Hugvísindastofnun og Guðfræðistofnun halda árlegt hugvísindaþing dagana 2. og 3. nóvember næstkomandi. Haldnir verða á milli 60 og 70 fyrirlestrar um allt mögulegt, og eru þeir að sjálfsögðu öllum opnir. Almenningur, jafnt sem nemendur og fræðimenn, fær hér gott tækifæri til þess að kynna sér hvað er á seyði í hinum ýmsu sviðum fræðanna.

Meðal efnis á þinginu má nefna fyrirlestur Erik Skyum-Nielsen, þýðanda og bókmenntagagnrýnanda, “Íslenskar bókmenntir í Danmörku” og fyrirlesturinn “Landslags og táknrænna hluta í minnisgeymd fólks án ritmáls” sem Ástvaldur Ástvaldsson, dósent við Háskólann í Liverpool, mun flytja.

Þá eru áhugaverðar málstofur s.s. Er Njála til? En þar munu Ármann Jakobsson og Jón Karl Helgason skiptast á skoðunum um hinn eina sanna texta Njálu. Jón Karl: “Njála er ekki til sem einn endanlegur texti á bók. Frumtexti sögunnar er glataður og með hverju árinu sem líður verða til ný afbrigði hennar; útgáfur, þýðingar og endurritanir.” Ármann: “Njála er til og verður sundurgreind frá hefðinni og endurritununum, að vísu aldrei með fullkomnu öryggi um höfundarætlun eða frumtexta.”

Einnig er málstofan Tónræna og ljóðræna í norrænum bragarháttum, sem Kristján Árnason, prófessor í íslensku við HÍ stýrir. Þar verður fjallað um meginmuninn á norrænum og vestgermönskum kveðskap; í Eddukvæðunum skipa tónrænir þættirnir hærri sess og þeir verða eins konar ferskeytlur. Úr því að Edduhættir urðu músíkalskari en þeir vestgermönsku má halda því fram, í anda Romans Jakobsons, að þeir hafi verið ljóðrænni (lýrískari) og myndað skýrari andstæðu við listrænt lausamál, sem um leið varð til á Íslandi.

Að lokum má benda á málstofuna Kvikmyndaaðlaganir trúarstefja sem Guðni Elísson, lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, stýrir. Þar munu meðlimir úr Rannsóknarhópnum Deus ex cinema (www.dec.hi.is) flytja fjóra stutta fyrirlestra um trúarstef í kvikmyndum. Fjallað verður um kærleiksóð Páls postula eins og hann birtist í kvikmyndinni Þrír litir: Blár; um Gretti Ásmundason, Hallgrím Pétursson og Clint Eastwood sem Jesúgervinga í bókmenntum og kvikmyndum; um lögmál og fagnaðarerindi í myndinni Cast Away; og um nútíma túlkun á sögunni af Adam og Evu í kvikmyndinni Pleasantville. Að fyrirlestrum loknum verður boðið upp á umræður. Fyrirlestrarnir eru:
Gunnar J. Gunnarsson, lektor: Kærleiksóður Páls postula í kvikmyndinni Blár eftir Kieslowski
Pétur Pétursson: Grettir, Hallgrímur Pétursson og Clint Eastwood. Jesúgervingar í bókmenntum og kvikmyndum
Þorkell Ágúst Óttarsson: Hið fagra fall. Sagan af Adam og Evu í kvikmyndinni Pleasantville
Árni Svanur Daníelsson: Brottkast manns. Kvikmyndin Cast Away í ljósi lögmáls og fagnaðarerindis

Margt annað mætti telja fram.

Dagskrá þingsins má nálgast hér: http://www.hugvis.hi.is/hugvisindathing/


<br><br>__________________________
Aut tace aut loquere meliora silentio.
___________________________________