Það veit alltaf á gott að byrja grein á titli sem er í sjálfu sér rangfærsla. Ódýrir sportbílar hafa þrifist vel um árabil í Japan, í formi bíla eins og Suzuki Cappuccino. Einhverjir munu strax rísa upp á afturfæturna og mótmæla því að “púdda” eins og Cappuccino sé kallaður sportbíll, en ég horfi ekki til hestaflatölu heldur hönnunar og eiginleika og skv. því er vasabíllinn frá Suzuki sportbíll.
Ástæðan fyrir því að bílar sem þessir hafa átt velgengni að fagna í Japan má rekja til löggjafar sem er mjög hagstæð bílum sem eru undir vissri stærð og vélarafli. Á vesturlöndum hafa aðstæður verið aðrar. Síðasti ódýri sportbíllinn sem markar einhver spor hefur líklega verið MG Midget, sem hætt var að framleiða 1979. Endalok þeirrar línu er varla jafn auðútskýrð og gengi ódýrra smásportbíla í Japan. Hnignun bresks bílaiðnaðar má líklega kenna um, auk tilkomu bíla eins og Mini og Golf, sérstaklega þá sportútfærslum þeirra.
Ákveðin endurreisn átti sér stað þegar Mazda setti MX-5 á markaðinn 1989. Þó til aðgreiningar vil ég ekki kalla MX-5, og þá gerð bíla sem spratt frá dauðum við frumkvæði Mazda, ódýra sportbíla samanborið við Suzuki Cappuccino og MG Midget. Frekar er um að ræða sportbíla á “viðráðanlegu” verði, enda kosta svona bílar skildinginn þótt þeir séu meðal ódýrustu sportbíla.
Það má samt teljast með ólíkindum að fyrirtækið sem ætlar að endurvekja ódýra sportbílinn á vesturlöndum sé DaimlerChrysler. Micro Car Company deildin (MCC) hefur áður gert Smart bílinn alræmda, sem má segja að hann standi undir nafni, enda ákaflega hugvitsamleg hönnun. Og bráðlega kemur ný gerð frá MCC, vasasportbíllinn Smart Roadster. Þótt með hinum upprunalega Smart og hinum nýja Roadster sé vissulega fjölskyldusvipur eru þetta alls ólíkir bílar. Þeir sem hafa séð MCC Smart gleyma því seint enda er hann ekki nema 2,5 m á lengd en yfir 1,5 m á hæð! Roadster er öllu lægri, eða tæplega 1,2 m, sem er sambærilegt, eða lægra en, t.d. Mazda MX-5. Lengdin er að nálgast 3,5 metra sem er samt meira en hálfum metra styttra en flestir bílar sem hér á landi flokkast sem millistærðar bílar, eða enn og aftur Mazda MX-5.
Þrátt fyrir muninn er næstum 35% þeirra hluta sem notaðir eru í sportbíllinn fengnir úr Smart smábílnum. Útfærsla er enda lík, þriggja strokka línuvél liggur þversum á milli afturhjólanna sem hún drífur. Vélin í smábílnum er 599 rúmsentimetrar og skilar frá 45 og upp í 61 bhp. Sportbíllinn fær stærri vél, eða 698 rúmsentimetra, sem líkt og minni vélin notar túrbínu til að skila góðu afli m.v. rúmtak, ásamt 4 ventlum á strokk. Fyrst verður boðið upp á 82 bhp vél en seinna kemur 68 bhp útgáfa.
82 hestöfl hljómar ekki sem mikið, en þegar gætt er að því að Smart eru alltaf í fjaðurvigtarflokki ætti bjartsýni að aukast. Roadster vegur einungis 790 kg og hefur því úr yfir 100 hestum á tonn úr að spila. Þrátt fyrir það er hröðun frá kyrrstöðu í 100 km/klst um 12 sekúndur, en útskýringa er mjög líklega að leita í Softip gírskiptingunni. Hún er 6 gíra með sjálfvirkri kúplingu, skipt er um gír með gírstöng í gólfi eða flipum bakvið stýri. Því miður virðist erfitt að fá skiptingu með sjálfvirkri kúplingu til að vinna vel með afllítilli vél. Þegar bíllinn er kominn á ferð mun hann vera líflegri en hröðun úr kyrrstöðu gefur til kynna.
Og þegar á ferð er komið mega þeir sem hrífast af snaggaralegum aksturseiginleikum eiga von á góðu. T.d. líkti blaðamaður Evo Magazine Smart Roadster endurtekið við Porsche 911! Það er ekki fráleit samlíking þegar maður skoðar útfærsluna aftur í samanburði við Porsche 911 Turbo; 3 strokkar á móti 6 á milli afturhjóla, ein túrbína á móti tveimur, afturdrif á mót aldrifi. Smart er eins og hálfur 911. Reyndar líkti sá blaðamaður Smart Roadster einnig við Lotus Elise án óþægindanna og ennfremur vildi hann meina að þessi bíll skaraði fram úr t.d. vélarminni gerð MX-5. Ef satt er mun Smart Roadster verða “icon” fyrir bílamenningu nýrrar aldar, af því gefnu að bíllinn vinni hug og hjörtu almennings.
Til að blettur komi ekki á táknmyndina er best að halda tilvonandi ökumönnum á veginum. Með þyngdardreifingu sem er 40/60 gæti Smart Roadster komið einhverjum ökumanninum á óvart. Til að tryggja að leikur endi ekki í tárum fær bíllinn fullkominn ESP stöðugleikabúnað eins og vasa-Benz sæmir. En ESP er í raun bara trygging frekar en nauðabjörgun, svo vel virðast eiginleikar bílsins hafa heppnast. Fyrir áætlað verð upp á um 10þ. pund í Bretlandi virðist maður fá ákaflega mikið fyrir peninginn. Til samanburðar er þetta líkt verð og t.d. Citroën Saxo VTR og Skoda Fabia 1.4 16v seljast á þar í landi. Á móti notagildi smábílanna býður Smart Roadster upp á eiginleika sportbíls, Mercedez Benz gæði, yfirburða sparneytni og framúrskarandi stíl. Sætin eru vissulega bara tvö og farangursrými ekki stórt, þó það sé til staðar. Fyrir þá sem leggja áherslu á notagildi kemur einnig (furðulega nefndur) Roadster Coupe, sem samt verður með e.k. targa topp.
Fyrir peninginn virðist Smart Roadster ýta á alla réttu takkana; nýjasta tækni í litlum, snattvænum bíl (skipting hefur “Softouch” sjálfskiptiham) sem er sparneytinn, sportlegur og eigulegur. Borgarbíll og sportbíl mætast í einum og sama bílnum, bíl sem virðast kjörinn fyrir nútíma lífsstíl fjölmargra borgarbúa.
Helsta heimild: Evo, 48. tbl.