Facel Vega HK500, einn af teiknimyndabílunum. Ég var á einhverjum tímapunkti búin að lofa sjálfum mér að henda inn greinum um uppáhalds bílana mína sem má finna í teiknimyndasögum. Ég var búin að henda inn grein um Honda S800 sem mátti finna í Sval og Val og nú er komið að Tinna bókunum.

Bíllinn sem um ræðir var í eigu Kolbeins Kafteins en eins og allir vita þá er hann mikill smekkmaður á konur, bíla og viskí. Hann býr líka á ættaróðalinu Myllusetri og þarf að eiga bíl við hæfi.

Ég er því miður ekki búin að finna í hvaða bók hann Kolbeinn var á Facel Vega en það eru til myndir af honum í þessum bíl og ég mundi sérstaklega eftir þessu. Kolbeinn er reyndar frekar sjaldséður undir stýri enda er hann sjaldnast allsgáður.

Facel Vega voru franskir bílar og voru á sínum tíma það allra flottasta sem kom frá Frakklandi, ég held reyndar hreinlega að frakkar hafi ekki gert nálægt því eins glæsilega bíla síðan Facel Vega ef undanskilin er Citroen DS en þeir bílar eru náttúrulega gjörólíkir í hönnun og þankagangi.

Markmiðið var að endurskapa hina glæsilegu GT bíla millistríðsáranna frá Bugatti, Delages og Delahayes. Glæsileg hönnun einkenndist af miklu gleri í yfirbyggingu og mjóum gluggapóstum. Bílarnir voru lágir og mjög rennilegir, en jafnframt mjög stórir og nálægt tveimur tonnum að þyngd.

Ég hef hrifist af þessum bílum alla tíð síðan að ég sá þá í Tinnabókunum en það er mjög lítið um upplýsingar um þessa bíla á netinu þannig að ég verð að skrifa þetta mikið til eftir minni.

Frakkinn JEAN DANINOS átti heiðurinn af Facel Vega bílunum og hafði reyndar líka unnið við hönnun á Citroen Traction Avant, einum mesta tímamótabíl síðustu aldar. Hann átti og rak fyrirtæki sem hannaði allt frá eldhúsvöskum til vélahluta í flugvélahreyfla. Fyrsti bíllinn leit dagsins ljós 1954 og þá eins og síðar var notast við V8 vélar frá Chrysler eins og margir aðrir lúxusbílaframleiðendur evrópu gerðu.

HK500 bíllinn var merkilegur fyrir þær sakir að vera í raun síðasti lúxus bíllinn sem var framleiddur í Frakklandi. Það má ekki blanda þessu við lúxus útgáfur af hinum og þessum bílum. Þetta voru eingöngu lúxusbílar á sama stigi og Bristol, Rolls Royce og Bentley, Maserati og aðrir álíka bílar.

Framleiðslutími þessara bíla var reyndar afskaplega stuttur eða aðeins 10 ár til 1964. Sambandið við Ameríku var sterkt þar sem Chrysler vélarnar sem knúðu bílana voru lykilatriði í þeirri gæða ímynd sem fyrirtækið hafði. Þeir buðu uppá 4.5, 5.8 og loks 6.3 lítra vélar. Samskonar vélar voru reyndar og eru ennþá í boði í Bristol bílum sem ég hef einhverntímann skrifað grein um. það má líka geta þess að Bristol bílar eru með dýrustu bílum í heiminum en þetta voru samkeppnisbílar á sínum tíma.

Þessir bílar voru ógurlegar kerrur. V8 vélarnar skiluðu frá 330 til 360 hestöflum og 480 NM við 2800 snúninga. Hámarkshraðinn var ótrúlegur fyrir bíl frá fimmta áratugnum, 247 kmh hámarkshraði! hröðun var alls ekki slæm en HK500 náði 100 kmh á 8.4 sekúndum.

Bílarnir eru ótrúlega glæsilegir og vel hannaðir. Þeir voru að sjálfsögðu leðurklæddir og óvenjulegir að innan að því leiti að í stað þess að vera með viðar og leðurmælaborð einsog gjarnan tíðkaðist í lúxusbílum var HK500 með málað stál í stað viðarins.

Bílarnir nutu mikilla vinsælda í Bandaríkjunum og eru flestir þessir bílar staðsettir þar í dag, en líka mikið af þeim í meginlandi Evrópu.

Framleiðslan leið undir lok 1964 þegar Facel Vega gerði misheppnaða tilraun með að hanna og framleiða sýnar eigin 4 strokka vélar og eftir það var ekki aftur snúið.

Verðið á bílunum var mjög svipað verði á Rolls Royce, Bentley, Aston Martin, Bristol og Ferrari. Á endanum urðu frakkarnir að láta í minnipokann fyrir bresku GT bílunum eftir að hafa smíða rúmlega 1100 Facel Vega bíla í 7 gerðum, þeirra frægastur er HK500.



http://www.facelvega.de/

http://www.fa cel-vega-ig.de/

http://www.geocities.com/MotorCity/S how/2564/facel-vega.html