fyrst svar til givar:
Ég vildi að satt væri að þetta væri svona auðvelt að sjá algerlega fyrir á hvaða bíl maður hagnast og á hvaða bíl maður tapar. En því miður er það ekki svo.
Þegar umboð eins og Brimborg tekur uppí um 1000 bíla á ári og selur (vonandi) 1000 bíla líka þá er stöðugt verið að taka áhættu. Hún getur verið margvísleg. Sölumenn geta gert mistök, eigandi segir kannski ekki alla söguna, rangt mat okkar á “réttu verði”, markaðurinn breytist skyndilega vegna einhverra aðstæðna, ábyrgðarkröfur eru að aukast, óvænt bilun t.d. ef vél fer í bíl og viðgerð kostar 500 þús., o.s.frv.
givar finnst mikið að hagnaður á þessari Corollu sem hann nefnir var kr. 90.000 og segjum sem svo að hann væri sáttur við kr. 50.000. Því þarf að selja 10 svona Corolla bíla til að borga ein mistök eins og t.d. vélarbilun sem ég nefndi að ofan. Og þá er eftir að hagnast á öðrum 20-30 bílum til að borga kostnað og síðan öðrum 10 bílum til að skila hagnaði. Og í þessu dæmi er bara gert ráð fyrir einu óhappi. Nei, þetta er ekki svona einfalt.
Og síðan má ekki gleyma eins og Mal3 bendir réttilega á að sölumenn þurfa laun (hef ekki ennþá fundið þann sem vill vinna frítt), borga þarf húsaleigu, vaxtakostnað, áhættu vegna affalla á meðan bíll stendur í sölu, ljós, hita, rafmagn, auglýsingar, tölvukostnað o.s.frv.
Ég er ekki viss um að menn átti sig almennt á að viðskipti með notaða bíla ættu ekki að lúta neinum öðrum lögmálum en með aðra vöru. Og á alla vöru þarf að leggja á álagningu. Álagning á síðan að borga allan kostnað plús hæfilegan hagnað eins og ég nefndi hér fyrir ofan.
En það er líka annað sem menn ættu að hafa í huga því viðskiptavinurinn sem setur bílinn uppí hefur tvo kosti. Hann getur sett uppí hjá umboði eða selt sjálfur. Og það eru þessir kostir sem þarf að bera saman. Hjá umboðinu fær hann ákveðið verð og innifalið er ákveðin þjónusta, sölulaun (sem venjulega eru 2-3%), öll áhætta, vaxtakostnaður, tryggingar, afföll ef bílinn selst ekki strax aftur, og síðast en ekki síst er hann að fá staðgreiðslu og þarf því ekki að óttast að fá ekki bílinn greiddan. Í staðinn losnar hann við alla áhættu og allt vesen. Síðan er eina spurningin hvort eiganda bílsins finnst hann vera borga of mikið eða hæfilega fyrir þessa þjónustu. Ef honum finnst þetta of mikið þá segir hann einfaldlega nei takk og selur bílinn sjálfur. Eða fer til einhvers annars keppinautar. Nóg er samkeppnin. Gæti ekki verið einfaldara.
Síðan svar til bebecar:
Að mínu viti ert þú sammála mér í einu og öllu en í raun ertu að segja að þú vilt láta plata þig aðeins. Í dæminu sem ég nefndi fyrr þá er niðurstaðan sú sama fyrir báða kúnnana þ.e. kúnnann sem staðgreiðir og kúnnann sem sett bíl upp í. Að því gefnu að “rétta uppítökuverðið” sé rétt.
Og varðandi þann sem setti bílinn uppí þá ætti ekki að skipta máli fyrir hann hvort hann setur bíl á 500 þús. uppí og borgar 500 á milli upp í milljón eða setur bíl uppí á 400, fær 100 þús. í afslátt og borgar 500 á milli. Það er í raun alltaf milligjöfin sem skiptir máli en ekki uppítökuverðið. Nema fyrir þá sem vilja láta blekkja sig. Þá fara þeir á bílasölu sem bætir svona ca. 500 þús. ofan á söluverðið og býður síðan 300 þús. króna hærra uppítökuverð og sá sem setur uppí verður gífurlega ánægður og telur sig hafa gert frábær kaup og “platað” hinn upp úr skónum.
Nei takk, má ég þá ekki frekar biðja um eðlilega viðskiptahætti og rétt söluverð, rétt uppítökuverð og síðan milligjöf sem menn sættast á.
Þú segir að þú sért sammála mér varðandi að verð á notuðum bílum sé hátt á Íslandi. Enda er það staðreynd. En það er nú reyndar alltaf svo að sá sem er að selja finnst hann alltaf fá of lítið og sá sem er að kaupa finnst hann alltaf borga of mikið.
Þú segir að erfiðara sé að stýra lager notaðra bíla en nýrra. Að mínu mati er þetta rangt. Hvorutveggja er erfitt en mögulegt en til þess þarf að beita mismunandi aðferðum. En til þess að stjórna lager notaðra bíla þarf að viðurkenna ákveðnar staðreyndir fyrst. Og þar hefur skort á að mínu mati. Þá fyrst er hægt að ganga í málið.
Með kveðju
Brimborg
Egill Jóhannsson