Sala nýrra bíla það sem af er árinu 2002 Í marsmánuði fyrr á þessu ári var sett frekar vafasamt met í sölu nýrra bíla hér á landi. Þurfti þá að fara ein 25 ár aftur í tíman til að finna jafn lélegan bílasölumánuð. Á þessum tímapunkti höfðu selst eitthvað á milli 1200-1300 nýjir bílar (sem sagt í jan-mars 2002) og væru þær tölur framreiknaðar út árið ætti heildarsala nýrra bíla á árinu 2002 rétt að losa um 5000 eintök. Ekki þótti bílaumboðunum það vænlegar horfur.

En Eyjólfur hefur heldur hresst eftir því sem liðið hefur á árið því að heildarsala á nýjum bílum á þessu ári stendur nú rétt í 4700 eintökum og enn eru eftir tæpir 5 mánuðir af árinu. Hvort sem þakka má jákvæðri þróun íslensku krónunnar undanfarið eða hnitmiðari auglýsingum bílaumboða skal ósagt látið en athyglisvert er að skoða hvernig einstökum tegundum hefur tekist að laga sig að minnkandi eftirspurn eftir nýjum bílum.

Mest seldi bíllinn á Íslandi í dag er aldrei þessu vant Toyota. 1296 nýjar Toyotur hafa runnið út úr Toyotaumboðinu það sem af er árinu sem er alveg ótrúlegir yfirburðir í sölu hjá einstakri bílategund. Toyotaæði Íslendinga virðist því ekki vera í rénun. Salan dregst reyndar saman frá því í fyrra í eintökum talið er á móti kemur að þeir eru að auka markaðhlutdeild, þe ná til sín stærri hlut af sölukökunni í ár.

Það eru aðeins 6 tegundir sem eru að seljast meira nú í ár heldur en í fyrra. Þetta eru (í stafrófsröð) Isuzu, Kia, Peugeot, Skoda, Volkwagen og Volvo.

Hér er Kia óumdeildur sigurvegari enda tvöfaldar hann sölu sína frá því í fyrra. Fer úr 81 eintaki í 162 seld eintök í ár.

Volkswagen gerir það einnig gott þó hann sé ekki að auka sölu mikið frá því í fyrra. Sölutölur þar á bæ hljóða uppá 556 eintök, sem gerir Volkswagen að öðrum söluhæsta bílnum á Íslandi það sem af er ári.

Hekla virðist því vera að gera það nokkuð gott því að fyrir utan VW er Skoda einnig að rokseljast. Sölutölur þar hljóða upp á 244 eintök, sem er ívið meira heldur en í fyrra. Það er því greinilegt að Íslendingar láta ekki gamlar draugasögur um Skoda hindra sig í kaupum á slíkum gripum en Sean Connery neitaði nýlega 134 milljónum fyrir að aka Skoda en kallinn átti að verða andlit nýrrar auglýsingarherferðar þar á bæ. Ástæðan fyrir neituninni var að sögn slæmt orðspor Skoda hér á árum áður. Þetta þótti forráðamönnum Skoda ekki góðar fréttir enda hafa þeir eytt mikilli orku, tíma og stórfé í að losa sig við þessa gömlu ímynd. Löggan í UK virðist hinsvegar vera mjög sátt við Skoda þessa dagana, allavegana samkvæmt fréttum, því að þeir hafa nýlega lagt inn pöntun á talsverðum slatta af Oktavia RS.

Sala á BMW og Lexus stendur nokkurn veginn í stað. Dregst saman um 3 eintök hjá þeim báðum milli ára. Minnkandi sala nýrra bíla virðist því við fyrstu sýn ekki koma hart niður á dýrum bílum en þó má geta þess að sala á Mercedes Benz hefur dregist saman um nær helming.

Sala á öðrum tegundum hefur hinsvegar dregist saman, mismikið þó. Án þess að fara að telja þá alla upp þá má samt nefna nokkrar tegundir til fróðleiks. Sala á Audi, Citroen, Ford, MMC, Nissan, Opel og Subaru hefur dregist saman um ca 30% á meðan sala á Renault og Mazda hefur dregist saman um nær helming. Ekkert hefur svo selst af Porsche í ár.

Með þessar tölur í huga er athyglivert að lesa grein í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem fjallar einmitt um minni innflutning á nýjum bílum til landsins. Þar er rætt við nokkra talsmenn helstu bílaumboð landsins um söluna á þessu ári. Allir bera þeir sig nokkuð vel þrátt fyrir samdrátt og segjast hafa verið undir þetta búnir. Sá undirbúningur fólst einkum í því að færri nýjir bílar voru teknir inná lager þetta árið til að koma í veg fyrir birgðasöfnun sem getur reynst ansi þungur baggi í þessum bransa. Þetta geta menn séð með eigin augum sé litið yfir bílageymsluplönin hjá skipafélögunum niðri í Sundahöfn.

Í upphafi árs gerðu forsvarsmenn bílaumboða sér vonir um að sala á nýjum bílum í ár færi ekki undir 6.000 eintök. Sé salan sem af er árinu framreiknuð út árið sést að sú von ætti að rætast og ætti salan ekki að fara undir 7000 eintök mv sömu söluþróun úr árið. Allt árið í fyrra seldust aðeins 7.248 nýjir bílar sem var 46.5% samdráttur frá árinu á undan þegar 13.569 nýjir bílar voru seldir.

Allir útreikningar hér að ofan eru byggðir á sölutölum nýrra bíla sem birtar eru af Bílgreinasambandi Íslands. Tölurnar má nálgast á www.bgs.is