Til Evu Bríönu, sem gerir líf mitt þess virði að lifa því.

Ég hef aldrei verið í sjöunda himni, aldrei gengið á fjólubláum skýjum og aldrei dansað á rósum. Það má eiginlega segja að ég hafi aldrei verið neitt sérlega hamingjusamur. Auðvitað get ég orðið glaður, meiraðsegja alveg fáránlega glaður, svo glaður að ég hlæ upphátt af einskærri ást á augnablikinu… en það alltaf eitthvað á bakvið, einhver óþægindi aftast í hnakkanum sem toga mig niðurá jörðina og gera það að verkum að ég lifi ekki lífinu til fulls. Og án þín, engilsins míns, myndi ég ekki einusinni lifa því. Án þín hefði ég kvatt fyrir löngu, stigið uppá stól, bundið einhvern óttalega lélegan hnút um hálsinn á sjálfum mér (ég var aldrei í skátunum) og stokkið. Eða fetað í fótspor feðranna og óverdósað á öllu heila klabbinu í einu, kókaíni, amfetamíni, LSD og helvítis fjandanum í flöskunni. Þannig dó nefnilega pabbi, og þannig dó mamma. Eða, pabbi dó ekki beinlínis útaf því, en hann náði að gera sig nógu gegnumsteiktan tilað stökkva útum eldhúsgluggann okkar á fjórðu hæðinni. Blakandi handleggjunum. Ég var átta ára þegar ég kom að honum liggjandi á stéttinni fyrir neðan.

Alveg rétt. Ég var að tala um hamingjuna. Sem er svolítið heimskulegt þarsem það er ekki verulega gáfulegt að raupa útí eitt um eitthvað sem maður hefur ekki hundsvit á. Óneitanlega getur verið gott að heyra hina hliðina á málinu, og sjá þessa blessuðu hamingju frá öðru sjónarhorni. Sjá hamingjuna frá sjónarhorni ómahingjusama mannsins. Ef þú vilt máttu reyna að standa í mínum sporum um stund, þessum óhreinu og óskóuðu sporum sem ég skil eftir mig hvar sem ég fer. Athugaðu hvort þú finnur ekki um leið áfengisstybbuna og lyktina af ótal ófrágengum pizzupökkum, sumum ekki alveg tómum… býður þér við mér?

En hamingjan, já. Ég er raunverulega farinn að trúa því að hún sé hreinlega ekki til. Ég held að ekkert þessara auðmenna sem skíta í gullklósett og skeina sér svo með fimmþúsundköllum séu í raun og veru og römmustu alvöru hamingjusöm. Og þessar síbrosandi og síóléttu mömmur sem tala stöðugt um það hvað hann Árni þeirra sé nú alltaf duglegur við uppvaskið, og hvað Gunni litli og Sigga séu nú góðir dansarar, innst inni hafa þær óbeit á krakkaskaranum og eru ekki stoltar af honum fyrir fimmaur. Á meðan þær horfa með gervibros (á öllu heila ofmeikaða andlitinu) á Guffu litlu stíga fyrst sporin á leiklistarsviðinu, mjálmandi í einhverju barnalegu skólaleikriti, þá láta þessar indælu mömmur leiktjöldin falla með dynk ofaná litlu kisuna og kremja hana undir níðþungu rykskýji… því þær eru ekki hamingjusamar. Og gömlu hjónin sem hafa verið gift í sextíuogþrjú ár og þykjast vera samanföst með tonnataki, þau hata hvort annað í laumi. Já, hamingjan er ekki til.

Þegar ég var fimmtán ára snáði í seinasta bekk í hverfisskólanum, þá hefði mér ekki dottið í hug að eftir átta ár yrði ég þar sem ég er núna. Sitjandi á ævagömlum tréstól, skrifandi um óhamingjuna og ekkineitt. Hugsandi til dóttur minnar. Mig dreymdi nefninlega alltaf um að verða atvinnumaður í einhverju skemmtilegu, handbolta eða fótbolta eða körfubolta, heimsfrægur söngvari og gítarleikari, eða myndlistarmaður. Og í dagdraumunum er ég þetta alltsaman, ég svíf um Wembley á Adidas Predator og öskra í mækinn á Hróarskeldu með Gibson eða Jag-stang í höndunum, hoppa hæst af öllum í NBA, svo ekki sé talað um öll fráköstin… en því miður rætast draumar aldrei. Aldrei. Samt sagði mér einusinni kennari úr barnaskóla, að ef ég maður þráði eitthvað nógu heitt og nógu þétt, þá yrði það að veruleika. En kannski þráði ég bara ekki nóg. Kannski þarf maður að vera hamingjusamur tilað geta þráð eitthvað af ölluhjarta.

