Sæl öll.
Ég hef nú lengi ætlað að demba inn grein og helst skora á forvarnarfulltrúan að svara fyrir sig.
Þannig er mál með vexti að forvarnarfulltrúi VÍS er búin að vera mjög duglegur síðustu ár að koma fram í sjónvarpi og útvarpi og skrifa greinar í dagblöðin.
Fulltrúinn er eiginlega orðin að einskonar markaðsmanni sem gerir í því að koma með fullyrðingar sem skapa hörð viðbrögð almennings. Þetta er væntanlega gert undir því yfirskini að koma af stað umræðu um hin ýmsu mál. Það hefur hinsvegar gerst í mörgum ef ekki flestum tilfellum að þessi forvarnarfulltrúi fer með fleipur og rífst við viðmælendur sína líkt og í ræðukeppni.
Hún er alls ekki málefnaleg og hefur greinilega sjaldnast kynnt sér málin almennilega en það stöðvar hana ekki í að ryðjast fram á ritvöllinn með fullyrðingar. Ekki stöðvar það hana í því að halda fram tómri vitleysu í sjónvarpi og útvarpi.
Það eru þrjú mál sem eru mér hvað minnistæðust frá þessari konu, eftir fyrsta málið þá ætlaði ég að skrifa grein, líka eftir annað málið sem ég hef reyndar oft skrifað um á öðrum nótum, en nú um helgina kom þriðja málið fram og mælirinn er fullur.
Fyrsta málið er eftirfarandi. Eins og flestir vita hefur VÍS lengi boðið uppá sænska barnabílstóla til leigu og síðar til kaups. Í fyrstu voru þessir stólar eingöngu leigðir til viðskiptavina en þessir stólar reyndust víst nokkuð vinsælir og því var öllum boðið upp á þessa stóla.
Það eru allnokkur ár síðan að VÍS bauð fyrst upp á þessa bílstóla eða árið 1994. VÍS vill meina að þetta séu “einhverjum öruggustu barnabílstólum sem völ er á í heiminum í dag”. Þessari fullyrðingu hefur VÍS haldið á lofti þrátt fyrir að þessir stólar séu ekki meðal virtustu tegunda í heiminum og í raun mjög sjaldgæfir. Ekki nóg með það heldur hafa þessir stólar lítið sem ekkert breyst frá því 1994 eða í 8 ár. Á átta árum hafa orðið mjög miklar framfarir í bílstólum svo ekki sé minnst á öryggisbúnað bifreiða og á sama tíma hafa aðrir framleiðendur breytt sínum stólum að jafnaði á tveggja ára fresti þar sem alltaf koma fram nýjungar sem gera stólana betri og einfaldari í notkun.
VÍS hefur ítrekað haldið fram að bílstólar sem snúa baki í aksturstefnu verndi börn betur en bílstólar sem snúa í akstustefnu. Fyrir þessu eru engar sannanir. Þvert á móti er líklegra og fyrir því eru sannanir að bílar lendi í árekstrum frá hlið eða aftanákeyrslum. Bílar lenda nær aldrei í árekstri framaná hvorn annan, en það er grundvöllur þess að betra sé að vera með bakvísandi bílstól. Í aftanákeyrslu skiptir vissulega máli í hvorum bílnum barnið í stólnum er.
Sænska fyrirtækið lét fara fram könnun þar sem athugað var hvað hentaði best. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að sýnir stólar væru bestir þrátt fyrir að aðrir þekktir framleiðendur hefðu ekki verið teknir til skoðunar og það hlýtur að teljast ólíklegt að þeir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að sýnir eigin stólar væru verstir. Sérstaklega m.t.t. að þeir kostuðu könnunina sjálfir.
Það eru ákveðin atriði sem skipta mestu máli við öryggi barnsins. Vissulega þarf stóllinn að vera öruggur. En það skipti ekki síður máli og jafnvel meira máli að hann sé það auðveldur og einfaldur í notkun að hann sé alltaf rétt notaður. VÍS stólarnir eru erfiðir í festingu og hafa einungis þriggja punkta belti í öllum tilfellum. Aðrir bílstólar hafa allt upp í fimm punkta belti og eru sáraeinfaldir í notkun og auðvelt að festa þá rétt í bílana. Það þarf engin að reyna að ljúga því að mér að belti sem kemur yfir báðar axlir, báðar mjaðmir og klof haldi barni ekki betur heldur en þriggja punkta velti. Börn eru ekki mjög herðabreið og slíkt belti situr sjaldnast á réttum stað.
