Maður var nú bara farinn að halda að Colin McRae ætlaði ekkert að tjá sig meira um baráttu sína og “besta” vins síns Richard Burns um heimsmeistaratitil ökumanna. En það hefði bara ekki verið í anda McRae að tjá sig ekki og þá sérstaklega þegar Burns á í hlut.
McRae var spurður í viðtali í gær hvorn hann vildi sjá sem heimsmeistara, Tommy Makinen eða Richard Burns, ef svo færi að hann næði ekki að vinna titilinn. Svarið kom fáum á óvart en hann lýsti því yfir að þá myndi hann styðju Makinen.
Þetta rökstuddi hann þannig að hann væri eini breski heimsmeistarinn og hann vildi halda því þannig. Enn fremur sagði hann að Burns yrði svo montinn og fullur af lofti ef hann yrði heimsmeistari að hann myndi ekki geta komið hausnum á sér í gegnum venjulegt hurðargat. Colin McRae verður seint sakaður um að vera ekki orðheppinn maður.
Orðaval McRae var greinilega enginn tilviljun því á sama tíma í öðru viðtali lýsti aðstoðarökumaður hans, Nicky Grist, því yfir að ef Burns yrði heimsmeistari þá gæti hann ekki komið hausnum á sér inní venjulegan Peugeot 206 WRC sem hann kemur til með að keyra á næst ári heldur þyrfti hann Peugeot 806 WRC.
Nú er bara að sjá hvort að Burns eigi jafn skemmtilega brandarabók og McRae.