Ef þig langar einhverntíman tilað hitta mig, þá þarftu ekki að gera annað en að loka augunum og hugsa stíft um upphaf þitt, litlu iðandi frumurnar í líkömum foreldra þinna sem urðu á endanum að þér… og með klækjum og nýtilkominni tækni geturðu skoðað deoxýríbósakjarnsýrur (deoxyribo nucleic acid=DNA) sáðfrumunnar og í huganum búið til mynda af mér, pabba þínum. Með ímyndunarafli geturðu síðan fegrað mig aðeins, kannski gert mig örlítið feitari og stæltari, klætt mig í einhver fín jakkaföt og klippt á mér hárið og greitt mér. Þegar því er lokið máttu mjög gjarnan laga eyrun svo þau standi ekki svona út. Ég vona innilega að þú hafir ekki fengið útstæðu eyrun mín, og vona líka innilega að þú hafir losnað við þessar skökku framtennur og þetta breska nef… hvað er verra en að líta á sjálfan sig sem Íslending, en vera svo með breskt nef? Svo geturðu stillt mömmu þinni upp við hliðina á mér, og látið okkur faðmast… þó að við höfum aldrei verið ástfangin.

Þegar ég varð ástfanginn í fyrsta skipti var það ekkert alvarlegt. Það var þegar ég var sjö ára og stelpan í íbúðinni á móti var líka sjö. Hún var lítil og þybbin, rauðhærð og með freknur, og fallegri stúlku hafði ég ekki séð. Svo hét hú yndislegasta nafni í heimi, (fannst mér þá,) Birta. Það hefði líka passað svo vel saman, Birta og Benny, Benny og Birta… en svo flutti hún og mér var alveg sama.

Þetta var öðruvísi þegar ég hitti mömmu þína. Þá fóru innyflin af stað, þeyttust um likamann í villtum tangó og þau líffæri sem áttu erfitt með þennan hraða takt féllust í hópfaðmlög og dönsuðu löturhægan vangadans sem orsakaði síðan mikla ógleði hjá mér… já, það fyrsta sem ég gerði þegar ég hitti mömmu þína í fyrsta skipti var að æla á hana. Kannski var það afþvíað ég var búinn að drekka ansi mikið, (svona einsog gengur og gerist hjá sextán ára stráklingum sem þola ekki raunveruleikann,) en ég held að það hafi verið innyflunum að kenna. Eða jafnvel henni sjálfri, því manneskja sem er svo falleg að hún kemur manni tilað kasta upp lifur og lungum einsog teningum í yatsi, hún á ekki að ganga blæjulaus um göturnar. Að minnsta kosti á hún ekki að standa í skini götuljósanna þarsem (ó)saklausir piltar sjá til. Ég margbaðst afsökunar og fór meiraðsegja með henni inná kvennaklósett að þvo hálfónýtan bolinn. Hún var pirruð í fyrstu, en þegar ég ældi aftur (sennilega útaf fegurð hennar) hélt hún að það væri ekkert að mér annað en hrein og bein flensa, og einsog sönnum umhyggjusömum kvenmanni ber að gera, tók hún mig heim með sér og kom mér í undurmjúkt og tvíbreitt rúm og breiddi yfir mig þá hlýjustu sæng sem ég hef fyrirhitt.

Þegar ég vaknaði eftir besta svefn ævi minnar reiknaði ég með að sjá, einsog venjulega, ómálaða steypuveggina, hrúgu af óhreinum sokkum í einu horninu og kannski brotna kókflösku og ofnotað bong í öðru. En veggirnir hér voru ekki kaldgráir og fráhrindandi, þeir voru með ljósu veggfóðri með bleikum rósum á, og það eina sem var í hornunum hér voru geisladiskastandar eða litlir hægindastólar. Ég steingleymdi því að ég hafði verið á stórfylleríi kvöldið áður og átti þessvegna fullan rétt á að liggja í rúminu með timburverkamenn frá Byko í höfðinu, en hundsaði þau sjálfsögðu mannréttindi mín og spratt á fætur. Ég fínkembdi húsið í leit að tilgangi lífsins og fann hann niðursokkinn í Halldór Laxness í einni af þeim ótal stofum sem voru í húsinu. Stelpuna fallegu. Hún leit hægt upp og horfði á mig stórum, grænum augum, alveg með það á hreinu hvernig heilla á íslenska karlmenn. Og í stundarbrjálæði rak hún mig aftur í rúmið, stökk sjálf á eftir og kynnti sig. ,,Ég heiti Emma.” Ég gerði eins. ,,Benny.” Og eftir örskamma stund vorum við eitt. Og 1+1=þú.

