Komið sæl, öll.

Þetta áhugamál er ekki fullkomið og verður aldrei fullkomið. En það eru hlutir sem hér má bæta, og þá sérstaklega með hjálp ykkar.

Fyrir það fyrsta þá vil ég benda á kubbinn hér við hliðina á sem nefnist “Um áhugamálið”. Þar eru allar helstu reglur áhugamálsins, en mér finnst eins og hann hafi algjörlega verið hundsaður. Þess vil ég minna fólk á að merka greinarnar, líkt og segir fyrir um í kubbinum. Fremst í greinartitil skal skella eftirfarandi merkingum:

[SC] fyrir StarCraft tengdar greinar
[WC3] fyrir WarCraft III tengdar greinar
[WOW] fyrir World of WarCraft tengdar greinar
[MISC] fyrir aðrar greinar, en athugið að þetta áhugamál er fyrir Blizzard leiki, svo engar fylleríssögur, greinar um hunda eða annað ótengt þessu áhugamáli.

Þetta hefur nær alltaf verið hundsað síðan þetta fyrirkomulag var sett upp. Þess vegna vil ég benda á að greinin sem samþykkt var hérna á undan er allra síðasta greinin sem mun birtast á þessu áhugamáli ómerkt. Ef einhver ómerkt grein berst inn verður henni umsvifalaust hafnað! Nú spyrja sig margir, af hverju, en ég vil til að mynda benda á greinina “Flott ”comeback“”, en titill greinarinnar segir nákvæmlega ekkert um innihald hennar, hvort hún tengist StarCraft, WarCraft eða nokkru öðru Blizzard tengdu, eða leikjatengdu. Eina merkingin sem hún hefur er að hún var send inn á þetta áhugamál, og finnst mér það alls ekki fullnægjandi, miðað við hvað það nær yfir marga hluti.

Ef þið ætlið að skrifa greinar og senda inn, þá skuluð þið einnig huga að því að hún sé að mestu leiti rétt stafsett og að maður sé ekki að lesa þetta allt í einni bunu, þ.e. setjið punkta, kommur og greinarskil þar sem við á! Greinar án punkta, komma og greinarskila eru minna lesnar en aðrar, það hefur sannað sig í gegnum árin. Helst ekki notast við skammstafanir, þeim skal halda innan leiksins.
Greinar skulu ekki vera styttri en 20 línur þegar þið sendið þær inn á áhugamálið (þ.e. í kubbnum sem þið skrifið í). 20 línur er algjört lágmark, ekki fara niður fyrir það, heh, og reynið að fara ekki niður fyrir 30 ef þið mögulega getið.
Standardar eru hærri en fólk heldur, svo virkilega reynið að vanda greinarnar sem þið skrifið, og merkja þær, eins og áður segir.

Ég vil líka minnast á þessar blessuðu skoðanakannanir. Ekki senda inn eitthvað sem hefur verið sent inn. Ekki heldur senda inn eitthvað ófrumlegt, eins og “Hver er besti blizzard leikurinn?” Reynið að hugsa eitthvað, skrifið svarmöguleika í fullum orðum, ekki skammstöfunum, og líkt og með greinarnar, vandið stafsetningu og málfar. Kannanir sem verða sendar inn héðan í frá verða að fylgja þessum skilyrðum, annars verða þær ekki samþykktar.

Auk þess vil ég líka minnast á þá reglu að warez umræður eru bannaðar hér á Huga. Þessi regla er MJÖG mikilvæg og brot á henni varðar við banni! Það sama gildir um tröllaskap, flóð og þess háttar.

Ég hvet ykkur líka til þess að senda inn strategies, fan fictions og þess háttar, ef þið hafið hug á að senda slíkt inn. Auk þess vil ég minna ykkur á að allar uppástungur sem geta bætt hag þessa áhugamáls skal sendast til mín, annaðhvort í skilaboðaskjóðuna eða þá á póstfang mitt, vilhelm@NOSPAMomg1337.com (muna að fjarlægja NOSPAM *paranoid*).

Kveðja,
Vilhelm Smári
Stjórnandi á Blizzard Leiki