Vá, þetta kom á óvart! Við erum þá kannski af svipuðu sauðahúsi tónlistarlega séð. Sjálfur hlustaði ég nær eingöngu á danstónlist á fyrri hluta unglingsáranna og fylgdist þá með þróuninni hardcore-jungle-drum'n'bass. Þegar mér fannst þessi tónlist búin að blóðmjólka sjálfa sig of mikið fór ég að kynna mér aðrar tegundir af tónlist, nýja og eldri. Ég hafði aldrei haft gaman af rokki yfir höfuð, en fór að kunna að meta það í gegnum tilraunakennt framúrstefnurokk þegar ég sá að margt af því sem ég var að hlusta á hafði verið gert áður miklu flottar og betur. Þannig kom ég bakdyramegin inn í rokkið. Nú kann ég að meta það besta úr flestöllum tegundum tónlistar. Ég held að þessi dj-kynslóð, hversu framúrstefnuleg sem hún telur sig vera, hafi í raun verið ótrúlega íhaldssöm inn við beinið. Það kom eitthvað tímabil þegar við vorum unglingar að við opnir fyrir einhverju nýju, en svo bara héldum við okkur fast í það alveg endalaust. Ég hef séð margan góðan manninn daga uppi eins og nátttröll, ennþá með sama hugafarið og í árdaga reifmenningarinnar.
Nú veit ég ekki nákvæmlega hvaða afbrigði af house og techno þú hefur spilað, en þú kannast e.t.v. við minimal techno? Það er að sjálfsögðu nátengt minimalisma í öðrum listum. Sem og tónskáldið John Cage og ambient guðfaðirinn Brian Eno. Það var einmitt m.a. í gegnum Brian Eno sem ég fékk áhuga á fræðilegum bakgrunni módernismans bæði í tónlist og myndlist, og svo póstmódernískri heimspeki, en hann er mikill spekingur í þessum fræðum. Brian Eno byggir sína list (myndlist og tónlist), eins og margir nútímalistamenn, aðallega á grunni fyrsta dadaistans Marcel Duchamp og tónskáldsins John Cage. Áhrif Eno í gegnum ambient-tónlistina og samvinnuverkefni hans með Robert Fripp, David Bowie, U2 o.fl. þarf vart að nefna. Kraftwerk, guðfeður tekknósins, voru undir áhrifum af Karlheinz Stockhausen, sem var módernískt tónskáld. Tekknóið er að sjálfsögðu endurspeglun umhverfis síns, sem sést best þegar maður skoðar hvaðan það er upprunnið og hvert það hefur ferðast, úr skítugri iðnaðarborginni Detroit yfir til Berlínar og London. Það má líka segja að tekknóið sé afsprengi þeirrar tæknidýrkunar og framtíðarþrá sem náði hámarki á 9. áratugnum en lifir ennþá. Þó að danstónlist sé anti-intellectual í eðli sínu, á þetta flest rætur sínar að rekja til svipaðra strauma í listaheiminum.