Renault 4, fyrsti MPV bíllinn? Renault 4


Ég held áfram að skrifa um áhugaverða bíla sem settu svo mikið mark á evrópu eftir seinna stríð. Bíllinn sem ég tek nú fyrir er Renault 4.

Systir mín og hennar maður áttu svona bíl einu sinni og minnast þau hans alltaf með mikilli hlýju. Það er í raun merkilegt að maður skuli alltaf muna eftir bílunum sem voru ekki fullkomnir en höfðu karakter en gleymir svo Corolla bílnum sem maður átti í 7 ár án vandræða.

Það sem vakti upp minningar hjá mér um þennan merkilega bíl var sumarfríið mitt á Ítalíu. Þar kynntist ég frábærum ítala sem átti 1984 módel af Renault 4 sem hann hafði safnað fyrir og keypt nýjann á sínum tíma. Bíllinn var kominn vel yfir 200 þúsund kílómetra og stóð ennþá fyllilega fyrir sínu. Hann var búin beinskiptingu í mælaborðinu sem er mjög praktískt fyrirkomulag (engin nýjung semsagt í nýja Honda Civic bílnum) því þá fær maður slétt golf í bílinn. Hann var nánast án klæðningar hjá honum en gekk alltaf eins og klukka og mekkanískt séð var hann óaðfinnanlegur.
Hann er búin að fara með þennan bíl um alla Evrópu og Afríku og átti margar skemmtilegar sögur til að segja okkur af bílnum og voru þeir orðnir það nánir í dag að hann ætlaði sér ekki að selja hann og ef bíllinn vildi ekki fara eitthvað þá færi hann bara ekki neitt. Hann var fyllilega sáttur við það að ef bíllinn bilaði á leiðinni í brúðkaup, þá mætti hann bara ekki!!!! Bíllinn hans er aðeins 29 hestöfl en þrátt fyrir það var ekkert vandamál að aka um allan bæjinn með 5 fullorðna og gúmmíbát á kerru í eftirdragi!!!

Nóg um það. Renault 4 kom fyrst á markað 1961 í mjög basic útgáfu sem var aðeins þrjú hestöfl, án allra innréttinga og aðeins fáanlegur í einum lit. Almenningur var þó lítt hrifin af þessari kerru og sótti frekar í hinn kraftmeiri 4 hestaflabíl (Renault 3 fyrir 3 hestöfl og Renault 4 fyrir 4 hestöfl). Aðeins voru framleiddir2526 slíkir bílar. Í byrjun voru þessir bílar ekki mjög vinsælir enda voru þeir mjög aflitlir svo ekki sé meira sagt, hráir og aðeins með 3 gíra gírkassa.

Renault 4 var fyrsti fimm dyra bíllinn sem kom á markað og fyrsti framhjóladrifni bíll Renault. Bíllinn ber þess glögglega merki að hafa verið hannaður út frá ákveðnum kröfum þar sem útlitið fylgdi svo eftir á. Því var bíllinn oftast talinn frekar óheppinn í útliti en það stöðvaði engan frá því að dýrka þennan bíl.

Upprunalega voru vélarnar í þessum bílum 0.75 lítra vélar en náðu í allt að 1.2 lítra stærð í lok framleiðslunnar. Þessir bílar voru framleiddir til ársins 1995 í rúmlega 8 milljón eintökum. Eins og sést á þessari síðu http://www.renault4.tmfweb.nl/ sem reyndar er SÉRSTAKLEGA FLOTT síða, þá voru bílarnir framleiddir í hinum ýmsu útgáfum og nutu ávallt mikilla vinsælda. Þeir þróuðust jafnt og þétt í gegnum framleiðslutímann þó svo færi að lokum að ekki þótti fært að framleiða bílinn áfram vegna breyttra mengunarvarnalaga og krafna til öryggis bifreiða.

Flestir bílarnir voru búnir öllum nauðsynlegustu þægindum og eru geysilega þægilegir í umgengni. Gírskiptingin er óhefðbundin en þægileg í notkun og hentaði vel ökumönnum sem reyktu þar sem auðvelt var að hafa logandi rettuna í hendinni sem hvíldi á stönginni. Tímarnir breytast!

Hér eru það ekki endilega aksturseiginleikarnir sem skipti máli heldur notagildið. Þessir bílar voru reyndar frægir fyrir góða fjöðrun en þá er átt við mjúka fjöðrun sem réð vel við ójafna og lélega vegi ásamt mikilli veghæð en þessir bílar eru hinir mestu dugnaðarforkar í torfærum þrátt fyrir að hafa ekkert fjórhjóladrif. Þeir voru reyndar framleiddir um tíma í Marokkó.

Þessir bíla litu dagsins ljós í hinum ýmsu útgáfum sem voru nokkuð nýstárlegar. Meðal annars sem sendibílar, hurðalausir safaribílar, Parisienne sem voru með nýjustu parístískunni í mynstrum á hliðunum og svo var til Alpine Turbo útgáfa af bílnum sem er nú flippaðasti turbo bíll sem ég hef séð myndir af. Ég er reyndar ekki viss um að það hafi verið fjöldaframleiðslubíll, en bara hugmyndin er geggjuð.

En og aftur má minnast á hve þróun bílanna er skammt á veg kominn. Nýjungar eins og Scenic hafa t.d. átt sér mjög svipaða forvera.