Undanfarna daga hefur verið mikið hype í kringum World of WarCraft, þá sérstaklega vegna þess að beta prófanir á leiknum áttu senn að hefjast. Í gærkvöldi sprakk allt endanlega þegar í rauninni engar fréttir komu, en starfsmenn Blizzard höguðu sér einkennilega og Donna Anthony, öðru nafni Katricia, póstaði nokkrum skringilegum, en í senn vonartendrandi, skilaboðum á Battle.net spjallborðin.
Klukkan 18:00 PST, eða 02:00 GMT, varð allt vitlaust þegar þeir loksins sendu mailin til þeirra heppnu. Ég var að vísu ekki vakandi til þess að verða vitni að þessari rosalegu sprengingu, en þegar ég vaknaði klukkan 9 í morgun beið þessi yndislegi póstur eftir mér. “Velkomin/n í World of WarCraft beta prófanirnar”. Það gekk auðvitað ekkert að hika, ég dreif mig í að gera account og hlaða niður betunni. Blizzard hefur einmitt undanfarnar vikur verið að prófa nýtt dreifingarkerfi, og það féll strax grunur um það að þetta kerfi, sem nefnist bittorrent og ætti að vera einhverjum kunnugt, yrði notað til þess að dreifa betunni, en hún tekur tvö gígabæti í niðurhali (sem er auðvitað alveg alltof mikið fyrir fátæka námsmenn eins og mig, en maður lætur sig hafa það!)
Hvað um það, það tók sinn tíma að sækja þessa risastóru skrá á 160 kílóbætum á sekúndu, en ég huggaði mig við það að þegar ég væri búinn í skólanum þá yrði þetta komið og ég ætti bara eftir að installa. Það reyndist gott og gilt og hárrétt, hún beið mín bókstaflega á silfurfati þegar ég kom heim. Installið tók sinn tíma en sú bið var vel þess virði. Ég beið ekki boðanna mikið lengur og fleygði leiknum upp. Það var reyndar ekkert opnunarmyndband eða neitt þannig, það var aðeins logon skjár með The Dark Portal í bakgrunninum sem tók á móti manni. Ég loggaði mig vitaskuld inn á þetta glæsilega listaverk og fallegur bakgrunnur, auðvitað úr leiknum og mjög svipaður því sem við höfum áður séð í WarCraft III.
Ég doka vitaskuld ekki lengi við á þessum skjá heldur fer beint í persónusköpunina. Mér til mikillar furðu má sjá alla kynþættina sem verða spilaðir í lokaútgáfu leiksins á skjánum, þar sem fyrsta stig prufuútgáfunnar inniheldur bara alliance. En jæja, bara meira augnakonfekt fyrir mig. Í persónusköpun velur maður, eins og margir hafa giskað rétt á, kynþátt og klass persónu sinnar, ásamt kyni. Einnig er hægt að breyta útliti hennar á ýmsan hátt, andliti, hárlit, andlitshárum og skrauti, hárstíl og húðlit. Einnig er hægt að ýta á ‘randomize’ og þá gerir tölvan þetta einfaldlega fyrir þig, einkar hentugt og þægilegt. Fyrsta persónan sem ég skapaði mér var karlkyns dwarven warrior, Thuhark að nafni..
Allaveganna, persónan tilbúin og ég klár í slaginn. Þá er ekkert eftir annað en að ýta á ‘Enter world’ og prófa gripinn. Mynd af gryphon og reiðmanni hans birtist á skjánum, og neðst á myndinni er progress bar. Það sem kom mér nefnilega einna helst á óvart var það hvað það tók stuttan tíma að komast inn í leikinn. Þegar ekkert var eftir á progress barnum fylltist ég miklum væntingum. Og þar birtist það! Fyrsta hrunið! Já, leikurinn hrundi í rugl. Jæja, henti upp leiknum aftur, fór í gegnum logon ferlið og reyndi aftur að komast í leikinn. Sama og gerðist áður. Örvænting. Reiði. Öskur. Endurræsing. Windows hangir inni. Ekkert gerist. Engin endurræsing. Kveiki og slekk á vélinni. Ahh…
Já, það eru margar tilfinningar sem bærast innra með manni þegar svona lagað ber að garði. Því er best að halda tilfinningum sínum á tímum sem þessum. Ég fór í gegnum sama ferlið og áður, kveikja, logga sig inn, og loksins kom það! Fyrsta sýn mín af leiknum sem ég hef beðið með mikilli eftirvæntingu síðan 2. september 2001, og tveimur dögum betur! Dvergurinn minn, sköllóttur með rautt skegg, stendur á hæð og fyrir framan hann er fögur sjón af fjöllum í fjarska, og skógi í dalnum fyrir neðan. Coldridge Valley í Dun Morogh tekur á móti mér. Ég bíð ekki boðanna og fer að fikta með stjórntækin. Það er frekar einfalt að stjórna persónunni, maður notar lyklana á lyklaborðinu til að stjórna flestum aðgerðum, þó svo að músin spili stór hlutverk. Örvalyklarnir eru til þess að hreyfa persónuna. Þetta andartak minnti mig svolítið á það þegar ég fyrst tengdi mig á server í Dark Age of Camelot, í nóvember 2001 (Váh, er leikurinn virkilega orðinn svo gamall?). Maður er ekki lengi að læra á stjórnborðin ef maður les skilaboðin sem birtast þegar maður fer inn í leikinn. Reyndar ætla ég nú ekki að fara mikið meira í stjórnun leiksins en ég hef gert hingað til. Svo nú er mál að ég þegi hvað það varðar.
