Jean Dubuffet  1901 - 1985 Einna tormeltastur og umdeildastur franskra abstraktmálara eftir seinni heimsstyrjöldina, var Jean Dubuffet. Margir telja hann samt vera einn fremsta abstraktmálara sem uppi hefur verið. Dubuffet var geysilega afkastamikill og mikill brautryðjandi í stíl og tækni.

Dubuffet fæddist árið 1901 og var lengi óráðinn, hvort hann ætti að snúa sér af nokkurri alvöru að málaralistini. Á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar málaði hann nokkur verk, en helgaði sig allan málaralistinni upp úr 1942. Hann hreyfst mjög af upphleyptri málunartækni og verk hans á þessum tima einkenndust mjög af barnsleika og léttúð. En á bak við léttúðina var alvarlegri undirtónn. Dubuffet var þeirrar skoðunar að meiri sannleika væri að finna í list barna og naívisma en í svo kallaðri alvarlegri list. Hann sótti innblástur í kúbista og dadaista, það spillta og öfugsnúna, mistökum og klaufaskap. Um þetta sagði hann sjálfur í viðtali árið 1966:
“Ég vil viðhalda slysaklessum, klaufalegum mistökum, vitlausum formum, óraunverulegum litum sem verka ekki og eru með öllu óviðeigandi, allskyns atriðum, sem hljóta að vera óþolandi fyrir sumt fólk, og stundum líst mér ekki sjálfum á blikuna, því að þau spilla oft áhrifum myndarinnar. En ég sætti mig við þau, af því að þau gefa til kynna að listamaðurinn hafi farið höndum um málverkið, þau koma í veg fyrir að viðfangsefnið verði alltof ríkjandi og hlutirnir taki á sig of ákveðið form.”
Þrátt fyrir þessi ummæli var Dubuffet mjög fær í allri efnisvinnslu. Hann hafði oft í frammi mjög óhefðbundnar aðferðir sem leiddu fram óvenjuleg áhrif eða yfirborð í myndunum.

Ég hvet ykkur til að skoða myndir hans á vef Dubuffet stofnunarinnar í Frakklandi. Dubuffet var einn af frumkvöðlum abstraktlistar í heiminum, mætti kannski segja að hann hafi verið n.k. Picasso abstraktlistar eftirstríðsáranna.

Myndir af verkum hans ofl.:
http://www.dubuffetfondation.com/index_ang.htm