Mér datt nú í hug að þetta væri efni í smá umræðu.

Í frétt á vísi.is er sagt frá unglingi sem var tekinn í fyrradag á 158 kmh og mun hann verða kærður fyrir ofsaakstur í stað þess að eiga kost á því að ljúka málinu með sektargreiðslu.

Ég verð að segja að það kemur mér nú ekki á óvart. Það er náttúrulega vítavert að aka svona innan borgarmarkanna. En maður leiðir hugann að því þegar maður les svona hvort svona piltar geti ekki fengið útrás einhversstaðar annarsstaðar þar sem þeir stofna þá bara sjálfum sér í hættu.

Maður sér það í hyllingum að hér muni einhverntímann rísa akstursbraut þar sem fólk getur spreytt sig á sínum prívat bílum fyrir sanngjarnt gjald og tryggingu líkt og tíðkast í Evrópu.

Það er þó líka hættulegt og því vil ég benda á að á þessum hraða þarf afskaplega lítið að gerast svo maður geti drepið sig og aðra. Nurburgring í þýskalandi er sá staður sem er hvað vinsælastur í “track days” en hann er þó stórhættulegur. Þar eru menn þó á eigin ábyrgð og vilja samt mæta þó þar verði dauðaslys í hverri viku (reyndar eru flestir sem látast á mótorhjólum). Ef slíkt dugar ekki til að halda aftur af mönnum, þá hljóta menn að sjá að ekki er hægt að hindra með öllu ofsa akstur á götum borgarinnar, það er eingöngu hægt að reyna að flytja hann á öruggari staði eins og akstursbrautir.

Ég legg því til að þegar flugvellinum í Reykjavík verður lokað og hann fluttur að þá fái eitthvað af nýju flugbrautunum að halda sér og úr því verði gert aksturssvæði. Það er kannski ekki svo fjarlægur draumur….. hann gæti ræst innan 20 ára.