ekki fífl.
Ég persónulega get skilið að einhverjir sem hafi aðgang af vopnum skuli enda með að drepa kvalara sína.