Flestir kannast við þuluna; “Legg í lófa karls, karls, karl skal ekki sjá”, jæja svona útskýra Íslendingar hvernig þessi þula varð til:
Það var á einum bæ, að börn voru úti hjá hól nokkrum að leika sér; var það eitt stúlkubarn ungt og tvö piltbörn eldri. Þau sáu holu í hólnum. Þá átti þessi stúlka, sem yngst var af þeim, að hafa rétt inn í holuna hendina og sagt að gamni sínu, eins og barna er háttur til: “Legg í lófa karls, karls; karl skal ekki sjá.” Þá átti að hafa verið lagður stór svuntuhnappur gylltur í lófa barnsins. Þegar hin börnin sáu þetta, öfunduðu þau þetta barn; þá hafði hið elsta rétt inn hönd sína og sagt hið sama sem hið yngsta sagði og ímyndaði sér, að það mundi hljóta eigi minna hnoss en hið yngsta hefði hlotið. En það lánaðist eigi, því þetta barn fékk ekkert nema visnaða hönd sína, þá það tók hana út úr holunni, og varð svo, meðan það lifði.