Til Evu Bríönu, sem gerir líf mitt þess virði að lifa því.

Við lifum í draumi. Og það sem meira er, ameríska draumnum. Eitt það fyrsta sem margar fjölskyldur gera á morgnana er að kveikja á útvarpinu. Þar erum við mötuð á ástamálum draumaprinsanna og –prinsessanna í Hollywood, nýjustu stríðunum og hryðjuverkunum séð frá sjónarhorni einhvers taugaveiklaðs ríkisstjóra í New York og síðast en ekki síst: allri þessari amerísku tónlist. Persónulega hef ég alltaf fílað Bretana betur, Pink Floyd, Iron Maiden, The Clash, Bítlana og enska hlutann af Guns N Roses, Slash (Saul Hudson). En þér er sjálfsagt sama. Sennilega siturðu núna við skrifborðið þitt í einkaherberginu þínu og gerir heimavinnuna þína í stærðfræði. Þú ert enn ekki farin að hugsa um tónlist. En engar áhyggjur. Það kemur.

Í dagsins amstri er líklegt að við minnumst að minnsta kosti eitthvað á líf “ríka og fræga fólksins”, og ef ekki, þá höfum við mjög líklega áhyggjur af fósturdóttur föðursystur okkar, sem er með anorexíu eftir að hafa bitið það í sig að hún sé ljót ef hún lítur ekki út einsog Ameríkan segir henni að gera. Heimurinn er að fara í hundana. Amerísku hundana. Og þeir gelta hátt.

Ég átti einusinni kött. Ég grátbað um að fá hund, en það var svo erfitt að fá þá gefins að ég fékk kött. Ég skírði hann við viðhöfn, Bill Bailey Bennysson. Það var enginn viðstaddur nema Joan og svolítið ruglaður kall sem bjó í sama stigagangi. Hann drakk mikið og borðað lítið, talaði við sjálfan sig og var með hring á milli augnanna. Við Joan bárum mikla virðingu fyrir þessum manni; svo mikla að ég skrifaði ritgerð um hann í áttunda bekk. Ég fékk 4,5 fyrir hana. Held’etta sé eina ritgerðin sem ég hef skilað inn á ævinni. Mér fannst leiðinlegt í skóla.

Já, virðing. Þú ert kannski ekki orðin nægilega gömul tilað átta þig á orðinu, en ég get fullvissað þig um að þú átt aldrei eftir að bera hana fyrir mér. Ég er nefnilega þriðja flokks rusl, ekki hæfur til endurvinnslu. Ég vakna á morgnana, reyki eina til fimm sígarettur, klæði mig í bol, bol, buxur og sokka, reima á mig skóna, set á mig húfuna, hósta upp stórum horköggli og fer í vinnuna. Þar fæ ég skyrtu utanum bolina mína tvo, og svo steiki ég hamborgara og drekki frönskum kartöflum í feiti til fimm… fleygi andskotans koflóttu skyrtunni frá mér þegar ég kem heim, hrúga hinum fötunum á baðherbergisgólfið og fer í langa sturtu. Svo borða ég kvöldmat. Einu máltíð dagsins. Einhverjir fávitar halda því fram að maður verði feitur af því að borða bara einusinni á dag. Ég vildi óska þess að þeir hefðu rétt fyrir sér.

Stundum finnst mér ég vera að drukkna. Ekki í skít eða vatni eða einhverju svona venjulegu, heldur finnst mér ég hreinlega vera að drukkna í stöfum… óteljandi orðum og setningum sem hrannast upp í huganum og brjótast stundum fram á varirnar þráttfyrir öll boð og bönn heilans og hjartans, sem bera fram það einróma álit sitt að þessi óvelkomnu orð eigi að halda sig í hrúgunni; halda áfram að reyna að drekkja mér.

