Nýliðin helgi var hörmuleg í umferðarmálum. 2 létust og margir eru slasaðir. Eitt soldið skrýtið að af þessum 3 mestu slysum var bara einn fólksbíll. Ökumaður hans lést. Hitt voru allt jeppar. En ég er að skrifa þetta vegna þess að ég lenti í slysi, sem var þó ekki jafn ömurlegt og hin. En ég var að keyra austur á landi, í ágætis veðri á malbikuðum breiðum vegi. Það var enn nokkuð bjart og ég sé ljós framundan nálgast nokkuð hratt. Þarna var á ferðinni Subaru Legacy Wagon ´93 og ökumaður fæddur 1985 við stýrið. Ég var á mjög lítilli ferð ca 60 og dró verulega úr þegar ég sé að Subaruinn var alveg skautandi á vitlausum vegarhelming. Þetta er eitt það versta sem ég hef lent í og ég beygði útaf. Gerðist mjög hratt. Sem betur fer var mikill snjór en samt var þetta frekar harkalegt fannst mér. Ég var með konunni minni og ungu barni í barnastól. Við meiddumst ekkert og bílinn er lítið skemmdur, framstuðarinn er skakkur og önnur hliðin dældaðist aðeins. Sem betur fer stoppaði Subaruinn og allir hlupu útúr honum að tjékka á okkur. Ég var nú frekar reiður, og hringdi í lögguna.
Í Subaruinum voru 6 manns, einum of mikið, ökumaður varla búinn að vera með próf nema 2-3 mánuði. Mikil áfengislykt af öllum en ökumaðurinn var samt allsgáður. Auk þess hefur hann verið á yfir 100 í hálku sem er brjálæði hjá reynslulausum ökumanni. Þetta hefði sjálfsagt sloppið til ef ég hefði ekki beygt útaf, veit það samt ekki. En ef eitthvað hefði gerst fyrir fjölskyldu mína hefði ég brjálast. Að svona ökumenn sem stofna lífi okkar allra í hættu séu til, veldur mér miklum áhyggjum. Örugglega fær ökumaðurinn einhverja sekt fyrir að vera með of marga farþega.
Þetta verður nú sennilega þessum unga ökumanni einhver lexía, vona ég. En okkur sem vorum í mínum bíl brá nú frekar mikið við þetta. Eftir viku forum við svo aftur suður til Reykjavíkur og ég ætla rétt að vona það að ég eigi ekki eftir að mæta samskonar fífli og á föstudaginn.