Nissan 350Z er, eins og flest ykkar ættu að kannast við, tilraun Nissan til að endurvekja ‘The Spirit of Z’, eða öllu heldur anda Nissan 240Z sem var framleiddur á árunum 1970-1973, en þróun Z bílanna er af flestum talin hafa farið niður á við síðan þá. 350Z er ætlað að vera einskonar andlegur arftaki 240Z, hreinræktaður sportbíll.
350Z er fyrst og fremst akstursbíll sem gerir litlar sem engar málamiðlanir. Stýrið er nákvæmt, snýst 2.7 snúninga milli lása og nýtur ekki rafrænnar aðstoðar. Fjöðrunin er ekki rafstýrð, og heldur ekki bensíngjöf og bremsupedali. Ökumaðurinn fær allar upplýsingar um hegðun bílsins og hvernig hann tekst á við veginn, skýrt og ómengað.
Fjöðrunin er að miklu leiti úr áli, sem skilar sér í sneggri hreyfingum og auðvitað minni þyngd. Allar útgáfur bílsins eru búnar svokölluðum ‘anti roll bars’, styrktarbitum sem minnka veltu bílsins í beygjum, ásamt stillanlegum styrktarbita milli demparahúsa að framan.
Vélin í 350Z er 3.5 lítra V6 sem skilar 287 hestöflum við 6200 snúninga, og 274 pundfetum af togi við 4800 snúninga á mínútu. Hún þeytir 1447kg bílnum frá 0-100km/h á 5.5 sekúndum, sem er mjög góður árangur miðað við hlutfall þyngdar og afls. Þessi vél er sú sama og notuð er í Nissan Maxima og Pathfinder, en hefur gengist undir miklar breytingar. Í henni er nú breytileg ventlaopnun auk þess sem ventlarnir opnast meira, og stimplar og kambásar eru úr léttara efni. Hún er staðsett aftarlega, og liggur mestmegnis fyrir aftan framöxul. Með þessari uppstillingu fæst góð þyngdardreifing, eða 53/47 framan/aftan.
Pústkerfið hjálpar líka til við afköstin, en það andar mjög vel. Nissan lagði sérstakan metnað í það að gera hljóðið í því sportlegt.
Bíllinn er tveggja manna og miðast innréttingin við að gera ökumanni til geðs. Sætin eru djúp, stýrið þykkt og gripmikið, og sömuleiðis gírstöngin. Mælarnir, sem eru mjög skemmtilega hannaðir, færast með stillanlegu stýrinu svo að það skyggi ekki á. Innréttingin er frekar látlaus þrátt fyrir að andi gamla góða 240Z svífi yfir. Hún lítur nokkuð vel út, fyrir utan stóra gráa plastfleti á miðjustokki sem minna ónotalega á innréttinguna í Toyota Celica.
Nissan 350Z kemur í 5 mismunandi útfærslum:
- Base útfærsla kemur á 17” felgum, sömu fjöðrun og sama 6 gíra kassa og dýrasta útfærslan. Þetta er gert til þess að höfða til fólks sem vill góðan grunnbíl til breytinga, og einnig þeirra sem hafa einfaldlega ekki efni á dýrustu útgáfunni.
- Enthusiast útfærsla er sú eina sem kemur með sjálfskiptingu. Auk þess er í pakkanum spólvörn, skriðstillir, driflæsing og öflugri ökuljós.
- Performance útfærsla fær 6 gíra kassann, 18” felgur, stöðugleikabúnað (stability control) og búnað til þess að fylgjast með loftþrýstingi í dekkjum innan úr bílnum.
- Touring útfærslan hefur sama búnað og Performance, auk leðurinnréttingar, rafmagns í sætum og speglum og 240w Bose hljóðkerfis. Touring fær þó ekki stöðugleikabúnaðinn.
- Aðal útfærsla bílsins nefnist Track. Track hefur minni loftmótstöðu en hinar útfærslurnar, eða 0.29cd á móti 0.30cd, og liggur einnig betur. Þessu er náð með þrískiptri undirpönnu og litlum vindskeiðum að framan og aftan. Track kemur á 18” Rays felgum sem eru töluvert léttari en hinar, og hefur auk þess öflugri bremsur. Fjöðrunin er stífari, og bíllinn er búinn stöðugleikabúnaði og driflæsingu.
Útlit bílsins er framsækið og eru skiptar skoðanir um ágæti hönnunarinnar. Mér þykir formið mjög skemmtilegt, og á heildina litið finnst mér hann fallegur á að líta. Illa staðsett stefnuljós og klaufalegir hurðaopnarar stinga samt í stúf við restina af bílnum, og neðri ljósin að aftan þykja mér sérlega misheppnuð.
350Z er mjög viðkvæmur fyrir litum, og munar t.d. töluverðu á því að sjá hann silfurlitaðan og svo appelsínurauðan. Mér finnst dökkir litir klæða hann mun betur en ljósir.
Það verður gaman að fylgjast með umfjöllun um 350Z í bílablöðunum næstu mánuði, því ég hef á tilfinningunni að Nissan hafi tekist ætlunarverk sitt, að búa til hreinræktaðan sportbíl.