Verðmunur getur verið sláandi. Fyrir mörgum árum vantaði mig lítinn gúmmí þéttihring sem átti að vera við vatnsdælu á Volvo B20b mótor.
Hann var til í Brimborg og kostaði þá um 2000 krónur (voru reyndar tveir í setti en ég man ekki hvort að pakkning við blokk fylgdi).
Mér fannst þetta frekar mikið og rúllaði niður í Bílanaust (var í þá daga sem verðlag var í lagi hjá þeim). Þar keypti ég sett sem innihélt:
Vatnsdælu
2 hringir fyrir N/A mótor
2 hringir fyrir Turbó mótor
1 hring á rör sem kom í hlið dælunnar (og ég er búinn að gleyma hvert lá)
og pakkningu við vél
Ég verslaði að sjálfsögðu við Bílanaust, og hef ekki ennþá skilið hvernig gúmmíhringur gat verið dýrari en heil vatnsdæla með öllu.
Á þessum tíma var ég orðinn svolítið hvekktur á skiptum mínum við Brimborg en þetta var ekki eina dæmið sem fór í mínar fínustu. Ég fór verulega illa útúr því þegar þeir reyndu að stilla bíl fyrir mig og klúðruðu því algjörlega, og rukkuðu mig um verulega hærri fjárhæðir en ég hafði fengið uppgefið í síma (um 22.000 í stað 9.500) og ég fór út með bíl sem var ókeyrandi (þangað til að einn vinur minn reddaði því með skrúfjárni á nokkrum mínútum sem þeir gátu ekki með alla sína mæla á mörgum klukkustundum (m.v. reikninginn).
Mér skilst þó að þeir hafi tekið vel til hjá sér á síðustu árum, en svona situr nú samt alltaf svolítið í manni.
Þessvegna varð ég svolítið undrandi þegar ég heyrði á tal tveggja manna rétt áðan. Þar var maður að koma með varahluti í Stál og Stanza og var að segja frá því að það hefði verið sexfalldur munur á því hvort hann keypti hlutina hjá Brimborg eða á þeim stað sem að hann keypti hann á.
Hann var með lítinn kassa og í honum voru einhverjar legur og dót sem áttu að kosta 30.000 í Brimborg en kostuðu 5.000 þar sem að hann keypti þetta.
Ég get alveg skilið að orginal varahlutir séu eitthvað dýrari, og í sumum tilfellum skýrist það af meiri gæðum, en þetta finnst mér vera full mikill munur til að skýra það.
JHG