Annað skiptir máli þarna, uppað þriggja ára aldri snýr barnið baki í akstursstefnu. Það þýðir að lítið barn í þriggja punkta belti sem heldur því ílla og er sífellt á hreyfingu er ekki í sjónlínu foreldra sinna og getur því auðveldlega klætt sig úr beltinu án þess að foreldrarnir taki eftir því.
Þetta eru aðeins nokkur atriði sem mér finnst mikilvægt að benda á í rangfærslum með þessa bílstóla.
Mál númer tvö. Forvarnarfulltrúi VÍS hefur ítrekað haldið því fram að allir eigi að keyra á negldum dekkjum yfir vetrartímann. Þrátt fyrir að það gangi þvert á hagsmuni þeirra sem líftrygginga og sjúkdómatryggingasala þar sem fólk er tryggt fyrir veikindum eða dauða vegna t.d. krabbameins. Nú er það vitað mál að svifryk vegna malbiks eykur líkur á krabbameini og á veturnar hefur magn þessa ryks farið yfir hættumörk oftar en einu sinni og það stundum í nokkra daga í senn.
Forvarnarfulltrúi VÍS hélt því blákalt fram að það væri meira í húfi að bjarga fólki frá bílslysum með því að nota nagladekk heldur en að forða fólki frá öndunarsjúkdómum og veikindum þeim tengdum.
Það er staðreynd að flest slys í hálku eru minna alvarleg en slys sem verða t.d. að sumri til í góðu færi þegar fólk ekur hraðar. Ég held að tryggingafyrirtækin séu hér að bera fyrir sig að þau vilji fækka slysum á fólki þegar þau eru raunverulega að reyna að draga úr tjónakostnaði vegna ökutækja. Langflestir árekstrar að vertralagi valda eingöngu skemmdum á ökutækjum en ekki meiðslum á fólki.
Það er líka ótrúlegt að forvarnarfulltrúi VÍS skuli setja sig á móti nýjungum eins og harðkornadekkjum og loftbóludekkjum og mæla með nagladekkjum þegar hin dekkin veita betri vörn að jafnaði. Það má ekki gleyma því að flestir árekstrar verða hér í höfuðborginni og hér var snjór í 4 daga í fyrra, hálka kannski í 10-20 daga!
Nú síðast til að fylla mælin var svar yfirlögregluþjóns í Reykjavík í Morgunblaðinu um helgina sem svarar ásökunum forvarnarfulltrúa VÍS þar sem hún ásakar lögregluna um að hafa dregið úr akstri og eftirliti. Ég held að flestir sem eigi bíla og keyra eitthvað að ráði geta vottað það að lögreglan er miklu oftar sjáanleg en hún var. Bara í morgun sá ég 4 lögreglubíla á leiðinni í vinnuna. Það er ekki langt síðan að maður sá eingöngu lögreglubíla á kvöldin við hraðamælingar. Núna getur maður átt von á löggunni hvar sem er og hvenær sem er.
Lögreglumaðurinn sýndi fram á með góðum súluritum að forvarnarfulltrúinn fór með rangt mál. Hún byggði ásakanir sýnar eingöngu á tilfinningu eins og hún hafi ætlað að raka að sér atkvæðum á pólitískum fundi. Hún hafði ekki fyrir að athuga hvernig málum væri háttað. Þó er hún í starfi sem ætti að gefa henni tækifæri og tíma til að athuga þessa hluti.
Ég hvet því alla til að taka VÍS með fyrirvara. Tryggingafélagið og sérstaklega forvarnarfulltrúi þess hefur unnið gegn almannaheill í mörg ár og það á mjög annarlegur forsendum, í þeirri trú að það að rakka niður aðra skili þeim viðskiptavinum sem treysti á ímynd VÍS sem tryggingafélagsins sem hugsar um öryggi viðskiptavina sinna fyrst og fremst.