Það er ansi mörgum bílum ætlað að slá út McLaren F1. Spurningin er bara hvernig við metum McLaren F1. Ef hann er bara safn af tölum á blaði verður hann sleginn út á þessu ári eða fljótlega hér eftir. Koenigsegg er með markmið að slá hámarkshraða og hröðun McLaren F1 við. Hámarkshraði á að vera yfir 400 km/klst. Það sama er upp á teningnum með Bugatti Veyron sem á að vera yfir 1000 hestöfl.
Ef við tökum hönnun, útsetningu, efnisnotkun og tækni með í reikninginn verður erfiðara að skáka McLaren F1. Við sjáum strax að Koenigsegg notar supercharged Ford V8 vél líkt og Mustang Cobra til að fá aflið sitt. McLaren F1 hafði það sem er af mörgum talið vera besta bílvél í heimi, algerlega sérhannaða 6.1l BMW V12, með engu kasthjóli. Vélin hafði langt yfir 100 hö á lítra ÁN ÞJÖPPUNAR, en togaði samt jafnt og þétt yfir allt snúningssviðið. Ef ég man rétt er McLaren F1 undir 10 sekúndur í 100 km/klst ef tekið er af stað í 3 gír og haldið áfram í honum!
Það vottar um eiginleika vélarinnar að millihröðun í gír er alltaf stórkostleg. T.d. getur yfir 700 hesta Edonis ekkki jafnað millihröðunina nema kannski að mjög takmörkuðu leyti þrátt fyrir mikið túrbótog. Eða kannski einmitt vegna túrbínanna?
Öll uppsetning, pökkun og hönnun er framúrskarandi í McLaren F1. Bíllinn hefur sæti fyrir 3 en er samt í minni kanntinum ef sambærilegir bílar eru til viðmiðunar. Það er jafnvel rými fyrir farangur!
Fyrir mitt leyti er Pagani Zonda C12S verðugastur hugmyndafræðilegur arftaki McLaren F1. Þar var reynt að skapa ofurbíl sem átti að hafa óviðjafnanlega aksturseiginleika, en jafnframt að vera keyranlegur, þægilegur og viðráðanlegur. Zonda hefur hreina hugmyndafræði sér að baki líkt og McLaren F1 og uppfyllir hana jafn vel í framkvæmd og McLaren F1. Hann er kannski ekki alveg jafn hraður, en ef við athugum hvað er í boði í dag sem slær út Zonda C12S held ég að það sé einungis Ferrari Enzo. Ef ég man rétt er Enzo þyngri en Zonda en kostar u.þ.b. tvöfalt meira. Markmiðið hlýtur að vera að búa til bíl sem er einfaldlega léttari, kraftmeiri og með betra loftflæði en McLaren F1. Og það dugar ekki að aflið komi úr ponycar mótor með blower!
Zonda er einungis 100 kg þyngri en McLaren F1 og ef við athugum það að Zonda hefur vökvaátak fyrir bremsur og stýri og fleira þess háttar sem McLaren hafði ekki erum við fljót að sjá hvaðan þessi 100 kg komu. Vélin er kannski ekki bespoke BMW, en 7.2l AMG V12 finnst mér alveg þokkalega tilkomumikið. Tvímælalaust tilkomumeira en vél úr Mustang sem er búið að fitla við!
Í hnotskurn þarf næsti Macca að vera um 1100kg (eða jafnvel minna!), um 700 hestöfl, eða meira. Hann þarf hröðun sem slær McLaren við á flestum sviðum, ekki bara 0-100 eða 0-200, og hámarkshraða helst yfir 400 km/klst. 250 mph væri ágætt markmið… Bíllinn þarf að hafa hreinræktaða aksturseiginleika sem gera ökumanninn að miðpunkti bílsins. Allt þetta þarf að sveipa glæsilegri yfirbyggingu sem hylur fullkomnasta undirvagn í heimi. Engr málamiðlanir munu duga.<br><br>Viltu lesa meira af <a href="
http://thisgeeksworld.blogspot.com“target=”blank">nöldrinu</a> mínu?