Meðal efnis á þinginu má nefna fyrirlestur Erik Skyum-Nielsen, þýðanda og bókmenntagagnrýnanda, “Íslenskar bókmenntir í Danmörku” og fyrirlesturinn “Landslags og táknrænna hluta í minnisgeymd fólks án ritmáls” sem Ástvaldur Ástvaldsson, dósent við Háskólann í Liverpool, mun flytja.
Þá eru áhugaverðar málstofur s.s. Er Njála til? En þar munu Ármann Jakobsson og Jón Karl Helgason skiptast á skoðunum um hinn eina sanna texta Njálu. Jón Karl: “Njála er ekki til sem einn endanlegur texti á bók. Frumtexti sögunnar er glataður og með hverju árinu sem líður verða til ný afbrigði hennar; útgáfur, þýðingar og endurritanir.” Ármann: “Njála er til og verður sundurgreind frá hefðinni og endurritununum, að vísu aldrei með fullkomnu öryggi um höfundarætlun eða frumtexta.”
Einnig er málstofan Tónræna og ljóðræna í norrænum bragarháttum, sem Kristján Árnason, prófessor í íslensku við HÍ stýrir. Þar verður fjallað um meginmuninn á norrænum og vestgermönskum kveðskap; í Eddukvæðunum skipa tónrænir þættirnir hærri sess og þeir verða eins konar ferskeytlur. Úr því að Edduhættir urðu músíkalskari en þeir vestgermönsku má halda því fram, í anda Romans Jakobsons, að þeir hafi verið ljóðrænni (lýrískari) og myndað skýrari andstæðu við listrænt lausamál, sem um leið varð til á Íslandi.
Að lokum má benda á málstofuna Kvikmyndaaðlaganir trúarstefja sem Guðni Elísson, lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, stýrir. Þar munu meðlimir úr Rannsóknarhópnum Deus ex cinema (www.dec.hi.is) flytja fjóra stutta fyrirlestra um trúarstef í kvikmyndum. Fjallað verður um kærleiksóð Páls postula eins og hann birtist í kvikmyndinni Þrír litir: Blár; um Gretti Ásmundason, Hallgrím Pétursson og Clint Eastwood sem Jesúgervinga í bókmenntum og kvikmyndum; um lögmál og fagnaðarerindi í myndinni Cast Away; og um nútíma túlkun á sögunni af Adam og Evu í kvikmyndinni Pleasantville. Að fyrirlestrum loknum verður boðið upp á umræður. Fyrirlestrarnir eru:
Gunnar J. Gunnarsson, lektor: Kærleiksóður Páls postula í kvikmyndinni Blár eftir Kieslowski
Pétur Pétursson: Grettir, Hallgrímur Pétursson og Clint Eastwood. Jesúgervingar í bókmenntum og kvikmyndum
Þorkell Ágúst Óttarsson: Hið fagra fall. Sagan af Adam og Evu í kvikmyndinni Pleasantville
Árni Svanur Daníelsson: Brottkast manns. Kvikmyndin Cast Away í ljósi lögmáls og fagnaðarerindis
Margt annað mætti telja fram.
Dagskrá þingsins má nálgast hér: http://www.hugvis.hi.is/hugvisindathing/
<br><br>__________________________
Aut tace aut loquere meliora silentio.
___________________________________