Ég var reyndar svolítið pirraður á upplausninni, var ekkert par sáttur við hana. Tók mig svolítinn tíma að finna hvernig átti að breyta henni, en það tókst á endanum. Tók stefnuna á 1024x768, sem spilaðist alveg ágætlega á tölvunni minni (‘specs’ neðar). Hökti reyndar smá þegar maður loggaði sig inn, annars fínt. Þegar upplausnarævintýrinu var lokið hófst hið raunverulega ævintýri. Fyrsta skoðunarferðin! Það leið ekki langur tími þangað til ég fann fyrstu veruna sem var hvorki dwarf né gnome. Það var reyndar ekki skrímsli heldur lítil og sæt kanína. Það sem er frekar krúttlegt við dýrin í leiknum er að þau hreyfa sig alveg hrikalega raunverulega. Ég fylgdist með þessari kanínu í nokkurn tíma, hún vippaði og vappaði frá einum stað til annars, og stoppaði nokkrum sinnum til að klóra sér á bak við eyrað. Svo drap ég hana. Það var reyndar alveg óvart, ég var enn að prófa stjórnborðið. En með hennar hjálp tókst mér loksins að fatta þetta.
Stefnan var tekin á skóginn fyrir framan mig. Eins og við mátti búast var krökkt af úlfum fyrir mann að slátra, einfalt að drepa þá og einfalt að fá level up. Ég tók reyndar eftir því að skills hækkuðu eftir því sem ég barðist meira. Áður en ég fer í það kerfi ætla ég aðeins að segja frá rage kerfinu. Þannig er mál með vexti að í hvert skipti sem maður heggur í skepnu fær maður fleiri rage points, en maxið á því er 100 (þannig að já, þið sem giskuðuð á prósentur, það var rétt!) Því meira sem maður er með af rage, því fleiri combat skills getur maður notað, en þá þjálfar maður með því að eyða skill points hjá sínum klass trainer. En já, með skill kerfið, þá fær maður fleiri skill points í sword fighting, combat maneuvers, shields, defence o.s.frv. eftir því sem maður berst meira og notar. Einfalt, ekki satt? Þeir sem hafa spilað hinn hræðilega leik Dungeon Siege geta notað það kerfi til viðmiðunar. Combat maneuvers eru virkilega góð hjálpartæki á móti sterkum skrímslum. Með hjálp þeirra gat ég auðveldlega hakkað niður skrímsli sem voru 3 eða 4 levelum hærri en ég.
Ég skoða mig um og rekst svo loks á NPC dverg með upphrópunarmerki fyrir ofan höfuðið, en það merkir að hann hafi quest til að gefa mér. Ég tala við hann með því að smella á hann með músartakkanum. Quest interfaceið er frekar einfalt, neðst í quest description eru myndir og lýsingar á þeim hlutum sem í boði eru ef við klárum það. Ég samþykki það vitaskuld. Eftir það ræði ég svo við annan spilara, sem var gnome mage, Golun að nafni. Við tökum þá ákvörðun að styðja við bakið á hvor öðrum í gegnum þetta quest sem okkur var falið. Verkefnið er einfalt: Að drepa tólf frostmane troll whelps og fara svo aftur til hans. Þetta var auðleyst verkefni, hann notaði galdrana sína til þess að draga tröllin að okkur og ég hakkaði þau í spað með sverðinu mínu. Tólf tröll eru auðdrepin, og við förum aftur til dvergsins að ná í verðlaunin okkar. Hann gefur okkur annað quest í veganesti, núna eigum við að fara inn í helli tröllanna, þar sem við fundum fyrri fórnarlömb okkar, og drepa leiðtoga tröllanna. Það verk var ekkert erfiðara en það fyrra, áður en ég vissi af var öxin mín, sem ég fékk fyrir fyrra questið, rennandi vot af blóði, eða hefði verið það, ef að eitthvað blóð væri í leiknum (en það er í þeim tilgangi að halda teen rating á leiknum, frekar en að banna hann innan 17). Við fórum til baka og fengum meira af verðlaunum og annað quest. Næsti viðkomustaður var svo Kharanos, en við áttum að fara með skýrslu til dvergs eins sem dvaldi þar. Á leiðinni þurftum við að fara í gegnum göng sem voru þétt setin af troggs. Þeir reyndust auðveldari bráð en tröllin sem við börðumst við, og voru þau fljótt unnin. Á leiðarenda fundum við það sem við leituðum að og fengum fyrir vikið eilítið af koparpeningum og nokkur experience points.
