Skoda.
Hringir nafnið einhverjum bjöllum?
Ég neyðist til að deila með ykkur hugurum reynslu minni af bílnum mínum. Skoda Favorit SL ´90 árg. Hvítur. Þvílíka og aðra eins lúxuskerru hefi ég aldregi ekið.
Hann er með snúningshraðamæli og hestöfl á við graðfolastóð, og hefur síðan ég keypti hann komið mér hratt og örugglega á milli A og B. Gjörsamlega óþreytandi.
Ég fékk þennan bíl á 5000kall, ekinn 32000km og með vetrardekkjum á felgum! Kostakaup, ha?
Ótrúlega fallegt og lítið ryðgað krútt sem slær ekki feilpúst.
Reyndar lekur Vatnskassinn, hurðirnar eiga erfitt með að lokast í miklum kuldum og hann á það til að drepa á sér endrum og eins þegar hann er kaldur, og ekkert er útvarpið (sem hvorteðer er fullt af viðbjóðslegu leiðindagargi…)
En ég læt það ekki á mig fá.
Ég hef komist yfir hamingjuna í formi sjálfrennimálmhrúgalds, og ek um götur bæjarins eins og ástsjúkur herforingi.
Ef þessi elska mun deyja, mun ég vissulega syrgja hana, og skipta svo á ömmu minni fyrir annan Skoda Favorit LS ´90 hvítan.
p.s það er miklu betra að keyra Skoda í svörtum gúmmískóm frá Tékkóslóvakíu hinni föllnu.
(fást í næsta kaupfélagi).
Takk fyrir.
Stýmir Strimils.