Ég ákvað að skrifa grein um þessi spil þegar ég las greinina hans MesserSchmitt um Risk, því líkt og Risk eru þetta teningaspil sem snúast um að ná heimsyfirráðum.
Það eru til þrjú Axis and Allies spil, Axis and Allies: World, Axis and Allies: Pacific og Axis and Allies: Europe.
Hér ætla ég að fjalla um Axis and Allies: World.
Með spilinu fylgir allt sem þú þarft til að spila: nóg af módelum, tólf teningar og reglubók.
Eins og nafnið gefur til kynna gerist þetta spil á tímum seinni heimstyrjaldarinnar (um vor 1942) þar sem Bandamenn og Möndulveldin berjast um heimsyfirráð. Í liði bandamanna eru þrjár þjóðir, Rússar, Bretar og Bandaríkjamenn. Möndulveldin eru hinsvegar bara tvö, Þýskaland og Japan. Takmark Bandamanna er að ná höfuðborgum Möndulveldanna, og takmark Möndulveldanna er að ná tveimur af þremur höfuðborgum Bandamanna.
Rússar byrja. Þeir eru ekki í mjög álitlegri stöðu í byrjun spilsins. Þýskaland þrýstir á þá frá Evrópu og Japan frá Asíu. Rússland verður að byrja á því að verjast og reyna að hægja á innrás Þjóðverja. Rússland byrjar með lítið herlið og fær ekki mikinn pening þannig að þetta getur reynst frekar erfitt. Það þarf reyndar ekki að halda þetta út mjög lengi vegna þess að brátt koma Bandaríkin og Bretland til hjálpar og þá þarf Þýskaland að fara að einbeita sér að öðrum hlutum.
Næstir í röðinni eru Þjóðverjar. Þeir byrjar í fínustu stöðu, með slatta af pening, mesta herliðið á borðinu og í góðri stöðu í Evrópu. Þeir verða að vera fljótir að ráðast á Rússland og ná sér þannig í massa pening. Þeir þurfa hann því að þrátt fyrir að þeir fái mikinn pening þá nægir hann ekki til að halda út einir á móti Bandamönnum sem einbeita sér sérstaklega að Þýskalandi í byrjun. Auk þess að ráðast á Rússland verða þeir að passa sig á því að vera með góðar varnir gegn Bandaríkjunum og Bretum.
Bretar eru næstir. Þeir byrja í ágætri stöðu, vantar reyndar alltaf smá pening, en það er nú alltaf svoleiðis.
Bretar verða að vera fljótir að byrja að sigla með herlið inn í Evrópu og trufla þannig Þjóðverja og tefja þá í árásinni á Rússland. Bretar byrja með fínan sjóher og þurfa því ekki að bæta hann mikið til að byrja með. Það gæti samt reynst ágætt að taka út þann sjóher sem Þjóðverjar eiga, samt ekkert nauðsynlegt í byrjun.
Bretar eiga einnig mikið af löndum í Afríku en byrja ekki með mjög mikið herlið þar. Þess vegna verða þeir að reyna að nýta flutningaskip sitt þar til að flytja herlið þangað, þeir byrja með eitthvað á Indlandi og í Ástralíu.
Næstir eru Japanir. Þeir byrja með langstærsta flotann á borðinu og í fínni stöðu.
Þeir verða að byrja á því að taka út bandaríska flotann, þeir ná alltaf að þurrka út meirihluta hans strax í fyrstu umferð. Það er líka sniðugt að flytja eitthvað herlið yfir í Asíu, því þar er ekki mikið herlið til varnar og Japanir geta auðveldlega unnið sér inn mikinn pening með því að taka löndin þar. Ef þeir gera það eru þeir einnig á sama tíma að hjálpa Þýskalandi með því að ógna Rússlandi úr austri og taka frá þeim lönd sem gefa mikilvægan pening.
Bandaríkjamenn eru síðastir að gera. Þeir byrja ekki með mikið herlið á borðinu en fá mesta peninginn og byrja þannig séð í frekar góðri stöðu.
Japanir þurrka vanalega út meirihluta flota þeirra í Kyrrahafinu í fyrstu umferð en þó eiga þeir eitthvað eftir, þó ekki nándar nærri eins mikið og Japanar. Þeir ættu strax að byrja á því að færa herlið yfir í Evrópu og hjálpa þannig Bretum og Rússum. Bandaríkjamenn geta ekki gert mikið við Japani fyrst um sinn vegna þess hve erfitt er að færa eitthvað herlið yfir Kyrrahafið og til Japan eða eyja sem þeir eiga, það sést svo vel fyrirfram vegna þess hve langan tíma það tekur.
Til að Bandamenn geti unnið þurfa þeir að ná báðum höfuðborgum Möndulveldanna. Möndulveldin geta hinsvegar unnið með því að ná annaðhvort tveimur af þremur höfuðborgun Bandamanna eða að vera með 85 krónur í innkomu í lok umferðar, þ.e.a.s. þegar allir eru búnir að gera.
———-
Spilið endar oftast bara í baráttu um Þýskaland og Evrópu vegna þess hve erfitt er að sigla um Kyrrahafið (það tekur svo langan tíma).
Aðalkosturinn og það sem þetta spil hefur framyfir t.d. Risk er sá að það er sanngjarnara, þ.e.a.s. allt herlið og öll skip hafa ákveðið attack rate og defence rate þannig að ef þú ert með stærri her þá áttu að vinna. Það er ekki jafn tilviljanakennt og í Risk þó að auðvitað geti maður verið heppinn eða óheppinn.
Mér finnst þetta vera alveg gífurlega skemmtilegt spil og það er hægt að spila það aftur og aftur vegna þess hve gaman er að vera alltaf ný og ný lönd og prófa nýjar aðferðir. Annar þáttur er líka að það getur verið gífurlega mikill fjölbreytileiki í því, einhver tvö skipti verða aldrei alveg eins.
———-
Hérna fjallaði ég eins og áður var sagt aðeins um eitt spil af þremur í þessari seríu. Ég ætla mér örugglega að skrifa um Axis and Allies: Europe en líklegast ekki um Axis and Allies: Pacific, aðallega vegna þess að ég á ekki spilið og hef aldrei spilað það. Ég vona að þið hafið haft gaman að því að lesa þetta og ef einhver vill komast yfir þessi spil þá held ég að einu staðirnir sem þau eru fáanleg á séu niðri í Nexus og hjá Magna.
-haraldur