BITTER CD 1973-1979 Þýskur gæða Coupé. Sæl öll sömul.

ég hef rekist á þennan bíl annað slagið á netinu til sölu og það oftast á ágætis verðum. Mjög margir myndu sennilega ekki taka eftir þessum bíl eða veita honum athygli en fyrir mína parta þá á þessu bíll mjög sérstakan stað í mínum huga.

Ástæðan fyrir því er sú að þegar ég var lítill drengur líklega um 6-7 ára gamall þá átti ég svona leikfangabíl (í stærri gerðinni, með opnalegum hurðum og húddi o.s.frv). Ég man alltaf vel eftir bílnum sem var silfurgrár á lit og hét BITTER CD og var minn dýrmætasti gripur í dótasafninu (mér fannst hann nefnilega lang flottastur). Ég kunni hinsvegar aldrei nein frekari deili á bílnum fyrr sirka 20 árum síðar.

BITTER var í rauninni sjálfstæður bílaframleiðandi svipað eins og Alpina, RUF eða AMG voru á þessum tíma. BITTER, skýrt í höfuð stofnandans, Erich Bitter, framleiddi stóra Coupé bíla sem voru í flestum tilfellum byggðir á grunni stórra Sedan bíla frá Opel.

BITTER CD var upprunalega hugmyndabíll hjá Opel sýndur fyrst 1969 þá hannaður af ítalska hönnuðinum PIETRO FRUA, bíllin ber þess greinilega merki að vera af ítölskum ættum. Bitter tók þessa hugmynd upp á sína arma og fékk leyfi Opel til að framleiða bílinn. Hann fékk BAUR verksmiðjurnar til að smíða bílana fyrir sig en margir kannast við BAUR útgáfur af BMW bílum með einskonar tuskutopp sem dregin er yfir þverbita aftan við framsætin. BAUR fyrirtækið var þekkt fyrir mikil smíðagæði og þóttu BITTER bílarnir sérstaklega vandaðir stórir Coupé bílar og öttu kappi við sambærilega bíla frá BMW, Benz og ítalska Coupé bíla.

Bílinn var með Chevrolet 5.4/5.7 lítra V8 vél sem skilaði 230 hestöflum við 4700 snúninga og var hún tekinn óbreytt úr hinum ógurlega ljóta OPEL DIPLOMAT V8. BITTER var einnig byggður á styttri gerð DIPLOMAT bílsins. Bíllinn þótti vera mjög góður kostur með þessari vél, stór og rúmgóður 2+2 Coupé með gríðarlega togmikilli vél sem togaði 427 NM við 3000 snúninga. Bíllinn vigtaði reyndar 1762 kíló þannig að hröðun var nú ekki mjög mikil en þótti þó nokkuð góð á þessum tíma. Hann náði 100 kmh á rúmlega 9 sekúndum og hafði 210 kmh hámarkshraða.

En auðvitað var þetta ekki bara flottur “OPEL”, fjöðrun var talsvert endurbætt fyrir BITTER og þeir voru allir sérstaklega vel útbúnir, sjálfskiptir og að sjálfsögðu með afturdrifi en auk þess voru þeir að nær öllu leiti handsmíðaðir. Yfirbyggingin var einnig mun stífari en á Opel bílunum og það er merkileg staðreynd að flestir af bílunum sem voru smíðaðir eru ennþá á götunum.

Þessir bílar urðu þó fyrir því óláni að lenda í orkukreppunni á miðjum sjöunda áratugnum. Það sem fór vel af stað með 176 pöntunum á frumsýningu bílsins endaði í 395 bílum sem voru eins og áður sagði framleiddir frá 1973-1979. Það er því ljóst að þessi bíl er mjög sjaldgæfur en engu síður hefur hann notið talsverðrar hylli hjá almenningi þar sem hann var all þekktur og vinsæll í sjónvarpsþætti og bíómyndir þessa tímabils. Sá árangur verður að teljast nokkuð góður í ljósi þessa takmarkaða upplags.

Þetta er einn af þeim bílum sem ég myndi gjarnan vilja hafa í bílskúrnum hjá mér og hann sameinar nokkuð mörg góð mál saman í eitt meistarastykki. Ameríska V8 vél, ítalska hönnun og þýska gæðasmíði!

http://www.bittercars.com/