Ég held að það séu víst tengsl á milli popptónlistar og popplistar, en samt ekki þannig að bæði hafi orðið til á sama tíma eða byggist á sömu hugmyndum. Og ég held að popplist hafi ekki notið sérstaklega mikilla vinsælda frekar en önnur myndlist. En pop er náttúrulega bara forskeyti við það sem er vinsælt. Popplist var eins konar skopstæling á “popular culture”, á þeim tíma þegar fyrstu poppstjörnurnar voru að verða til og amerískt neysluþjóðfélag var að mótast. Andy Warhol lofsamaði “fimmtán mínútna frægð” og vildi vera stjarna eins og Elvis Presley, James Dean og Marilyn Monroe. Á þeim tíma voru líka ofurhetjumyndasögur virkilega vinsæl neysluvara og voru þess vegna notaðar í klippimyndir popplistamanna (af hverju í fjand.. er Erró ennþá að mála þær??).
Ég held að það verði oft einhvers konar víxlverkun eða samtal milli mismunandi geira listarinnar, í takt við tíðarandann. Póstmódernísk list og arkitektúr blandaði saman gömlu og nýju í írónískan hrærigraut og bjó til nýja merkingu úr öllu saman. Ég held að það megi alveg tengja þetta við t.d. tónlist s.hl. 9. og 10. áratugarins, danstónlist, hip hop og aðra raftónlist. Þessi tónlist hefur aðallega byggst á því að “sampla” úr ýmsum áttum, gamalt og nýtt, í bland við nýja tóna úr hljóðgerflum. Það sama hefur náttúrulega gerst í tísku undanfarinna áratuga, endalaus “sömplun” úr gömlum stílum.
Og það er staðreynd að ýmis ambient/minimal/noise raftónlist virðist eiga upp á pallborðið í nútímalistasöfnum í dag. Fjöllistamenn blanda saman myndlist og tónlist/hljóðverkum. Íslensk dæmi myndu vera t.d. Bibbi Curver, Egill Sæbjörnsson og Stillupsteypa. Sem ég sit hérna og hlusta á <a href=
http://www.kiasma.fi/arsradio/>netútvarpssendingu</a> tilraunakenndar raftónlistar frá nútímalistasafninu í Helsinki, þá get ég ég ábyrgst þetta.