Mamma sagði einusinni að pabbi hefði líka stöðugt misst útúr sér eitthvað óvart. Þegar þau hittust fyrst sagði hann: ,,Þú ert fallega fjólublá í ár.” Mamma roðnaði, og þá sagði hann: ,,Þú brestur ofaní mig.” Mömmu fannst þetta voðalega rómantískt, og hélt alltaf að hann hefði meint eitthvað voðalega merkilegt með þessum orðum, en ég held að hann hafi einfaldlega verið fífl. Því eplið fellur alltaf nálægt eikinni, og fífl geta af sér fífl. Ég er fífl. Og ég vona að ég hafi ekki skilið eftir of mikið af mínum fíflagenum í þér.

Stundum eru dagarnir samt öðruvísi. Maður vaknar sæmilega hress, þarf ekki nema smástubb frá kvöldinu áður og einn kóksopa, og þá er maður tilbúinn að takast á við lífið og hamborgarana. Á svoleiðis dögum getur meiraðsegja verið sæmilega gaman í vinnunni. Maður spjallar við félagana og daðrar við nýju afgreiðslustelpurnar… þessar sem hafa ekki ennþá komist að því að ég er alveg nákvæmlega sami skíthællinn og ég lít útfyrir að vera. En stundum nær maður þeim í rúmið áðuren það gerist, og þá verður nóttin alveg jafn skítsæmileg og dagurinn. Já, suma daga sér maður einhverja glætu. En ekki marga daga. Og glætan er ekki fyrirferðamikil.

Þegar ég var aðeins yngri, svona átján ára, fékk ég oft martraðir. Sennilega afþvíað ég var svolítið mikið í innbrotum og svoleiðis aumingjaskap á þeim árum, og var alveg þokkalega paranojd. Draumarnir byrjuðu oftast á því að ég stóð uppá einhverju stóru sviði með gítarinn minn, ljós blikkuðu í öllum djöfulsins litum í kringum mig, og fyrir framan mig veifuðu þúsundir handa, og æpandi aðdáendur sungu með lögunum. Í bakgrunni hljómuðu alltaf einhver lög sem ég hafði samið. Ég rétt sá glitta í nokkra síða lokka og rifnar gallabuxur hér og þar, en annað sá ég ekki af hinum hljómsveitarmeðlimunum. Gat þó ekki betur séð en að sjálfur Angus Young stæði við hliðiná mér. Skyndilega hljóðnaði allt, ég stóð einn á sviðinu og áhorfendurnir sneru baki í mig. Þá datt hann ofanaf himninum, úr fullkomlega lausu lofti, svo óvænt að mér fipaðist á E7-hljómi, og skall með þungum dynk á miðju sviðinu sem bergmálaði um allt svæðið í kring, sem, trúðu mér, var ógnarstórt. Pabbi, nákvæmlega einsog hann hafði hrapað þetta blessaða sumar ’87. Svo var gítarinn minn horfinn, og ég fálmaði óöruggur útí loftið í leit að þessum guðsvolaða E7-hljómi. Áhorfendurnir, sem höfðu snúið við mér afturendanum seinustu sekúndur, hlupu nú alltí einu einsog óð hestahjörð, öll í lögreglubúningum, í áttina að mér og yfir mig. Mér fannst einsog ekki einn einasti hófur/skór hitti framhjá mér, og ég fann fyrir þeim hverjum og einum… en pabbi slapp; hann var horfinn af sviðinu og hékk í risastórri rólu langt fyrir ofan mig… og brosti til mín blóðugu brosi. Helvítis dópistinn.

