Margir af þeim, sem eru ósáttir við bannið við dökkum filmum í framrúðum og fremri hliðarrúðum ökutækja, halda að engin rök liggi við þessu banni. Það er auðvitað af og frá. Allskyns mis- og rangtúlkanir eru auk þess í gangi. Ég held að rétt sé að koma á framfæri ýmsum staðreyndum áður en lengra verður haldið með þessa umræðu.
Í 9.gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja, nr. 411/1993, lið 09.10 (5), segir:
“Óheimilt er að þekja framrúðu og fremstu hliðarrúður að hluta til eða alveg með litarefnum eða með litaðri plastfilmu”.
Það er meginregla samkvæmt evrópskum reglum um gerð og búnað ökutækja, í þessu tilfelli gerð og búnað rúðuglers, að ef um einhvers konar litaðar eða mattar rúður er að ræða verða slíkar rúður að vera innifaldar í gerðarviðurkenningu ökutækisins. Með tilskipun ráðherraráðs Evrópubandalagsins nr. 92/22 er aðildarríkjum gert að stefna að samræmdum kröfum er varða öryggi, gerðarviðurkenningu og sameiginlegar framleiðslu- og prófunarkröfur rúðuglers í vélknúnum ökutækjum. Þessar reglur eru hluti af EES samningnum og hafa því gildi hér á landi.
Það er ríkjandi lagatúlkun dómsmálaráðuneytisins, sem ber ábyrgð á þessum málaflokki, sem einnig styðst við lagatúlkun samsvarandi ákvæða meðal helstu nágrannaríkja, að ekki séu fyrir hendi neinar lagalegar heimildir til undanþágu frá umræddu reglugerðarákvæði, en ákvæðið á rætur í tilskipunum Evrópubandalagsins. Þannig setur 9. gr. reglugerðarinnar, liður 01.03 þá lágmarksviðmiðun, að ljósgegnumstreymi framrúðu og fremstu hliðarrúða skuli innan eðlilegs sjónsviðs vera a.m.k. 70%. Ekki er unnt að gera undantekningar frá því viðmiði.
Rökin bak við þetta eru öryggisrök, þ.e. að aðrir ökumenn og vegfarendur, t.d. lögregla, eiga að geta séð inn í ökutæki og skynjað viðbrögð og bendingar ökumanna í umferðinni. Hér er um einn mikilvægasta öryggisbúnað bifreiðar að ræða. Því er ljóst að við mat á gæðum rúða í ökutækjum verður að leggja til grundvallar almenna gerðarviðurkenningu enda ekki mögulegt með fullnægjandi hætti að ganga úr skugga um einstök öryggisatriði á annan hátt, s.s. varðandi gagnsæi, ljósbrot, styrkleika o.fl. Einnig hefur verið talið að litaðar filmur valdi speglun í glerinu vegna tvöfalds ljósbrots svo og að þær hafi ekki sömu gæðaeiginleika og almennt gerðarviðurkenndar rúður samkvæmt Evrópustöðlum. Þetta mál hefur margoft komið til kasta íslenskra yfirvalda og hefur m.a. verið aflað upplýsinga um framkvæmd þessara mála í nágrannalöndum okkar. Danir hafa til að mynda komist að þeirri niðurstöðu að slíkar plastfilmur hafi ekki sömu gæðaeiginleika og almennt gerðarviðurkenndar rúður, og telja þeir að slíkar filmur auki hættuna á ljósfræðilegri afbökun og skerði auk þess burðarþol rúðunnar.
Læknisfræðilegar ástæður, svo sem mígreni, hafa ekki verið taldar nægja til svo viðamikillar undanþágu frá ákvæðum um einn helsta öryggisþátt bifreiða. Hefur viðkomandi einstaklingum verið bent á að verja sig gegn sólarljósi með öðrum hætti s.s. með notkun augnlinsa og sólgleraugna.
Sumsé:
1) Öryggisrök eru á bak við þetta bann eins og að framan er rakið.
2) Bannið er við dökkum filmum í framrúðum og fremri hliðarrúðum - en ef dökkar rúður eru innifaldar í gerðarviðurkenningu ökutækisins koma þær að sjálfsögðu til greina að því gefnu að ljósgegnumstreymið sé nægjanlegt, sbr. framangreint.
3) Þessar reglur eru samræmdar evrópskar reglur, ekkert sem sérvitrum íslenskum embættismönnum datt í hug, og gildir þetta á öllu EES-svæðinu. Íslensk framkvæmd er því í samræmi við evrópska framkvæmd.
Vona að þetta varpi ljósi á málið.