Kæru listunnendur og aðrir eftir atvikum,
Hvað skiptir máli varðandi hvort list er góð eða slæm ?(orðið “vond” í þessu samhengi er tilefni fyrir heilan pistil).
Að nær óathuguðu máli virðist mér nýnæmið (originality) skipta æ meira máli - og er nú e.t.v. svo komið að innihaldið/gæðin skiptir miklu minna máli en nýnæmið. Vel þekkt dæmi eru upphengd klósett á listasýningum síðustu aldar og þar frameftir götunum.
Mér finnst hinsvegar að list eigi að vera tímalaus og finnst þannig að það listaverk sem var t.d. það fyrsta í einhverri stefnu/tækni ekki nauðsynlega betra heldur en verk sem seinna er samið og notar sömu stefnu/tækni. Að öllu jöfnu finnst mér sanngjarnt að gefa fyrri listamanninum “kredit” fyrir að hafa verið upphafsmaður að einhverju - en listaverkin sjálf vil ég dæma óháð tíma og höfundi.
Dæmi um þessa fortíðardýrkun finnst mér magnaðast í kvikmyndagerð þar sem fólk virðist virkilega þeirrar skoðunar að verk úr æsku kvikmyndagerðarinnar séu betri en nýrri verk - og nefna þá gjarnan þær nýjungar sem komu fram í fyrsta sinn í þessum gömlu myndum. En æfingin skapar meistarann og listgrein sem er ekki nema u.þ.b. aldargömul og treystir ofaníkaupið svo mikið á tæknileg atriði finnst mér hljóta að taka framförum með tímanum. Þannig að nýrri verk myndu njóta meiri hylli væri dæmt óháð því hvar, hvenær og hver samdi verkið.
Tónlist er náttúrulega mun eldri og þroskaðri listgrein og hefur orðið fyrir æði merkilegum breytingum gegnum tíðina. Frá því að vera taktföst og hljómþýð þá er nútímatónlist (svk. klassík og jazz en svosem ekki popptónlist) oft óháð takti og helst ekki hljómþýð.
Myndlist hefur orðið fyrir álíka þróun frá “fallegum myndum” yfir í æ meiri abstract.
Hvernig stendur á þessum breytingum sem virðast vera alltaf í eina átt og óafturkræfanlegar ?
Það virðist vera “bannað” að vinna í gömlum stílformum - þau verða úrelt sem slík - en samt standa gömlu málverkin eftir og er haldið uppi sem snilld. Ef þessi gamla list er svona frábær - af hverju er þá ekki hægt að semja meira í þessum stíl ?
Ég held að ef nútímamálari myndi reyna þá myndi hann mála “betri” mynd en margir gömlu “meistaranna” ef hann myndi leyfa sér að mála í þeirra stíl - og einhver óháður (e.t.v. geimvera) myndi dæma. Eins ef nútíma tónskáld myndi semja sónötu þá væri hægt að semja eitthvað sambærilegt Beethoven og Mozart. En slíkt gerist ekki. Nýjungagirnin verður til góðs eða ills gæðunum yfirsterkari og ekkert er gott nema það sé öðruvísi.
Að öllu þessu sögðu þá vil ég nefna þá tvo punkta sem ég vildi koma a framfæri:
. Að list virðist vera metinn f.o.f. eftir samhenginu sem hún er/var birt í frekar en eigin “gæðum”.
.. Að krafan um nýjungar virðist vega meira en krafan um “gæði”
p.s. Ég geri mér grein fyrir að orðið “gæði” er varla hægt að nota um list - en ég geri það samt - ég held að þið áttið ykkur á því hvað ég er að fara.