Það bar til í Rifi, vestan undir Snæfellsjökli, að sjómenn urðu tóbakslausir. Undu þeir því illa, en urðu þó að hafa það svo búið, því hvergi fékkst tóbak í kaupstöðum nær en í Hofsós og Höfðakaupstað. Vöktu þeir þá upp draug og senda hann norður til að sækja sér tóbak. Draugurinn sagðist ekki gefa farið nestislaus, því hann sagðist hafa verið kviksettur. En sá draugur þarf mat, sem lifandi hefur verið grafinn. Fengu þeir þá draugnum nesti, og fór hann svo á stað. Segir ekki af ferðum hans.
En svo bar við að nokkru síðar var maður á ferð yfir Fróðárheiði. Hann sá, hvar maður sat í brekku og var að naga bringukoll. Hafði hann fjölda marga tóbaksbita í kringum sig. Maðurinn yrðir á hann og biður hann að gefa sér upp í sig. Þegar hinn heyrir það, bíður hann ekki boðanna, heldur fer undir eins á stað. Rak hann alla tóbaksbitana á undan sér eins og fjárhóp og fór með reksturinn vestur í Rif. Er það haft fyrir satt, að ekki þryti þá Rifsinga tóbak þann vetur.