Fiat 500
Þetta efni kemur kannski mörgum ykkar á óvart en ég er staðráðinn í því að skrifa um áhugaverða bíla og það felur í sér fordómaleysi gagnvart afli og því hef ég reynt að skrifa um bíla sem mér finnst hafa karakter og jafnvel eitthvað merkilegt til málanna í þróun bílsins.
Sá sem vakti athygli mina í sumar var Fiat 500. Þetta eru pínulitlir bílar sem eru ennþá mjög algengir á Ítalíu og mikill metnaður er lagður í að hafa þessa bíla sem upprunalegasta og í top standi. Þessir bílar eru einnig fokdýrir og varpar það nokkru ljósi á hve miklum “cult” standard þessir bílar hafa náð, líkt og Austin Mini.
Í júlí 1957 kom Fiat 500 fyrst á markað, ætlaður sem arftaki Fiat Topolino. Bíllinn var og er agnarsmár með vélina að aftan og drifið á afturöxli. Hann hafði sjálfstæða fjöðrun á hjólum og knúinn með hálfs líters loftkældri, tveggja strokka vél sem skilaði 13 hestöflum! 13 hestöflunum var komið í götuna með fjögurrar gíra beinskiptingu. Síðar sama ár jók Fiat aðeins við búnað bílsins og jok sömuleiðis aflið í 15 hestöfl og lækkaði verðið þar sem salan fór hægar af stað en þeir bjuggust við.
1959 kom sportútgáfa á markað eftir mikla velgengni í 12 klukkustunda kappakstri á Hockenheim! Sá bíll skilaði 21.5 hestafli og hafði rauða sport rönd á hliðunum. Algengt var að að þessir bílar væru teknir með tauþaki sem hægt var að rúlla upp til að njóta suðrænnar veðurblíðunnar. Það má vel ímynda sér að á þessum bíl hafi fundist mikill munur á afli þar sem aflið jókst um 43% án þess að bíllinn þyngdist nokkuð. Það má líka skjóta því að hér að færasti ökuþórinn í Formúla 1 Michael Schumacher fékk gefins svona bíl frá Ferrari árið 2000 í þakkarskyni, en fyrsti bíll Schumacher hafði einmitt verið af þessari gerð og hefur hann tekið ástfóstri við bílinn.
Síðasti bíllinn var framleiddur 1975 en þá var búið að framleiða 3.685.000 bíla án þess að hann breyttist nokkuð að ráði. Það þarf ekki að taka fram að þessi bíll eftirstríðsárana var ekki mjög sprækur og komst ekki hraðar en 100 kmh. En bíllin bauð uppá mikið notagildi og var og er ennþá í dag vinsæll borgarbíll þar sem hann er rúmgóður en tekur ekki mikið pláss þegar nauðsynlegt er að troða sér í stæði.
Ég sá talsvert af svona bílum í sumarfríinu í ár og var heillaður að sjá hve vel var hugsað um þessa bíla og hve mikið af þeim var í umferð. Það var einnig athyglisvert að sjá suma þeirra lítandi út eins og þeir væru splunkunýjir og mun það vera vegna þess að mjög vinsælt er að gera þessa bíla upp og eru þeir orðnir hálfgert tískufyrirbrigði á Ítalíu, Frakklandi og Bretlandi þar sem þessir bílar eru hvað vinsælastir.
Á mobile.de selst gott eintak af svona bæjarbíl á 300 þúsund en nokkur dæmi eru um tvöfalt það verð.
Þetta væri nú ekki slæmur kostur sem aukabíll á heimili, 25 ára gamall með fornbílatryggingu og algjör sparibaukur. Hvernig væri nú að fólk hugsaði um eitthvað annað en nýja bíla og afföll!