Síðan sá ég hana ekki aftur. Fallegasta mannvera jarðarinnar, og sennilega alls alheimsins, að meðtöldum öllum ófundnu sólunum og plánetunum sem sveima um skrilljónir ljósára í burtu, var horfin í þokuna og ég var nánast búinn að gleyma henni. En mundi svo aftur þegar ég sá það í sprungu á veggnum fyrir utan kvennaklósettið á þessum skemmtistað allra skemmtistaða þarsem við höfðum hittst rúmu ári áður. Bréfið. Það var stílað á “Benny með brúnu agun” og af einstakri kurteisi hafði engin útúrdrukkinn sauðurinn opnað það. Kannski allir hafi einfaldlega verið of miklir útúrdrukknir sauðir tilað taka eftir því þarna í srungunni. Og ég opnaði það, fullviss þess að á klakanum kalda byggju margir Benny-ar með brún augu, titrandi af æsingi (og útaf hávaðanum í Sálinni hans Jóns míns) og síblikkandi augunum af taugaóstyrk. Það var stuttort. ,,Þú átt dóttur. Hún heitir Eva Bríana. Fæddist í febrúar. Kv., Emma.” Þú varst þá orðin ca. hálfs árs þegar ég fyrst vissi af þér. Og strax þótti mér vænna um þig en allt annað. Það fór um mig hrollur, einsog þegar gerist stundum þegar manni líður bara skítsæmilega, þráttfyrir allt.

Ég átti einusinni litla systur. Hún hét Joan og var yndislegasta manneskja í heimi. Mér fannst ég alltaf svo sterkur þegar ég passaði hana fyrir öskrunum og barsmíðunum heima, og jafnvel ennþá sterkari þegar ég stal einhverju frá kaupmanninum á horninu handa henni. En afþvíað mamma nennti ekki að hætta ruglinu á meðan hún gekk með hana, þá var hún ósköp veik alltaf, fæddist með hjartagalla og var með allskonar ofnæmi og astma. Og þegar hún var fimm ára dó hún, sofnaði einfaldlega í kuldanum og skítnum heima og vaknaði ekki aftur. Ég var orðinn ellefu ára, en grét samt einsog tveggja ára, því nú hafði ég misst einu manneskjuna í öllum heiminum sem þótti vænt um mig.

Þessvegna vissi ég strax að þú varst ljósið, ljós heimsins, og eina ástæðan fyrir því að ég var búinn til var sú að mér var ávallt ætlað að búa til þig. Því að vissulega hafa allir tilgang, og þó að einhver sé ógeðslega ljótur, leiðinlegur og heimskur, getur vel verið að hann eigi eftir að geta af sér rokkstjörnu eða þjóðskáld. Eða bara kokk.

Mig langar að sjá þig. Þó ekki væri nema mynd af litlu tánni. Þá myndi ég allavegana vita hvort litla táin hefði það gott og liði vel. Ég reikna ekki með að þú viljir sjá mig. Ég held ekki einusinni að þú viljir heyra í mér, eða jafnvel sjá bréf frá mér. Það yrði of stórt, of mikið að ryðjast svona inní líf barns sem heldur að það eigi engan pabba. Eða kannski áttu pabba. Það er meiraðsegja mjög líklegt, svona eftir umhugsun, að svona ótrúlega falleg kona einsog mamma þín, álfkonan Emma, hafi fundið sér einhver tilað eyða ævinni með og ala upp dóttur sína. Já, sennilega siturðu núna í fanginu á gervipabba þínum, hann klappar þér á kollinn og þú strýkur á honum skeggbroddana, og mamma þín situr við hliðina á ykkur með sælubros á unaðslegum vörunum og þið horfið öll á eldinn í arninum. Því það eru alveg að koma jól og þá á allt að vera svo kósý hjá öllum. Ætli ég sendi þér þetta nokkurn tíman…

Þó að ég hafi aldrei verið og geti ekki orðið hamingjusamur, þá vona ég ekkert frekar en að þú verðir það einhverntíman, og einskis óska ég fremur en að þú sért það nú þegar. Reyndu allvega.

Þinn,
pabbi.