Hvað finnst ykkur vera arkitektúr? Er arkitektúr list, eða getur aðeins verið um að ræða afmarkaðan listþátt í arkitektúr? Er arkitektúr kannski eitthvað annað en list, en samt samsvarandi og skyldur henni? Er eina hlutverk arkitektúrs kannski að þjóna notagildi sínu? Hver er þá munurinn á arkitektúr og byggingarverkfræði? Ber arkitekt ábyrgð á því ef burðarþol, byggingarefni, leiðslur eða annað slíkt bregst?
Hvert er notagildi bygginga? Getur notagildi byggingar náð til andlegra þarfa fólks? Getur bygging verið listaverk sem menn ganga um? Þarf bygging að vera falleg og vekja þægilegar tilfinningar, eða má hún líka vekja upp óþægilegar tilfinningar? Tónlist þarf ekki að vera upplífgandi eða falleg til þess að veita manni listræna upplifun, hún getur þvert á móti verið melankólísk og sorgleg, en samt sækir maður í þessa upplifun og hefur vissa ánægju af því. Hugsið ykkur <i>Dánarfregnir og jarðarfarir</i> með <i>Sigur Rós</i> í <i>Englum alheimsins</i>. Getur arkitektúr verið þannig, haft sömu áhrif og tónlist, kvikmyndir og önnur list? Ímyndið ykkur gotneskar kirkjur. Þær eru dramatískar. Getur arkitektúr ennfremur verið skemmtilegur, fyndinn, sorglegur, leiðinlegur, upplífgandi, niðurdrepandi, spennandi, kúl, töff og sexý?
Hefur arkitektúr eitthvað að segja? Hefur hann boðskap? Lýsir hann tíðaranda hvers tíma? Píramýdarnir voru grafhýsi guðlegum faraóum til heiðurs, og staðsetning þeirra vísaði til stöðu himintunglanna. Parthenon skartaði stærðfræðilega útreiknuðum gullinsniðum sem þóttu hin fullkomna harmónía á þeim tíma. Þau geómetrísku form sem voru fyrirmyndir þeirra tilheyrðu frummyndaheimi Platóns. Gotneskar kirkjur áttu að sýna guðdómleika guðs og hins heilaga anda (sem og önnur list á þeim tíma). Iðnbyltingin ól af sér tæknidýrkun sem endurspeglaðist í arkitektúr á fyrri hluta síðustu aldar og langt fram að okkar tíma. Sums staðar er fúnksjónalismi ennþá við lýði. Er hann það eina sem koma skal það sem eftir er? Verður arkitektúr aldrei aftur meira en stílisering og skraut sem svarar hégómagirnd nýríkra uppa? Hvað varð um tilfinninguna, merkinguna og boðskapinn sem einkenndi hann áður? Hvað finnst ykkur?