Ég vil taka það fram að það var ekki ég sem eyddi þræðinum eða vildi láta eyða þræðinum, ég get örugglega verið sjálfur tekinn fyrir svona fals fyrir annan hlut, og mér væri svosum drullusama, þar sem ég veit að þetta á ekkert eftir að vera elt. En þetta er samt sem áður bannað samkvæmt íslenskum lögum og ef einhver kvartar í stjórnendur undan því að þráðurinn ýti undir eða styðji ólöglegt athæfi þá er ekkert annað við því að gera en að eyða honum.
En svona, til þess að gefa þér sannanir fyrir því að þessi lög séu til, þá hef ég grafið upp lög um skjalafals, eða 17. grein almennra hegningalaga.
XVII. kafli. Skjalafals og önnur brot, er varða sýnileg sönnunargögn.
155. gr. Hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Skal það einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.
[Sömu refsingu varðar að nota fölsuð gögn, sem geymd eru á tölvutæku formi, til að blekkja með þeim í lögskiptum.]1)
Hafi aðeins verið um lítilræði að tefla, eða miklar málsbætur eru að öðru leyti, einkum ef fremjandi hefur ekki ætlað að baka öðrum tjón, má beita [fangelsi allt að 1 ári]2) eða sektum.
1)L. 30/1998, 1. gr. 2)L. 82/1998, 72. gr.
156. gr. Sömu refsingu, sem í 155. gr. getur, skal sá sæta, sem notar skjal með ófalsaðri undirritun, til þess að blekkja með því í lögskiptum, enda hafi útgefandi þess verið gabbaður til að undirrita skjalið í þeirri trú, að það væri annað skjal eða skjal með öðru efni.
157. gr. Noti maður ófalsað skjal svo sem það varðaði annan mann en þann, sem það á við, eða með öðrum hætti gagnstætt því, sem til var ætlast, og þetta er gert til þess að blekkja með því í lögskiptum, þá varðar það sektum …1) eða fangelsi allt að 6 mánuðum.
[Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um notkun ófalsaðra gagna sem geymd eru á tölvutæku formi.]2)
1)L. 82/1998, 73. gr. 2)L. 30/1998, 2. gr.
158. gr. Ef maður tilgreinir eitthvað ranglega í opinberu skjali eða í bók eða í annars konar skjölum eða bókum, sem honum er skylt að gefa út eða rita, eða maður tilgreinir eitthvað ranglega í skjali eða bók, sem hann gefur út eða heldur í starfi, sem opinbera löggildingu þarf til að rækja, og það er gert til þess að blekkja með því í lögskiptum, þá varðar það …1) fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.
Sömu refsingu varðar það að nota þess háttar röng gögn í lögskiptum, sem væru þau rétt að efni til.
[Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga einnig við um rangfærslu og notkun upplýsinga og gagna sem geymd eru á tölvutæku formi.]2)
1)L. 82/1998, 74. gr. 2)L. 30/1998, 3. gr.
159. gr. Nú hefur opinber stimpill eða merki, er sönnun skal veita fyrir því, að hlutur sé ósvikinn, eða fyrir uppruna hans, gæðum, tegund eða magni, verið sett á hlut án heimildar eða með fölsun, og skal þá sá, sem notar hlutinn til þess að blekkja aðra með honum í viðskiptum, sæta sektum …1) eða fangelsi allt að 3 árum.
Sömu refsingu skal sá sæta, sem í sama skyni kemur því til leiðar með svikum, að þess háttar opinber stimpill eða merki sé sett á hluti, sem ekki eru til þess fallnir, eða notar slíka hluti.
Noti maður í sama skyni hluti, sem einkastimpill eða einkamerki hefur ranglega verið sett á, eða annað merki, sem á að segja til einhvers atriðis um hlutinn, sem máli skiptir í viðskiptum manna, þá varðar það sektum …1) eða fangelsi allt að 1 ári.
Refsingu eins og að ofan greinir skal ennfremur sá sæta, sem í því skyni að blekkja í viðskiptum notar hluti, eftir að stimpill, merki eða annað auðkenni, sem löglega hafði verið á hlutinn sett, hefur verið numið burtu eða rangfært.
1)L. 82/1998, 75. gr.
160. gr. Ef maður notar í atvinnuvegi sínum röng mælitæki eða vogaráhöld í því skyni að blekkja aðra í viðskiptum, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum …1) Sé sökin stórfelld, og eins ef manni verður slíkt á oftar, má þyngja hegningu allt að 6 ára fangelsi.
1)L. 82/1998, 76. gr.
161. gr. Hver, sem notar fölsuð póstfrímerki, stimpilmerki eða önnur slík merki, sem notuð eru sem sönnun fyrir greiðslu opinberra gjalda, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Lægri refsingu að tiltölu skal sá sæta, sem notar stimpilmerki eða frímerki, sem áður hefur verið notað, eftir að merkið um notkunina hefur verið numið burtu.
Það varðar sektum að búa til, flytja inn eða dreifa út hlutum, sem að gerð og frágangi líkjast mjög stimpilmerkjum, póstfrímerkjum eða öðrum slíkum greiðslumerkjum.
162. gr. Hver, sem rangfærir sönnunargögn eða kemur fram með röng sönnunargögn í því skyni að hafa áhrif á úrslit dómsmáls, skal sæta fangelsi allt að 2 árum. [Ef málsbætur eru og brot varðar ekki þyngri refsingu að lögum má beita sektum eða fangelsi allt að 1 ári.]1)
Hver, sem til þess að halla eða fyrirgera rétti annarra, eyðileggur sönnunargagn, kemur því undan eða gerir það ónothæft að öllu eða einhverju leyti, skal sæta fangelsi allt að 2 árum …1)
Nú hefur maður framið verknað þann, sem í 1. eða 2. mgr. getur, á gögnum, sem kynnu að hafa orðið af atriði um sekt hans í opinberu máli, og er þá það verk refsilaust.
1)L. 82/1998, 77. gr.
163. gr. Hver, sem í blekkingarskyni setur ranglega niður, flytur til, nemur á brott, rangfærir eða eyðileggur marksteina eða önnur merki, sem sýna skulu takmörk fasteignaréttinda, þar á meðal vatnsréttinda, skal sæta fangelsi allt að 3 árum …,1) eða sektum, ef brot er smáfellt.
1)L. 82/1998, 78. gr.
Samkvæmt þessum texta er sem sagt ólöglegt að blekkja einhvern til þess að “skrifa undir” samning.
Einnig eru notkunarskilmálar Blizzard Entertainment alveg jafn gildir samningar þótt þeir séu rafrænt skráðir. Þú samþykkir þessa skilmála þegar þú opnar reikning, þú samþykkir að allar upplýsingar séu rétt fylltar, og þú samþykkir að ef þú brýtur skilmálana sé hægt að refsa þér á einn eða annan hátt, annaðhvort með eyðingu reiknings eða jafnvel lögsóknar.
Mér sjálfum GÆTI EKKI VERIÐ MEIRA SAMA um hvort einhver stofni reikning á röngu heimilisfangi eður ei, og ef ég gæti ekki beðið þá er ég nokkuð viss um að ég myndi grípa til svipaðra bragða, en eins og ég sagði, stjórnendur brugðust RÉTT VIÐ að eyða þræðinum á lagalegum grundvelli.