Blessaðir
Nú er Warhammer Fantasy mót helgina 1.-2. mars, en ég er farinn að pæla í mótinu þar á eftir, sem verður vonandi um páskana. Tvennt nýtt sem við Gunni Trausta vorum að spá í, og ég var að spá í að gefa ykkur tækifæri á að ræða:
-*-*-*-
1) Áskorun/Hólmgangan!
Fyrsti bardaginn á hverju móti hefur venjulega verið milli andstæðinga sem dregnir eru saman með handahófsaðferð. Hugmyndin var að bæta þar inn möguleika á að skora á annan spilara.
Virkar þannig: Spilari A telur sig eiga harma að hefna eftir ljótt, auðmýkjandi tap á síðasta móti (eða annarsstaðar), eða eftir að spilari B var að tala illa um snyrtilegu, vel greiddu álfana hans (eða gera grín að öxi Khorne-lordsins…), og skorar á spilara B. Spilari B ræður þá hvort hann tekur áskorunninni (og berst þá fyrsta bardagann við spilara A) eða hafnar henni (bú, hiss) og dregst þá á móti einhverjum af handahófi eins og venjulega.
Það er náttúrulega enginn heiður í því að skora á einhvern byrjanda til að vonast eftir auðveldum leik, og það eina sem mun gerast er að dómari mun ráðleggja byrjandanum sterklega að afþakka, og allir munu hlægja að gaurnum sem lagðist svo lágt.
Ef tveir skora á sama spilarann má hann velja hvorri áskorunninni hann tekur, eða láta draga sig af handahófi.
Einungis má skora á einn annan spilara, ekkert vara-val mögulegt. Ef sá hafnar því að spila við þann sam skoraði á hann (aftur, bú-hiss) þá verða báðir dregnir af handahófi.
-*-*-*-
2) Nota önnur scenarios en Pitched Battle. Ég veit ekki með ykkur en ég verð stundum smá þreyttur á sama gamla “röðum upp herjunum og lemjum hvorn annan” bardaganum. Hugmyndin gæti verið að í t.d. einum bardaganum þá verði spilað Meeting Engagement, í öðrum Breakthrough og jafnvel í þriðja Capture the Flag. Restin af bardögunum yrði þá pitched battles eins og venjulega.
Það sem þetta gerir er einna helst:
a) Fær spilara til að hugsa um herjina sína og gera þá hæfa til að takast á við fjölbreyttari aðstæður. Hvernig gengur her sem er bara með riddara að verjast í Breakthrough? Eða hernum með bara bogmenn að halda gröf galdramannsins á miðju borðinu gegn hjörð af skaven?
b) Gerir bardagana fjölbreyttari og meira spennandi. Eitthvað nýtt.
c) Gefur tækifæri til að gera nýtt terrain, svo sem eitthvað ‘markmið’ á hvert borð til að hertaka í Capture the Flag. Til dæmis gamla gröf, altari, mikilvæga hæð, vatnsuppsprettu, gíg með loftsteini, innganginn að helli (hvað er inni?), byggingu/bæ eða annað slíkt.
d) Gæti gert bardagana erfiðari fyrir suma herji en aðra. Það er ljóst að scenarios, alveg saman hvernig þau eru (pitched battle þar með talið) eru mis-hentug fyrir mismunandi herji. Ég held að það verði bara að reyna sitt besta til að halda jafnvægi, og hafa bara gaman af hlutunum þegar jafnvægið er ekki alveg 100%. Þetta er jú þrátt fyrir allt bara leikur…
Hvað finnst ykkur? Á þetta rétt á sér?
Kveðja
Brjánn Jónasson