Ólíkt Huga, sem afþakkar allt c/p efni, er í góðu lagi að taka efni frá öðrum Wikipedium, t.d. ensku Wikipediu, og þýða yfir á íslensku. Enska Wikipedian er þegar orðin stærsta alfræðirit sögunnar (í fjölda greina) og margar greinarnar eru ítarlegar og góðar. Þessar greinar má t.d. nota sem grunn fyrir íslenskar greinar, ef maður nennir ekki að þýða þær frá upphafi til enda eða bara veit ekki hvar maður á að byrja.
Að skrifa í alfræðirit getur verið skemmtileg reynsla. Það þarf að sjálfsögðu að gæta hlutleysis og vanda til verks en það er nú þegar fjöldi annarra notenda sem er reiðubúinn að veita hjálp. Það sakar ekki að renna fljótt yfir kynningarsíðuna og handbókina áður en maður byrjar, en annars má alltaf spyrja spurninga í pottinum.
Það er vert að geta þess að það er ekki nauðsynlegt að vera skráður notandi til að skrifa eða breyta grein, en það hefur þó sína kosti, auðveldar manni t.d. að eiga samskipti við aðra auk þess sem maður getur sett upp notandasíðu þar sem m.a. er hægt að halda utan um þau verkefni sem maður hefur unnið að eða ætlar að vinna í seinna.
Íslenska Wikipedian er orðið glæsilegt ókeypis alfræðirit á netinu. Það getur orðið miklu glæsilegra og þú getur hjálpað til m.a. með því að skrifa um áhugamálið þitt: bíla.
___________________________________