Þá var kominn tími til að kveðja Golun og logga mig af þessari persónu, sem ég hafði leikið mér að í um eina og hálfa klukkustund. Næst var stefnan tekin á Humans, og ég skapaði þennan undurfagra kvenmann, en hana kallaði ég Garothu. Hún var warrior, eins og Thuthark (já, ég hef mikið dálæti á warriors… það þarf ekki að spyrja að því.) Í þetta sinn ákvað ég að soloa smá. Ég skellti mér inn í keepið sem ég byrjaði fyrir utan og fékk mér quest. Sá sem gaf mér það, en sá maður var líkast til lútinant eða álíka, skipaði mér að drepa nokkra kobold vermin. Ekkert mál, ég skellti mér út, byrjaði á því að slátra nokkrum úlfum til að næla mér í level up og loot til að selja og fá kopar í staðinn. Eftir eitt level tók ég stefnuna á kóboldana, þeir reyndust vera lítið vandamál og ég var ekki lengi að slátra þeim. Það sem kom mér samt helst á óvart var að þeir réðust ekki á mann þótt maður labbaði nálægt þeim. Ég þurfti að byrja á því að berja smá í þá áður en þeir fóru í aggressive stöðu. En já, að drepa sjö eða átta svona gutta tók stuttan tíma og áður en ég vissi af var ég búinn að ná þeim. Því næst sendi maðurinn mig í næstu að drepa fleiri kóbolda, í þeirri von um að það myndi hreinsa til (hann verður fyrir MIKLUM vonbrigðum þegar hann fréttir að þessi skrýmsli spawna með stuttu millibili, hohoho). Þetta tók ekkert lengri tíma frekar en hitt questið, og áður en ég vissi af var ég búinn að ljúka þessu og hann hætti að pirra mig. Því næst ákvað ég að skoða umhverfið í kring, og komst að því að það var einn maður sem var með newbie quest þar sem maður gat gert til að áskotnast experience points. Ég reyndar vissi ekkert af því og ákvað því að gera það á level 4, en það sakaði svosem ekki, það gaf mér samt experience. Næsta quest, það síðasta sem ég gerði nú í kvöld, fólst í því að maður átti að fara og drepa nokkra þrjóta, hirða af þeim bandanas og skila inn 7 stykkjum til þess að fá verðlaun. Einfalt mál, ég hnyklaði vöðvana og stefndi í áttina að vínakri sem þeir höfðu sölsað undir sig. Það reyndist samt pínulítið meira mál en ég bjóst við, og dó ég því miður einu sinni við að klára það quest… en það í raunni skipti mig ekki miklu máli, maður fær ekki neina refsingu ef maður deyr, maður þarf bara að koma inn í ákveðinn radíus frá líkinu sínu og þá poppar upp gluggi sem spyr mann hvort maður vilji endurholdgast eður ei. Auðvitað gerir maður það, maður tapar nákvæmlega engu á því, maður heldur öllu sínu looti og missir ekkert experience… allaveganna var ekkert sem ég tók eftir. Þetta quest kláraði ég svo samviskusamlega, og eftir að það kláraðist ákvað tölvan að kveikja á norton antivirus og fá þennan óvelkomna félaga til þess að vírusskanna vélina með tilheyrandi hökti. Á endanum þurfti ég að slökkva á leiknum því höktið var hreint út sagt óbærilegt.
En já, World of WarCraft er í alla staði listasmíð. Hann lítur alveg virkilega vel út, cartoony lúkkið á honum rennur vel saman við fyrri leiki byggða á WarCraft heiminum. Það er heldur betur auðvelt að læra á þennan grip ef maður reynir, jafnvel ennþá auðveldara ef maður er kunnugur öðrum MMORPGs. Ég náði því miður ekki að prófa duels eða tradeskill systemið í dag, en kannski ég nái að kíkja á það á morgun, maður veit ekki. Leikurinn er risastór, eins og Blizzard hafði lofað okkur, og jafnvel þótt hann sé langt frá því að vera tilbúinn virðist sem fáir eða engir böggar finnist í honum eftir 4 tíma spilun.
Það er þó langt í land, beta prófanir eiga eftir að standa í marga mánuði í viðbót og það er margt sem á enn eftir að prófa. Druid klassinn og hunter klassinn voru til að mynda ekki í leiknum og player versus player kerfið er enn í hönnum svo eitthvað sé nefnt. En þrátt fyrir það þá lofar þessi fyrsta sýn mín allverulega góðu, ég held ég hafi aldrei spilað beta af MMORPG sem var jafn fullkomin og akkúrat þessi leikur. Ég ætla að vona að sem flestir fái að njóta þessa leiks á seinni stigum beta prófunar, en mér skilst að open beta verði í sumar, sem þýðir að þið getið skemmt ykkur eins og ykkur lystir við það að leita að göllum og hjálpa við það að gera leikinn betri áður en hann fer loksins á markað, en það gerist væntanlega á seinni helming ársins.
Ég vil enn og aftur benda á skjáskotahlutann, sem þið getið farið inn á með því að ýta á ‘WoW: Skjáskot’ hér uppi til hliðar.
Lifið heil, ég er farinn að sofa…
Vilhelm