Það er svo rosalega mikið til af spennandi bílum til að fjalla um. Mikið af þeim eldri bílar sem flokkast sem fornbílar hér heima. Næsta mál á dagskrá hjá mér er að fara yfir þekkta bíla sem mörg okkar kannast við sem einkabíla frægra söguhetja úr teiknimyndasögunum!
Bíllinn sem varð fyrir valinu hjá mér þetta sinn er hinn stórskemmtilegi og merkilegi Honda S 800, forveri S 2000 bílsins. Eigandi þessa stórmerkilega bíls var ekki ómerkari maður en vikadrengurinn Svalur og átti hann mörg ævintýri í þessum bíl ásamt félögum sínum Val og Gormi!
Þetta voru uppáhalds bækurnar mínar þegar ég var á mínum yngri árum og man ég alltaf sérstaklega vel eftir Honda bílnum sem þeir óku um á. Þetta hefur mér alltaf þótt nokkuð merkilegt og í sambandi við þetta munu fleiri þekktir bílar birtast í greinum mínum eins og t.d. bíllinn hans Zorglúbb sem iðulega ók um á geðveikum Citroen DS 23(Pallas) bílum! Þetta er þó líka merkilegra fyrir þær sakir að Svalur og Valur bækurnar eru franskar en bíllinn sem þeir óku á er fyrsti framleiðslubíll Honda fyrirtækisins.
Allavega. Hinn raunverulegi Honda bíll var hannaður 1962 sem smábíll með sporteiginleika fyrir ákveðin kaupendahóp bíla sem reiddi sig á skattaívilnanir sem veittar voru vegna kaupa á smábílum. Vélin í bílnum var úr Honda pallbíl og var aðeins 356cc (S 360) en skilaði samt 33 hestöflum við 9000 snúninga!!!! Vtec hvað????
Þessi bíll fór þó ekki í framleiðslu þar sem betra þótti að bjóða hann með aðeins stærri vél. Bíllinn fór því fyrst í framleiðslu sem S 500 með 44 hestafla vél og skömmu síðar sem S 600 með 57 hestafla vél. 1964 var bíllinn síðan boðin í Coupé útfærslu en fram að því var hann aðeins til sem blæjubíll.
1966 var byrjað að framleiða bílinn með stýrinu “réttu” megin en fram að því hafði útflutningur einungis verið til Ástralíu og í litlu mæli til UK. 1966 byrjuðu því evrópubúar að kaupa þessa bíla þar sem þeir hafa alltaf verið dálítið veikir fyrir smáum bílum, þá sérstaklega í suður evrópu og ekki spillti fyrir að bíllin var með blæju.
Því miður fyrir okkur þá dó útflutningur þessara bíla og bíllinn með þegar S 800 kom í framleiðslu og stefna var tekin á ameríkumarkað. Sá bíll var upprunalega hannaður til útflutnings og var búið að eiga við hann talsvert. Hann var kominn drifskaft í stað þess að vera keðjudrifinn eins og áður og sömuleiðis fékk hann diskabremsur að framan og vélin skilaði nú 70 hestöflum við 8000 snúninga. En þar sem ameríkumarkaður var mikilvægasti markaðurinn þá var öll áhersla sett á þann markað sem hafnaði svo bílnum þar sem vélin þótti menga of mikið. Skömmu síðar var framleiðslu þessa bíls hætt eða árið 1970.
Hondan var upprunalega sett til höfuðs Spitfire, Healey og Midget bílunum og jarðaði hún gjörsamlega samkeppnina með þessum frábæra bíl. Til samanburðar má nefna það að þegar bresku sportararnir, sem voru mjög vinsælir, misstu “andann” í 5500 snúningum var Hondan rétt að byrja, rauðlína byrjaði í 8500 snúningum og endaði í 11000. Enn í dag eru menn gáttaðir á þessari vél!
Þessi bíll er frábært dæmi um hvað gerist þegar verkfræðingarnir fá að hanna bíl fyrir sjálfa sig, en hópurinn sem hannaði þennan bíl samanstóð af ungum japönskum verkfræðingum (sá elsti 28 ára).
Einhversstaðar sá ég þá fullyrðingu að þetta hefði verið fyrsti fólksbíllinn sem Honda hannaði og seldi, hann er þá bara enn merkilegri fyrir vikið! Allir bílar Honda fram að 1962 voru frumgerðir sem ekki náðu framleiðslustigi (fyrir utan létta pallbíla sem þeir framleiddu).
Tæknilega hlið þessa bíls var mjög merkileg á þessum tíma, tveir yfirliggjandi knastásar, fjórir blöndungar og þyngdin var aðeins 700 kíló og allt var þetta knúið áfram með 4 gíra kassa með synchromesh á þremur efstu gírunum. Bíllinn var með sjálfstæða fjöðrun. Hámarkshraði S 800 bílsins var 160 kílómetrar sem er sosem alveg nóg. En þekktastir voru þessir bílar fyrir mjög góða aksturseiginleika og þeir voru vinsælir sem track cars og gífurlega sparneytnir í þokkabót.
Enn og aftur verða gamlir bílar til að varpa skugga á nýja framleiðslubíla bílaframleiðendanna. Í mínum augum er ekkert varið í Vtec bílana í samanburði við þennan gamla jálk og mesta synd að þróunin sé ekki meiri en þetta á næstum 40 ára tímabili. S 2000 er þó nokkuð merkilegur bíll og sem slíkur ágætis arftaki!
Þessi bíll er formlega kominn á óskalistann, eða ætti ég að segja innkaupalistann!!