Venjulega vaknaði ég einhversstaðar þarna, með verki í hverju einasta “hóffari”. Skjálfandi sem lítið strá í köldum blæstri haustsins…

Ég geri mér ekki alveg grein fyrir tilganginum með því að segja þér þetta, hvað þá með því að vera að skrifa allt þetta rugl yfirleitt… þú átt aldrei eftir að lesa þetta. Heldur ekki ég. Ekki nenni ég að fara enn einusinni í gegnum mínar bölsýnu hugsanir, og það á prenti! Ég les svo hægt að það er ekki fyndið. Jú, reyndar fannst Ásvaldi, litlum nörd sem var með mér í níunda og tíunda bekk, það voðalega fyndið, og kallaði mig Benny bókblinda. Jájá, hann fær kredit fyrir stuðlana, en mér finnst alveg hræðilega barnalegt að uppnefna fólk, sérstaklega með svona gamaldags uppnefnum. Þetta hefði verið í lagi ef hann hefði kallað mig einhverju nútímanlegra nafni, en aumingja nördinn þekkti ekki sín takmörk og breiddi þetta útum allan árganginn. Ég hefndi mín með því að lemja litla bróður hans, sem var í sjöunda. Því þó ég hefði alist upp við að vera laminn einsog boxpúði og kynni ágætlega að svara fyrir mig, þá var ég umþaðbil fjörutíu kílóum léttari en hlassið hann Ásvaldur, og átti hreinlega ekki séns. Svo var bróðir hans enginn væskill, ég er enn með ör undir annari augabrúninni eftir hann. Arngrímur hét hann, ef það skipir einhvejru máli.

Ef þú átt einhverntíman eftirað standa í mínum sporum, horfðu þá í augun á næsta manni og fullvissaðu þig um að honum þyki ekki hið minnsta vænt um þig. Láttu þér svo standa á sama um hann. Gakktu svo á röðina, og eftir góða stund stendur þér á sama um alla. Og öllum stendur á sama um þig. Er ég ekki óvenju kaldur í kvöld?

Það er samt óþarfi að líta á heiminn og alla sem í honum eru sem óvini. Það hlýtur að vera einhver þarna úti sem þykir vænt um þig. Já, ef þér finnst þú einhverntíman ein í heiminum afþvíað enginn vill horfa í augun á þér, mundu þá að mér þykir vænna um þig en nokkuð annað, og það þó ég hafi aldrei séð þig eða heyrt röddina þína og mun sennilega aldrei gera. Og ég get lofað þér því að þú ert ekki ein í heiminum, þó að ég geti ekki horft í augun á þér. Svo hefurðu náttúrulega alltaf mömmu þína…

Ég er hræddur. Það þýðir ekki að þú þurfir að vera það. Þú ert örugg hjá mömmu þinni. En ég má vera það afþvíað ég er einn. Svo einn að ég er farinn að tala stundum við sjálfan mig. Alveg einsog undarlegi gaurinn í stigaganginum okkar við Hringbrautina… ekki skrýtið að maður sé skelkaður.

Ég fann allillilega fyrir þessu þegar ég fór út með ruslið í gær. Sleppti pizzakössunum mínum og Bónus-pokanum, troðfullum af umbúðum utanaf 1944-réttum, ofaní hyldjúpt myrkrið í ruslatunnunni og skellti aftur lokinu. Það bergmálaði í þröngu sundinu á milli húsanna. Örlítill hrollur skreið niður eftir bakinu á mér, og ég veiddi kveikjarann uppúr vinstri vasanum og kveikti. Skuggarnir sem mynduðust á hrjúfum veggjunum í flöktinu af loganum voru það ógnvekjandi að ég, fullorðinn maðurinn, hljóp inn, niður stigann niðrí kjallara og oní holuna mína. Tók upp sígarettupakka á eldhúsborðinu, en hafði gleymt kveikjaranum úti. Bölvuð myrkfælni.

Sofnaði með ljósin kveikt það kvöld. Ég mundi ekki eftir eina almennilega ljósinu mínu; þér. Þér, Eva mín, manneskjunni sem ættir að vera nóg tilað lýsa alla myrkfælni úr hverri einustu dauðhræddu mannssál í þessari vitskertu veröld. Svo kemur það ekki eins illa út á rafmagnsreikningnum mínum.

Þinn,
pabbi.