Blessaðir hugarar.

Fimmtudagskvöld eru tileinkuð Warhammer Fantasy í Nexus spilasalnum og því upplagt að gera eitthvað skemmtilegt þar. Hér er það sem ég hef í huga, fyrst kemur ‘auglýsingin’ og svo reglurnar í meiri smáatriðum:

-*-*-*-

Herför í spilasalnum!
Fimmtudagskvöld eru Warhammer Fantasy kvöld í spilasal Nexus. Fimmtudaginn 19. júní hefst fimm vikna herför þar sem hver spilari berst einn bardaga á viku í fimm vikur.

Aðgangur er ókeypis, en hámark 18 spilarar geta tekið þátt. Þeir sem hafa áhuga á að spila þurfa að geta notað 2000 pt her í það mesta. Nánari reglur eru hér að neðan.

Spilarar þurfa að skrá sig hjá stjórnanda herfararinnar, Brjáni Jónassyni, annað hvort með tölvupósti á brjann@NOSPAMtalnet.is (sleppa NOSPAM), eða með því að hringja í síma 696-1305.

Þar þarf að koma fram
·Nafnið á spilaranum.
·Nafnið á hershöfðingjanum.
·Hvaða her viðkomandi spilar.
·Netfang spilarans.
·Símanúmer (GSM er best) hjá spilaranum.

Nexus veitir verðlaun fyrir góða frammistöðu, þó markmiðið sé að sjálfsögðu að spila og skemmta sér og andstæðing sínum!

Æskilegt er að spilarar geti mætt fimmtudaginn 19. júní klukkan 18:00 í spilasal Nexus með 1500 pt herji tilbúna til að taka fyrsta bardagann. Blað með úrslitum hverrar umferðar og næstu andstæðingum hvers spilara verðu svo hengt upp á vegg á hverjum miðvikudegi í síðasta lagi, auk allra sér reglna sem gilda um bardaga þeirrar viku.

Allar reglur má sjá í smáatriðum hér að neðan, og eintak má nálgast í afgreiðslu Nexus. Frekari upplýsingar gefur Brjánn Jónasson í síma 696-1305

-*-*-*-
Warhammer Herförin
Almennar reglur

Warhammer herförin hefst fimmtudagskvöldið 19. júní klukkan 18:00. Hún mun standa yfir í fimm vikur þaðan í frá, og er miðað við að hver spilari berjist einn bardaga í hverri viku. Á hverjum miðvikudegi verður hengdur upp listi í spilasal Nexus (og settur upp á vefsíðunni www.hugi.is, undir áhugamálinu “Borðspil”) yfir það hver á að berjast við hvern.

Það er æskilegt að nýta fimmtudagskvöldin í Nexus til að spila, en ef spilari kemst ekki þá er hægt að semja um annan dag við andstæðinginn.

Markmiðið með þessari herför er að allir skemmti sér vel og spili við fólk sem þeir spila kanski sjaldan við annars. Bardagarnir verða breytilegir að stærð, og spilaðir mismunandi bardagar í hverri viku, og verða nánari smáatriði sett upp á töfluna í spilasalnum í síðasta lagi á miðvikudegi. Spilarar verða að vera opnir fyrir skemmtilegum breytingum og til í að reyna nýja hluti. Þeir sem vilja bara spila hefðbundna bardaga ættu að nota tækifærið og víkka sjóndeildarhringinn!

Athugið að Warhammer Skirmish reglurnar úr reglubókinni verða eflaust notaðar eitthvað, jafnvel spilað lítið Skirmish fyrir aðal bardagann svo spilarar ættu að lesa í gegnum þær reglur.

Hver spilari verður að nota sama herinn (þ.e. Empire, Skaven , Chaos Mortals) í allri herförinni, en má breyta samsetningu hersins fyrir hvern bardaga. Hver spilari verður að geta mætt með 2000 pt her, þó stundum verði notaður smærri her.

Leyfilegir herjir:
Nota skal aðal-listana úr þeim bókum sem út eru komnar, ekki er heimilt að nota aukalista aftast úr bókunum. Nota skal nýjasta löglega eintak af þeim listum sem ekki er komin út bók fyrir, hvort sem listinn er í Ravening Hordes, White Dwarf eða öðrum hvorum Annualnum. Einungir listar sem eru ‘official’ eru leifðir. Nefndar persónur (special characters) verða ekki leifðar.

Dogs of War sveitir eru aðeins leifðar í Dogs of War herjum. Ekki er leyfilegt að kaupa þær í öðrum herjum, jafnvel þótt það standi í listunum fyrir herinn.

Skráning:
Áður en herförin hefst verða spilarar að skrá sig hjá umsjónarmanni hennar, Brjáni Jónassyni. Það er hægt að gera með því að senda tölvupóst á brjann@NOSPAMtalnet.is (sleppa NOSPAM), eða með því að hringja í síma 696-1305. Eftirfarandi upplýsingar þurfa að koma fram:

·Nafnið á spilaranum.
·Nafnið á hershöfðingjanum.
·Hvaða her viðkomandi spilar.
·Netfang spilarans.
·Símanúmer (GSM er best) hjá spilaranum.

Módel:
Módel sem notuð eru í herförinni eiga að vera það sem þau eru. Ekki er nauðsynlegt að nota Games Workshop módel en ef notuð eru önnur módel verða þau að líta út fyrir að vera það sem þau eiga að vera.

Ef módelin eru ekki til, eða spilarinn á þau ekki, er hægt að umbreyta öðrum módelum svo ekki fari á milli mála hvað þau eru, eða nota einfaldlega ekki sveitina. Raunvörulegir hershöfðingjar höfðu ekki alltaf það sem þeir vildu helst í sínum herjum…

Verðlaun:
Nexus veitir verðlaun fyrir góða framistöðu. Þó ættu menn alltaf að hafa hugfast að markmiðið er að skemmta sér vel en ekki að vinna einhver verðlaun.

-*-*-*-

Svo er bara að skrá sig og spila fantasy alveg á fullu í sumar!

Hverjir eru með? Sendið mér póst!

Brjánn