Ég er menntaður myndlistamaður með forritunarkunnáttu. Ég lærði í Mynd- og Hand, Minnesota háskólanum í USA og Listaakademíuni í Helsinki. Ég hef fylgst með tölvuþróuninni síðustu 22 ár. Ég kenni tölvufræði við Fjölbrautaskólann við Ármúla og sé um tölvukennslu í fornámi Myndlistaskóla Reykjavíkur fyrir inngöngu í Listaháskólann og hef kennt lítillega við LHÍ. Svo er ég amatör tónlistamaður þannig að þetta kemur allt saman í myndlistinni minni. Þetta verk (og fleiri) eru ekki unnin eingöngu í Flash. Heldur er ýmislegt sem gerist baksviðs sem er unnið í PHP. Hljóðið vinn ég svo í einskonar hljóðforritunarumhverfi sem heitir Pure Data og keyrir á sjálfum vefþjóninum. Hljóð möguleikarnir í Flash eru of takmarkaðir en Pure Data er algjörlega opið og takmarkast eingöngu við hugmyndarflug listamannsins. Verkin mín byggjast á þeirri hugmynd að óhlutbundin myndlist er sprottin út frá löngun myndlistamanna til að fanga tilfinningakraft tónlistarinnar, sem er í eðli sínu óhlutbundin, í myndsköpun. Í staðinn fyrir að reyna að búa til myndir af tónlist (eins of Kandinsky og fleiri gerðu), læt ég tónlistina skapa myndirnar. Ennfremur, til að forðast hlutbindingu einnar manneskju, nota ég fjölnotenda viðmót til að útkoman verði örugglega eins óhlutbundin og mögulegt er. Ég kannski með opinn fyrirlestur í LHÍ einhverntímann eftir áramót. Ég ætti ef til vill að setja tilkynningu hér ef úr því verður.